Kvennadagur Þórdís Lóa Þórhallsdóttir í Hólavallakirkjugarði í fyrra.
Kvennadagur Þórdís Lóa Þórhallsdóttir í Hólavallakirkjugarði í fyrra. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Sigríður Helga Sverrisdóttir sigridurh@mbl.is

Sigríður Helga Sverrisdóttir

sigridurh@mbl.is

Merkisdagur í sögu kvennabaráttunnar á Íslandi er í dag, 19. júní. Í ár eru 109 ár liðin frá því að konur 40 ára og eldri fengu kosningarétt til Alþingis. Konur héldu fyrst upp á kvenréttindadaginn 19. júní 1915 þegar ár var liðið síðan Kristján X. konungur undirritaði lög um breytingu á stjórnarskrá. Lögin tóku þó ekki gildi fyrr en 19. janúar 1916.

Í tilefni dagsins verður blómsveigur frá Reykvíkingum lagður á leiði baráttukonunnar Bríetar Bjarnhéðinsdóttur. Athöfnin hefst klukkan 11 með tónlistarflutningi í Hólavallakirkjugarði. Þórdís Lóa Þórhallsdóttir forseti borgarstjórnar mun leggja blómsveig á leiðið.

Þá munu Kvenréttindafélag Íslands og Lady Brewery standa fyrir viðburðinum Skál fyrir konum! sem verður haldinn á Fjallkonunni við Ingólfstorg frá kl. 18 til 20. Þar verður skálað fyrir því að konur á Íslandi fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis 19. júní 1915. Einnig verður fagnað útgáfu ársrits Kvenréttindafélagsins 19. júní sem kemur út í 73. skiptið í ár.

Kvenfélagasamband Íslands stendur ekki fyrir neinum sérstökum viðburði í dag en nk. föstudag, 21. júní, verður minningarathöfn í tilefni af 100 ára dánardegi Ólafíu Jóhannsdóttur, forvígsmanns íslenskrar kvennabaráttu, byltingarkonu og heimskonu, eins og fram kemur í auglýsingu um viðburðinn.

Dagskráin hefst kl. 11 á Hallveigarstöðum. Mælst er til að sem flestir verði klæddir íslenskum þjóðbúningi. Fólk getur mætt fyrr ef það þarf aðstoð við að klæðast. Flutt verða ávörp og að þeim loknum, eða kl. 12, mun fylkingin ganga að leiði Ólafíu í Hólavallagarði þar sem blómsveigur verður lagður að leiði hennar. Sr. Henning Emil Magnússon fer með blessun og fulltrúi djákna leiðir bæn. Eftir athöfnina í kirkugarðinum verður kaffi á Hallveigarstöðum.

Kvennaheimilið Hallveigarstaðir á einnig afmæli í dag en þennan dag árið 1967 var húsið fyrst opnað. Nærri hálfa öld tók að safna fyrir byggingu hússins, en konur á Íslandi hófu að safna fyrir sérstöku kvennahúsi skömmu eftir að þær fengu kosningarétt, á öðrum áratug síðustu aldar.