Baldur Arnarson baldura@mbl.is Samkvæmt tölum Þjóðskrár Íslands hefur erlendum ríkisborgurum á Íslandi fjölgað um 57% síðan í byrjun desember 2019. Það er að segja úr 49.347 í 77.321.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Samkvæmt tölum Þjóðskrár Íslands hefur erlendum ríkisborgurum á Íslandi fjölgað um 57% síðan í byrjun desember 2019. Það er að segja úr 49.347 í 77.321.

Samsvarar fjölgunin, 27.974 manns, nærri íbúafjölda Hafnarfjarðar.

Þróunin er sýnd á grafinu hér til hliðar en tölurnar eru teknar úr nýjum íbúatölum Þjóðskrár. Sýnir grafið fimmtán fjölmennustu þjóðlöndin og hver fjölgunin hefur verið innan þeirra síðan 1. desember 2019. Ítalía var ekki í fimmtán efstu sætunum en er nú í 14. sæti. Þá var Venesúela ekki á listanum en er nú í 11. sæti. Sömuleiðis var Úkraína ekki á listanum en er nú í 5. sæti. Það sama gildir um Venesúela og Úkraínu að þaðan hafa komið margir hælisleitendur á síðustu árum.

Það vekur einnig athygli að Rúmenum sem eru búsettir á Íslandi fjölgar ört og eru þeir nú orðnir tæplega 5.000. Sömuleiðis hafa margir Lettar og Litáar flutt til landsins síðustu ár. Pólverjar eru þó sem fyrr fjölmennastir í hópi erlendra ríkisborgara.

Töluvert misræmi í tölunum

Tölur Þjóðskrár Íslands um íbúafjölda á Íslandi eru töluvert hærri en endurmat sem fjármálaráðuneytið kynnti 8. febrúar sl. en íbúarnir væru ekki tæplega 400 þúsund talsins heldur um 14 þúsund færri. Var lækkunin m.a. skýrð með því að brottflutningur erlendra ríkisborgara hefði verið vanmetinn. Samkvæmt tölum Þjóðskrár búa nú hins vegar 403.500 manns á landinu og eru þar af 78.300 erlendir ríkisborgarar 1. maí sl.

Tekin út einu sinni í mánuði

Þetta er nokkurt misræmi og af því tilefni var send fyrirspurn til Þjóðskrár. Nánar tiltekið hvort tölurnar í meðfylgjandi grafi væru réttar.

„Þessar tölur um fimmtán fjölmennustu þjóðlöndin eru réttar. Við getum með vissu staðfest að þessar tölur byggjast á skráningu einstaklinga eins og hún er í Þjóðskrá þegar fréttin er tekin út einu sinni í mánuði,“ sagði í svari Sifjar Kröyer, viðskiptastjóra hjá Þjóðskrá Íslands. Fjöldi íbúa á Íslandi er því nokkuð á reiki. Hitt er ljóst að íbúafjölgun á Íslandi er að lengmestu leyti borin uppi af aðflutningi erlendra ríkisborgara, þ.m.t. hælisleitenda.

Fimmtánfalt fleiri nú

Aðflutningur Palestínumanna á sinn þátt í íbúafjölgun á Íslandi. Þannig bjuggu 45 Palestínumenn hér á landi hinn 1. desember 2019 en 682 hinn 1. maí síðastliðinn. Það er ríflega fimmtánföldun. Annað dæmi er að hér á landi bjuggu 44 Sómalar hinn 1. desember 2019 en 239 hinn 1. maí síðastliðinn og á sama tímabili fjölgaði Nígeríumönnum úr 126 í 345. Þá fjölgaði Sýrlendingum úr 275 í 664 á tímabilinu og Víetnömum fjölgaði úr 392 í 1.058. Til að setja það í samhengi bjuggu hér 802 Bandaríkjamenn hinn 1. desember 2019 en 1.128 hinn 1. maí síðastliðinn. Því styttist í að Víetnamar búsettir á Íslandi verði fjölmennari en Bandaríkjamenn. Þjóðerni þrettán af fimmtán fjölmennustu hópum sem búa á Íslandi er evrópskt. Einn hópurinn er frá Asíu og einn frá S-Ameríku.