Raunverðshækkun íbúðaverðs á ársgrundvelli nam 2,2% í maí.
Raunverðshækkun íbúðaverðs á ársgrundvelli nam 2,2% í maí. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Íbúðaverð tók kipp milli mánaða í maí, en á síðustu tólf mánuðum hefur íbúðaverð hækkað um 8,4%, sem er rúmum tveimur prósentustigum yfir verðbólgu. Þetta kemur fram á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar

Íbúðaverð tók kipp milli mánaða í maí, en á síðustu tólf mánuðum hefur íbúðaverð hækkað um 8,4%, sem er rúmum tveimur prósentustigum yfir verðbólgu. Þetta kemur fram á vef Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Hækkunin var mest meðal sérbýlisíbúða á höfuðborgarsvæðinu en hækkunin nam um það bil 2,5%, samanborið við 0,2% hækkun og 0,3% lækkun á íbúðum í fjölbýli á höfðuborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.

Íbúðaverð hefur þannig hækkað að raunvirði á milli maí mánaða 2023 og 2024, líkt og mánuðinn á undan. Þar áður hafði verðbólga mælst umfram íbúðaverðshækkun á ársgrundvelli í 14 mánuði samfleytt, eða frá því í febrúar 2023.

Raunverðshækkun vísitölu íbúðaverðs á ársgrundvelli nam 2,2% í maí en til samanburðar hækkaði íbúðaverð um 0,4% að raunvirði á ársgrundvelli í apríl. Raunhækkun íbúðaverðs er drifin áfram af verðhækkunum á landinu öllu, en íbúðaverð hækkaði umfram verðbólgu bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.

Líkt og áður sagði var árshækkun íbúðaverðs mest á íbúðum í sérbýli á höfuðborgarsvæðinu en slíkar íbúðir hækkuðu um 10,2% á ársgrundvelli eða um 4% umfram verðbólgu á tímabilinu. Verð á íbúðum í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu hækkaði minna á milli ára, eða um 7,5%.

Íbúðaverð hækkaði minna á landsbyggðinni á milli ára samanborið við höfuðborgarsvæðið. Á landsbyggðinni nam hækkun íbúðaverðs 7,2%, eða einu prósenti umfram verðbólgu. Verð á íbúðum í sérbýli og fjölbýli á landsbyggð hefur hækkað álíka mikið.