Gunnþórunn Bender vinnur við að bjóða upp á ævintýraferðir á Vestfjörðum.
Gunnþórunn Bender vinnur við að bjóða upp á ævintýraferðir á Vestfjörðum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég kom fyrst til Patreksfjarðar haustið 2008 en þá var ég alls ekki á þeim buxunum að setjast hér að. Ég hafði varið síðasta áratugnum í að ferðast um heiminn, fyrst á Spáni og Englandi og síðar sem fararstjóri sem flakkaði á milli staða

Ég kom fyrst til Patreksfjarðar haustið 2008 en þá var ég alls ekki á þeim buxunum að setjast hér að. Ég hafði varið síðasta áratugnum í að ferðast um heiminn, fyrst á Spáni og Englandi og síðar sem fararstjóri sem flakkaði á milli staða. Í nokkur ár varði ég sumrinu á Spáni, haustinu í Mið- og Austur-Evrópu og vetrinum í Karíbahafinu. Ég kom fyrst til Patreksfjarðar um það leyti sem Geir H. Haarde bað Guð að blessa Ísland og bankarnir hrundu. Á þeim tíma var ég búin að ráða mig til eyjarinnar Barbados fyrir veturinn. Vegna hrunsins þurfti ferðaskrifstofan að breyta vetraráformunum og valdi ég Patreksfjörð fram yfir Gran Canarias enda hafði maðurinn minn náð einhverju tangarhaldi á mér.“

Gunnþórunn hefur í nógu að snúast fyrir vestan og er lífið allt annað en rólegt hjá henni.

„Margur telur að það ríki mikil rólegheit hjá fólki sem býr úti á landi en svo er ekki alltaf. Í litlum bæjum úti á landi ber fólk iðulega marga hatta. Það þarf að manna hinar ýmsu stjórnir, nefndir og ráð og færra fólk er um hverja stöðu. Eins og er sinni ég starfi mínu hjá Westfjords Adventures, rek gistiheimilið Pálshús, sit í bæjarstjórn í sameinuðu sveitarfélagi Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar, sit í stjórn sóknarnefndar Patreksfjarðarkirkju og er einnig í stjórn Héraðssambands Hrafna-Flóka svo eitthvað sé nefnt. Einnig á ég þrjú börn sem eru á aldrinum tveggja til 13 ára svo það er nóg að gera í daglegu lífi fyrir vestan. Maðurinn minn rekur svo Bílaverkstæðið Smur og dekk á Patreksfirði og svo tökum við þátt í strandveiðigleðinni á sumrin með April BA25.“

Eru vakin og sofin yfir rekstrinum

Gunnþórunn segir að þegar hún kom fyrst til Patreksfjarðar hafi verið lítil afþreying fyrir ferðamenn á svæðinu.

„Harðdugleg hjón og frumkvöðlar héldu úti safni um frönsku sjómennina við Íslandsstrendur og fóru með ferðamenn á sjóstöng við og við. Lítið annað var í boði. Ég og tveir aðrir tókum okkur til og stofnuðum ferðaskrifstofuna Westfjords Adventures. Að reka ferðaskrifstofu þar sem háannatíminn er fjórir mánuðir á ári er ekki alltaf auðvelt. Það er ekki gert nema með því að tína allar brauðmylsnur sem fyrirfinnast og vera vakinn og sofinn yfir rekstrinum. Í dag bjóðum við upp á fjölbreytta afþreyingu og þjónustu. Við bjóðum upp á jeppaferðir, rútuferðir, gönguferðir, hjólaferðir og kajakferðir. Á sumrin höldum við úti áætlunarakstri á milli Patreksfjarðar, Brjánslækjar og Ísafjarðar í tengslum við ferjuna Baldur. Við erum með upplýsingamiðstöð á Patreksfirði ásamt lítilli minjagripaverslun, einnig sjáum við um tjaldsvæðið á Patreksfirði fyrir sveitarfélagið ásamt því að vera umboðsaðili fyrir Bílaleigu Akureyrar/Europcar. Yfir vetrartímann „dundum“ við okkur við að setja saman pakkaferðir um allan heim fyrir hópa af svæðinu svo sem fyrirtæki, íþróttafélög, saumaklúbba og fleiri. Við höfum boðið upp á ferðir til Kúbu, Spánar, Ítalíu, Portúgal, Svíþjóðar, Póllands, Marokkó, Englands og fleiri staða.

Árið 2013 var tekin sú ákvörðun að markaðssetja höfnina á Patreksfirði sem viðkomustað skemmtiferðaskipa. Í ár eigum við von á 30 skemmtiferðaskipum en Westfjords Adventures hefur sinnt þessum komum og boðið skipafarþegum upp á fjölbreyttar ferðir um svæðið.

