Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Hópur húsasmiða er væntanlegur í Grímsey nú um miðja vikuna og hefjast þá að nýju framkvæmdir við byggingu Miðgarðakirkju. Þær hafa legið niðri síðustu mánuði vegna fjárskorts, en nú hafa framlög fengist og þar með er kyrrstaðan rofin. „Ég vænti þess að nú getum við lokið þessu verkefni í einni lotu. Engin tímamörk hafa verið sett en vonandi verður messað í Miðgarðakirkju um jólin,“ segir Alfreð Garðarsson formaður sóknarnefndar, sem Morgunblaðið hitti í Grímsey í síðustu viku.
Klætt með kjörviði
Sem kunnugt er brann hin gamla Miðgarðakirkja í Grímsey haustið 2021. Strax myndaðist samhugur um land allt fyrir endurreisn og hófust framkvæmdir við nýja kirkju árið eftir. Hjörleifur Stefánsson arkitekt teiknaði nýja kirkju sem að nokkru tekur mið af þeirri sem fyrir var. Þá er norðanvert við kirkjuna ný bygging þar sem eru skrúðhús og salerni, sem verður einnig nýtt sem aðstaða fyrir ferðafólk sem kemur í eyjuna.
Framkvæmdir við kirkjuna fóru bratt af stað og nokkuð er liðið síðan ytra byrði hússins var klárt. Vel hefur líka verið vandað til, samanber að utan er kirkjan nýja klædd með kjörviði; lerki sem fékkst hingað frá Rússlandi áður en stopp var sett á innflutning þaðan vegna Úkraínustríðsins. Ýmsir hafa svo án endurgjalds lagt efni til framkvæmda og um slíkt hefur munað mjög, segir Alfreð. Má þar nefna klukkur í kirkjuna sem Hallgrímssöfnuður í Reykjavík gaf og hellusteina sem komu frá BM-Vallá.
Sjá til lands með kostnaðinn
Eigi að síður kostar þetta sitt. Reikningar standa nú í 130 millj. kr. og reikna má með að pakkinn allur verði 200 milljónir.
„Við sjáum orðið til lands með kostnaðinn,“ segir Alfreð. Nefnir hann að við afgreiðslu fjárlaga þessa árs hafi Alþingi samþykkt skv. fjárlögum sérstakt framlag til byggingar Miðgarðakirkju upp á 47 milljónir. „Ég þykist vita að Katrín Jakobsdóttir hafi sem forsætisráðherra beitt sér fyrir því að þessi mikilvæga fjárveiting til kirkjubyggingarinnar fékkst. Með þessu framlagi ættum við svo að geta lokið verkefninu með sóma. Nú er eftir að klæða kirkjuna að innan og taka frágang þar. Margt af því sem þar þarf til er komið, svo sem altaristaflan, og við finnum vel að þetta verkefni skiptir þjóðina miklu máli,“ segir Alfreð.