Útbíaður Birgir á einni af kynningarmyndum plötunnar nýju, Litli dauði / Stóri hvellur.
Útbíaður Birgir á einni af kynningarmyndum plötunnar nýju, Litli dauði / Stóri hvellur. — Ljósmynd/Kristín Anna Kristjánsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tónlistarmaðurinn Birgir Örn Steinarsson, Biggi Maus, gaf í byrjun mánaðar út breiðskífuna Litli dauði / Stóri hvellur. Birgir er höfundur allra laga og texta, að undanskildu tökulaginu „I don't remember your name“ sem er úr smiðju Friðriks Dórs

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Tónlistarmaðurinn Birgir Örn Steinarsson, Biggi Maus, gaf í byrjun mánaðar út breiðskífuna Litli dauði / Stóri hvellur. Birgir er höfundur allra laga og texta, að undanskildu tökulaginu „I don't remember your name“ sem er úr smiðju Friðriks Dórs. Átta lög eru á plötunni sem kemur í fyrstu út stafrænt en er væntanleg áður en langt um líður á vínil.

Greinilegra áhrifa gætir á plötunni frá þeirri tónlist sem var hvað vinsælust þegar Birgir var að alast upp í Árbænum, tónlist manna og sveita á borð við Bubba Morthens, Baraflokkinn, Duran Duran, Grafík og New Order. Plötuna vann Birgir með Þorgils Gíslasyni, sem einnig er þekktur sem Toggi Nolem, og stýrði hann upptökum, hljóðritaði og hljóðblandaði. Einnig komu að verkinu Páll Ragnar Pálsson, tónskáld og gítarleikari, Valmar Väljaots organisti og Rósa Ómarsdóttir, sem syngur í aukalagi á vínilútgáfunni. Upptökur fóru fram á Akureyri, þar sem Birgir býr, að stórum hluta í húsi Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi en þar voru textarnir líka kláraðir.

Fullnæging á frönsku

Birgir er spurður út í titil plötunnar, sem virðist vísa annars vegar í fullnægingu, sem á frönsku er kölluð „litli dauði“, og hins vegar upphaf alheimsins, Mikla- eða Stórahvell. Birgir segir titilinn orðaleik sem vísi til hins svokallaða litla dauða eða fullnægingar og upphafs alls, þ.e. byrjunar og endis. „En þetta er líka vísun í annars konar litladauða sem er egódauði. Stórihvellur er þá uppljómunin við það að fara í þannig dauða, leggja egóið til hliðar. Þetta eru alls konar orðaleikir og mér fannst þetta skemmtilegur titill. Hann kom snemma til mín í ferlinu,“ segir Birgir, sem starfar sem sálfræðingur. Að leggja egóið til hliðar er honum væntanlega, sem sálfræðingi, hugleikið? „Jájá og maður þarf að lifa það sem maður kennir sem sálfræðingur. Því meira sem maður kafar ofan í þetta, þeim mun meiri áhrif hefur þetta á mann sjálfan, einhvern veginn. Ég held að þetta hafi algjörlega haft mikil áhrif á mig.“

Þú leitar áhrifa úr æsku og nefnir í tilkynningu tónlistarmenn sem ég hlustaði sjálfur á í „gamla daga“ …

„Já, ég er náttúrlega alinn upp í eitís, fæddur 1976, þannig að það fyrsta sem ég man eftir var eitís og mig langaði svo að sækja áhrif aftur í ræturnar og jafnvel lengra aftur en Maus leyfði sér að gera,“ segir Birgir. Hann hafi langað til að taka ofan fyrir eitís-Bubba, Baraflokknum, Grafík, Duran Duran, New Order og Rikshaw. „Bönd sem höfðu áhrif á mann þegar maður var bara krakki og mótuðu mann. Þessi bylgja, nýbylgjan, það sem tók við eftir pönkið þegar fólk fór að blanda aftur syntum og svoleiðis inn í pönktónlist, er ótrúlega áhugaverð bylgja,“ segir Birgir og nefnir áhugaverðar hljómsveitir úr þessari bylgju, t.d. The Cure og Blondie, sem séu í miklu uppáhaldi hjá honum.

Birgir segir nýbylgjukeim af plötunni. „Það var þessi bylgja sem skilaði til okkar Depeche Mode, The Cure og á Íslandi var Baraflokkurinn algjörlega vanmetið band. Ef maður hlustar á hvað þeir eru að reyna að gera, miðað við önnur bönd á sama tíma á Íslandi, eru þeir aðeins á undan. Sykurmolarnir eru líka nýbylgjuband, myndi ég segja,“ segir hann.

Listamaðurinn var að úldna

Birgir byrjaði aftur að gefa út tónlist árið 2021, eftir margra ára hlé, og segir hann listamanninn innra með sér hafa verið að úldna. „Ég fór að spá í hvað ég segi skjólstæðingum mínum og það er að hlusta á innsæið. Ég prófaði mig áfram og fékk strákana í Maus til að spila undir eitt lag sem ég gaf út 2021 og hét „Fyrirgefning“. Það var fyrsta lagið sem ég gaf út sem Biggi Maus,“ segir Birgir frá. Hann hafi gefið út lög reglulega undir því nafni og safnað í plötu sem nú er komin út.

Í ágúst og september leggur Birgir í ferð um landið með nýrri tónleikasveit sinni, Memm. Á henni verða leikin lög af nýju plötunni í bland við ýmis önnur af 30 ára tónlistarferli hans.