Í dag stendur til að marka stefnu um komur skemmtiferðaskipa til Patreksfjarðar, meðal annars til þess að tryggja sátt og samlyndi heimamanna og þeirra ferðamanna sem heimsækja okkur með skemmtiferðaskipum. Þeir sem koma að málinu virðast vera sammála um mikilvægi þess að takmarka fjölda farþega í landi hvern dag fyrir sig og fögnum við því heilshugar. Við megum ekki fara yfir þolmörk ferðamannastaða en eins og allir vita getur það haft gríðarlega slæmar afleiðingar. Það skiptir mestu máli að íbúar séu sáttir við komur ferðamanna og það skiptir líka máli að þeim gestum sem koma sé vel sinnt. Fólk þarf að geta valið á milli nokkurra áhugaverðra skoðunarferða eða ef það kýs, að geta rölt um bæinn og sest niður á kaffihúsi. Við viljum geta þjónað skipafarþegunum vel, boðið upp á úrval spennandi ferða og gert það að verkum að þeirra upplifun af svæðinu sé góð. Það skiptir líka máli að upplifun þeirra ferðamanna sem koma akandi inn á svæðið breytist ekki vegna þess að það sé skip í landi. Ferðaskrifstofan sinnir mikilvægu hlutverki í að dreifa þeim farþegum sem koma í land svo að ekki myndist örtröð á áfangastöðum og perlum svæðisins. Það er hægt að gera með því að senda rúturnar ekki allar af stað á sama tíma eða á sama stað. Þetta er mikill ábyrgðarhlutur og sér í lagi til þess að sporna við því að þolmörkum sé náð á okkar dýrmætu áfangastöðum.“

Hvernig er að starfa í ferðaþjónustu?

„Það er ótrúlega spennandi að starfa í ferðaþjónustu, starfið er fjölbreytt, krefjandi og skemmtilegt. Við erum að þjónusta fólk sem kemur alls staðar að og frá ólíkum menningarheimum. Það koma upp alls konar áskoranir en við leggjum okkur fram við að gera vel og reyna að auka fjölbreytnina ár frá ári. Þegar kórónuveirufaraldurinn skall á tókum við okkur til og hófum að bjóða upp róðrarbretta- og kajakleigu en í ár erum við að þróa rafmagnshjólaferðir og verður ein þeirra um Kjaransbrautina, eða fyrir Sléttanesið sem er ótrúlega spennandi og falleg leið. Það er kannski ókosturinn við starfið að maður fær ekkert sumarfrí en í staðinn reynir maður að skipuleggja sumarfríið sitt yfir vetrartímann.“

Ófáar náttúruperlur á sunnanverðum Vestfjörðum

Hvert ferð þú helst þegar þú vilt skella þér í stutt ferðalag?

„Þar sem það er mikið annríki á sumrin þá getum við ekki ferðast mikið út fyrir svæðið að undanskildu einu og einu fótboltamóti eða ættarmóti. Hins vegar eigum við sumarbústað í eingöngu 20 mínútna akstursfjarlægð frá Patreksfirði og það er aldeilis hægt að njóta út frá þeim stað. Barðaströndin og Vatnsfjörðurinn er algjör náttúruperla og er þetta draumastaðurinn fyrir göngugarpa. Það liggur dásamleg gönguleið frá Barðaströnd og yfir á Rauðasand og er þessi leið óviðjafnanleg á góðum dögum. Einnig eru frábærar náttúrulaugar á svæðinu og má þar nefna Hellulaug og Laugarneslaug við Birkimel. Við erum með fallegar hvítar sandstrendur allt í kring þar sem verja má góðum tíma með börnunum.“

Átt þú uppáhaldsnáttúruperlu á svæðinu?

„Það er mjög erfitt að velja úr, því náttúruperlurnar eru ófáar á sunnanverðum Vestfjörðum. Þar ber að nefna fossinn Dynjanda en þegar upp stíginn er komið að fossinum er orkan og fegurðin slík að það er erfitt að toppa. Látrabjarg er líka einstök perla enda er bjargið vinsælasti áfangastaður Vestfjarða. Bjargið er stærsta sjávarbjarg Íslands og stærsta álkubyggð í heimi. Lundinn er líklega vinsælasta fuglategund bjargsins en þar verpir einnig stuttnefja, langvía, rita, fýll og fleiri. Svuntufossinn í botni Patreksfjarðar er svo ein falin náttúruperla sem gaman er að heimsækja.“

Mælir með sundlauginni á Patreksfirði og Vegamótum á Bíldudal

En hvar færðu þér sundsprett?

„Yfirleitt í okkar fallegu sundlaug á Patreksfirði en úr lauginni er dásamlegt útsýni yfir fjörðinn. Þar er að finna um 17 metra langa útilaug, tvo heita potta, vaðlaug, kaldan pott, sána og líkamsræktarstöð. Aðstaðan er frábær og útsýnið einstakt.“

Hvar færðu besta matinn á Vestfjörðum?

„Á sunnanverðum Vestfjörðum erum við með mikið úrval æðislegra veitingastaða. Á Bíldudal er að finna einstakan veitingastað sem heitir Vegamót. Þar bjóða þeir upp á líklega einn besta fisk og franskar sem hægt er finna, ásamt ljúffengum hamborgurum og kjúklingasalatið er klárlega það besta sem ég hef smakkað. Ef þú situr uppi ertu með flott útsýni yfir fjörðinn og hafnarsvæðið.“

Ertu búin að skipuleggja sumarið þitt?

„Í sumar er mikil vinna fram undan en frítímann minn fær fjölskyldan. Við ætlum að fara á eitt fótboltamót og á eitt ættarmót. Síðan ætlum við að grípa tækifærið þegar tími gefst til þess að njóta lífsins hér á Vestfjörðum í faðmi fallegrar náttúru.“