Á æfingu Arna Ýr Jónsdóttir og Gunnhildur Yrsa yfirþjálfari.
Á æfingu Arna Ýr Jónsdóttir og Gunnhildur Yrsa yfirþjálfari.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lið frá Stjörnunni/Ösp skipað leikmönnum með sérþarfir varð í 4. sæti á Norðurlandamóti Special Olympics í knattspyrnu, sem fram fór í Frederikshavn í Danmörku í maí. Fimm stúlkur og þrír piltar voru í íslenska hópnum og var þetta fyrsta keppnisferð …

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Lið frá Stjörnunni/Ösp skipað leikmönnum með sérþarfir varð í 4. sæti á Norðurlandamóti Special Olympics í knattspyrnu, sem fram fór í Frederikshavn í Danmörku í maí. Fimm stúlkur og þrír piltar voru í íslenska hópnum og var þetta fyrsta keppnisferð liðsins til útlanda en stefnt er að því að taka árlega þátt í alþjóðlegum mótum, að sögn Gunnhildar Yrsu Jónsdóttur, yfirþjálfara Stjörnunnar/Aspar í knattspyrnu.

Mæðgurnar Laufey Ýr Sigurðardóttir barnalæknir og Gunnhildur byrjuðu með fótboltanámskeiðið „Fótbolti fyrir alla“ fyrir krakka með sérþarfir í Garðabæ 2010 og síðan hafa íþróttir fatlaðra verið Gunnhildi hugleiknar. „Ástríða mín hefur legið þar,“ segir hún. „Ég áttaði mig á því að ekki hafa allir sömu tækifæri, breytinga var þörf og mig langaði til þess að vera partur af þeim. Ég er forréttindapési og langaði til þess að nota mína rödd og reynslu til að gefa öllum tækifæri til að æfa sína íþrótt, hver sem hún er.“

Þegar Gunnhildur, sem lék 102 A-landsleiki, var atvinnumaður í Flórída í Bandaríkjunum var hún sjálfboðaliði hjá Special Olympics í ríkinu, og hjá fótboltaliði fyrir börn með einhverfu. Hún kom heim úr atvinnumennsku í ársbyrjun 2023 og gekk aftur í Stjörnuna. „Þegar ég fór út tók enginn við námskeiðinu mínu og því var ég ákveðin í að byrja með það aftur þegar ég kæmi til baka.“ Þá hafi Ösp verið að leita að yfirþjálfara í fótbolta, hún hafi stokkið á það og sameinað það starfi Stjörnunnar. „Ég hugsaði það sem fyrirmynd fyrir önnur félög, að þau tækju upp íþróttir fyrir iðkendur með sérþarfir.“

Áhugi og framtíðarsýn

Á fyrstu æfingu Gunnhildar hjá Öspinni voru þrír leikmenn en nú eru þeir um 40 í tveimur hópum og er æft á miðvikudögum og sunnudögum. Hún er með fjóra aðstoðarþjálfara auk aðstoðarfólks. Leikmennirnir búa ekki allir í Garðabæ heldur koma víða að.

Gunnhildur, sem var útnefnd Þjálfari ársins 2023 á Íþróttahátíð Garðabæjar í ársbyrjun, segir að vissulega geti ekki öll félög tekið upp íþróttir fyrir þennan hóp en æskilegt væri að fleiri félög væru með sambærileg námskeið til að gera þátttakendum kleift að æfa sína íþrótt í nærumhverfinu. „Mismunandi íþróttir auka tækifæri fyrir fleiri þátttakendur og íþróttahreyfingin þarf að vinna saman að því að skipuleggja skiptingu milli svæða.“ Fótbolti geti til dæmis verið hjá einu félagi í Reykjavík, handbolti hjá öðru, karfa hjá því þriðja og svo framvegis. „Við höfum fengið krakka á æfingar og þau elska það en ná ekki að mæta reglulega vegna þess að þau búa langt í burtu.“

Íslandsleikarnir, þar sem keppt er í fótbolta og körfubolta, fóru fyrst fram í mars og var leikið á Akureyri. „Leikarnir verða haldnir árlega og vonandi bætist handbolti við fljótlega,“ segir Gunnhildur. Mótið verði í mismunandi bæjarfélögum og tækifærið notað til að bjóða upp á opnar æfingar fyrir heimamenn með sérþarfir með frekari útbreiðslu og um leið aukna keppni í huga.