Það er óneitanlega dapurlegt að horfa upp á spár um útkomu Íhaldsflokksins í komandi kosningunum, sem verða eftir hálfan mánuð. Þeir sem svartsýnastir eru í sínum spám þykjast nú horfa upp á pólitísk örlög fyrir flokkinn, sem verði með ólíkindum og ekkert fordæmi fyrir, þótt horft sé til baka „svo langt sem augað eygir“.
Fyrir tæpum 5 árum leiddi Boris Johnson flokk sinn til stórsigurs, sem var nánast einsdæmi, og þarf að horfa aftur til sigra Margrétar Thatcher til að sjá eitthvað þessu líkt. Komið var bragði á sigurvegarann með ásökunum um að hann hefði ekki gætt sín nægilega í umgengni um reglur heilbrigðisyfirvalda um „covid“ og hið fjölbreytta rugl sem því fylgdi. Þó hafði Boris legið milli heims og helju á ríkisspítalanum í margar vikur, en haft það af að lokum og fékk í framhaldinu efasemdir um framgöngu heilbrigðisyfirvalda og reglugerðafargan svo sem grímuskyldu.
Sjálfur Anthony Fauci, sem var nánast keisari í covid-málum, og stóð fyrir lokunum skóla í Bandaríkjunum í heilt skólaár, sem síðar urðu efasemdir um, hefur síðan viðurkennt að þær hafi „orkað tvímælis“.
Boris Johnson hafði boðið mönnum upp á bjórglas í garði Downingstrætis 10, og „embættismaður“ í Downingstræti 11, sem hýsti fjármálráðherra, náði mynd af „hneykslinu“, en Rishi Sunak var þá fjármálaráðherra. Óskiljanlegt fár var blásið upp, sem komið er á daginn að ekkert var í raun.
Þessi saga er þekkt og í framhaldinu tókst að flæma í burtu Boris Johnson, sigurvegarann mikla frá í desember 2019, en þeir sem við embætti hans og ríkisstjórn tóku hafa glutrað hinu mikla fylgi niður og mun meira en það.
Þeir sem fyrir þessu stóðu sjá nú að atlagan var skammgóður vermir, líkust því að samsærismenn hefðu framið harakiri, en hafa nú leitað á náðir Borisar um hjálp í þeirri miklu vörn sem þeir hafa komið sér í. Boris Johnson hefur tekið þeirri beiðni furðuvel, en nú er sennilega allt of seint í sitjandann gripið.