Við viljum og þurfum öflugan hlutabréfamarkað en við þurfum þó að vera tilbúin til þess að velta upp óþægilegum spurningum um markaðinn.
Við viljum og þurfum öflugan hlutabréfamarkað en við þurfum þó að vera tilbúin til þess að velta upp óþægilegum spurningum um markaðinn. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Frá 2020 hafa tíu ný félög bæst við Aðalmarkað Kauphallarinnar. Sex þeirra hafa komið ný inn á markað en fjögur hafa flutt sig yfir af First North-markaðnum. Þá hafa tvö félög vikið af markaði. Það var mikið líf á markaði á árunum 2020-2022

Frá 2020 hafa tíu ný félög bæst við Aðalmarkað Kauphallarinnar. Sex þeirra hafa komið ný inn á markað en fjögur hafa flutt sig yfir af First North-markaðnum. Þá hafa tvö félög vikið af markaði. Það var mikið líf á markaði á árunum 2020-2022. Icelandair, sem þegar var skráð á markað, fór í vel heppnað hlutafjárútboð haustið 2020 og síðar fóru Síldarvinnslan og Íslandsbanki í gegnum vel heppnuð frumútboð og skráningu. Útboð Nova, sem fór fram sumarið 2022, var ekki jafn vel heppnað en það var aftur á móti útboð Ölgerðarinnar sama sumar. Alvotech, Amaroq, Hampiðjan og Kaldalón hafa öll fært sig af First North-markaðnum yfir á Aðalmarkað á liðnum árum. Alvotech og Amaroq eftir stutt stopp. Útboð og skráning Ísfélagsins heppnaðist vel undir lok síðasta árs þrátt fyrir erfiðar markaðsaðstæður og nú síðast kom Oculis nýtt inn á markað hér á landi eftir að hafa verið þegar skráð í Bandaríkjunum (líkt og nokkur önnur skráð félög hér á landi).

Aðstæður á hlutabréfamarkaði voru líka góðar á fyrrnefndu tímabili. Vextir voru lágir og fjármagn leitaði því inn á markaðinn auk þess sem fyrrnefnd útboð vöktu áhuga bæði almennings og fagfjárfesta. Reyndar vakti þátttaka almennings verðskuldaða athygli. Þátttaka almennings ætti einnig að vekja ánægju, sem hún að vísu gerði, enda mikilvægt að almenningur sjái sér hag í því að taka þátt á hlutabréfamarkaði. Við bestu mögulegu aðstæður væri almenningur virkur á hlutabréfamarkaði til lengri tíma. Þannig verður einnig til áhugi á rekstri fyrirtækja, þekking á því hvernig fyrirtæki eru rekin, afkomu þeirra, þáttum sem geta haft áhrif á afkomu og þannig mætti áfram telja. Það myndi e.t.v. breyta almennri umræðu um fyrirtækjarekstur, arðgreiðslur og aðra þætti sem eru mikilvægir í fyrirtækjarekstri.

Aðstæður eru erfiðari um þessar mundir. Vextir eru háir og það er einfaldara og hagkvæmara að leggja peninga inn á þá fjölbreyttu sparnaðarreikninga sem bankarnir bjóða upp á. Það verður því að teljast ólíklegt að fjármagn almennings leiti inn á hlutabréfamarkaðinn í bili. Þá er um það rætt meðal markaðsaðila að markaðurinn hafi þegar verið þurrausinn, meðal annars með stórum stöðum fagfjárfesta í Alvotech og líklegt verður að telja að misheppnað útboð Íslandshótela í lok maí hafi liðið fyrir þær aðstæður, því miður. Þá eru lífeyrissjóðir óvirkir á kaupendahliðinni, sem útskýrir að einhverju leyti þá verðlækkun sem átt hefur sér stað á liðnum misserum, í bland við annað.

Þessi staða er vonandi tímabundin. Það kemur að því að vextir lækki og á einhverjum tímapunkti munu fagfjárfestar, lífeyrissjóðir sem og aðrir, láta til sín taka á markaði með tilheyrandi áhrifum. Það verður þó ekki hjá því komist að spyrja hvort innstæða sé fyrir því að rúmlega 30 félög séu skráð á markað hér á landi, 27 á Aðalmarkað og sex á First North. First North-markaðurinn gefur, eins og sakir standa, enga raunverulega mynd af verðmyndun fyrirtækja og Aðalmarkaðurinn er það grunnur að hægt er að hreyfa gengi stærri fyrirtækja með nokkuð hundruð þúsund króna viðskiptum, eins og við höfum ítrekað séð á liðnum mánuðum. Það er sem fyrr segir óskandi að til lengri tíma verði hér virkur hlutabréfamarkaður þar sem bæði fagfjárfestar og einstaklingar sjá hag sinn í því að stunda viðskipti. Við eigum þó að vera óhrædd við að velta upp óþægilegum spurningum um stöðu markaðarins og það hvernig við viljum sjá hann þróast.