Berserkjabraut er í Berserkjahrauni en Berserkjahraun má sjá á þessari mynd.
Berserkjabraut er í Berserkjahrauni en Berserkjahraun má sjá á þessari mynd.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég skellti mér í Menntaskólann í Kópavogi og kláraði leiðsögumannsnámið á einu ári í staðinn fyrir tveimur og tók meiraprófið líka. Það var bara vegna þess að það kom gat í leikhúsið hjá mér. Mér var bent á það að það væri ekki skynsamlegt að vera með öll eggin í sömu körfunni

Ég skellti mér í Menntaskólann í Kópavogi og kláraði leiðsögumannsnámið á einu ári í staðinn fyrir tveimur og tók meiraprófið líka. Það var bara vegna þess að það kom gat í leikhúsið hjá mér. Mér var bent á það að það væri ekki skynsamlegt að vera með öll eggin í sömu körfunni. Þetta reyndist mér mjög notadrjúgt og hefur gagnast mér á ýmsan hátt,“ segir Örn um leiðsögumannsréttindin sín.

Örn er svokallaður ökuleiðsögumaður en hann getur bæði keyrt og lóðsað þegar hann keyrir litlar rútur sem ætlaðar eru fyrir 20 manns. „Það er verra þegar maður er með stórar rútur. Þá er ökumaður og leiðsögumaður en ég er í þessum minni hópum,“ segir Örn.

Það hefur verið mikið að gera hjá Erni í leikhúsinu en hann fer meðal annars með hlutverk í hinum vinsæla fjölskyldusöngleik Frost. Hann gefur sér tíma til að fara með hópa á sumrin. „Þetta er svona hluti af sumarfríinu að fara og vinna,“ segir Örn og hlær.

Hvað segir konan þín um það?

„Hún er bara sátt. Ég er svo vel giftur. En það eru alltaf göt á milli sem gera okkur kleift að ferðast sjálf.“

Kýs að fara út fyrir hina almennu vegleið

Áttu uppáhaldsstaði til að sýna ferðamönnum?

„Það er oftast búið að markaðssetja Ísland á ákveðinn hátt. Það þurfa allir að komast í Bláa lónið, það þurfa allir að komast í Stuðlagil og á Gullfoss og Geysi. Maður kemst ekkert undan því. En svo eru þessir minni hópar sem ég er með og þá má ég oft ráða ferðinni. Þá reynir maður að fara út af hinni almennu vegleið og þá sýni ég þeim eitthvað sem mér finnst merkilegt.“

Hvað finnst þér merkilegt?

„Það er til dæmis það sem er talin elsta veglagning á Ísland og heitir Berserkjabraut. Hún lá í gegnum Berserkjahraun á Snæfellsnesi. Það er gaman að fara niður að Helgafelli í Helgafellssveitinni rétt hjá Stykkishólmi. Að ganga á Helgafellið og segja fólki að steinhalda sér saman svo það fái ósk sína uppfyllta þegar það gengur á fellið, óskaganga. Þetta er ekkert endilega inni í almennri veglýsingu.“

Perlur steinsnar frá þjóðveginum

Örn er á fullu að undirbúa sjónvarpsþætti sem hann vonast til þess að verði sýndir á RÚV seinna í sumar. Þar fær sagnamaðurinn heldur betur að njóta sín en þættirnir bera eins og er heitið Steinsnar frá þjóðveginum.

„Inntakið er að þegar við Íslendingar erum að keyra um landið okkar keyrum við oft fram hjá stöðum sem geta verið stórmerkilegir í menningarlegu, sögulegu og náttúrulegu tilliti án þess að við gefum þeim gaum. Oft keyrum við meðfram þjóðveginum og svo stendur Barnaborgir eða Gerðuberg. Svo keyrir þú fram hjá en þú stoppar ekki og skoðar hvað þetta er. Þá kemur oft í ljós að margt af þessu geymir mikla sögu og það eru ekki vegvísar á allt. Til dæmis eins og ég nefndi áðan Berserkjabraut.“

Örn segir söguna um Berserkjabraut, sem einnig hefur verið kölluð Berserkjagata, stórmerkilega en ekki vita allir af þessum gullmola sem er aðeins steinsnar frá þjóðveginum.

„Grófa sagan segir frá bræðrunum Víga-Styr, sem var grimmur, og Vermundi hinum mjóva, þetta eru sögupersónur úr Eyrbyggju og Heiðarvígasögu og gerist á Snæfellsströndinni vestari á 10. öld. Vermundur átti vingott við Ólaf Noregskonung og Ólafur líkaði svo vel við hann að hann bauð honum gjöf. Vermundur valdi þessa tvo vígamenn, Halla og Leikni, tvo brjálaða berserki. Þegar hann kom heim til Íslands réð hann ekkert við þá. Hann ákvað að gefa bróður sínum þá. Styr átti dóttur og Leiknir varð ægilega skotin í henni og vildi fá hana. Styr sagði að hann gæti fengið hana ef hann myndi leggja fyrir sig veg frá hrauni að Bjarnarhöfn, alveg yfir hraunið og þeir gerðu það á einni nóttu.

Þetta er sjálfsagt einn elsti vegur sem lagður hefur verið á Íslandi. Hann er merktur og stendur Berserkjabraut en það þarf aðeins að hafa fyrir því að finna hann. Þegar maður keyrir niður að Bjarnarhöfn þá sér maður ekki skilti en það stendur úti á þjóðveginum Berserkjabraut en þegar maður ekur niður eftir þá þarf maður að passa sig að beygja til hægri en ekki vinstri. Þá kemur maður að skilti. Þá tekur við tíu til fimmtán metra ganga og þá allt í einu blasir brautin við manni. Maður getur fundið Berserkjadys og hraunveggi sem hlaðnir voru upp en það er talið að þeir hafi verið dysjaðir þarna. Þetta er stórmerkileg saga í Íslandssögunni, fyrst verið er að minnast á þetta í Eyrbyggju og Heiðarvígasögu. Erlendum gestum finnst gaman að hlusta á þessar sögur,“ segir Örn.

Auk þess að skoða allar þúfur á landinu finnst Erni ómissandi að koma við á söfnum. Hann segir mikið af skemmtilegum og öðruvísi söfnum úti á landi.

Sumar í Hrísey

Í sumar ætlar Örn að vera duglegur að verja tíma í Hrísey en þar á hann hús með systur sinni en hann dvaldi í eyjunni öll sumur með foreldrum sínum sem barn. „Ég og systir mín eigum hús þarna, hús ömmu og afa og svo mömmu og pabba. Ég og systir mín tókum það svo yfir en það er byggt 1932 þannig að það er ekki langt í 100 ára afmælið,“ segir Örn.

Örn segist aðallega vera í fríi í Hrísey en það þarf þó að dytta að húsinu. Það er hins vegar ekki hægt að skjótast út í búð þegar vantar skrúfu eða eitthvað annað í húsið. „Maður fer aðeins hægar yfir. En sem betur fer er mikið af góðu fólki í Hrísey sem er viljugt að hjálpa til þegar vantar stiga eða eitthvað annað,“ segir Örn og játar að eyjan krefjist þess af honum að hann slaki líka á.