Víkingar mæta írsku meisturunum Shamrock Rovers í fyrstu umferð undankeppni Meistaradeildar karla í fótbolta en dregið var til hennar í gær. Breiðablik vann Shamrock 1:0 og 2:1 í fyrstu umferð keppninnar í fyrra en liðið er nú í þriðja sæti á Írlandi þegar deildin þar er meira en hálfnuð

Víkingar mæta írsku meisturunum Shamrock Rovers í fyrstu umferð undankeppni Meistaradeildar karla í fótbolta en dregið var til hennar í gær. Breiðablik vann Shamrock 1:0 og 2:1 í fyrstu umferð keppninnar í fyrra en liðið er nú í þriðja sæti á Írlandi þegar deildin þar er meira en hálfnuð. Í dag kemur í ljós hverjum Víkingar geta mætt ef þeir vinna einvígið, og líka hverjum þeir geta mætt í 2. umferð Sambandsdeildar ef þeir tapa einvíginu. Leikið er 9.-17. júlí.

Breiðablik dróst gegn Tikvesh frá Norður-Makedóníu í fyrstu umferð Sambandsdeildar karla í fótbolta en liðið varð bikarmeistari í vor og hafnaði í fjórða sæti deildarinnar í landinu, 20 stigum á eftir Struga sem Blikar slógu út í fyrra.

Valsmenn fengu líklega erfiðustu mótherjana en þeir mæta Vllaznia frá Albaníu í fyrstu umferð Sambandsdeildarinnar. Vllaznia endaði í þriðja sæti deildarinnar í Albaníu í vor, fjórum stigum á eftir meisturunum.

Stjarnan mætir Linfield frá Norður-Írlandi í fyrstu umferð Sambandsdeildarinnar en liðið varð í öðru sæti í vetur, fimm stigum á eftir meisturunum. Stjarnan og Valur eiga fyrri leiki á heimavelli en Blikar byrja á útivelli. Leikið er 11. og 18. júlí.