„Nú reynir á þingmenn Norðvesturkjördæmis hvort þeir standi með kjördæminu, standi með lögunum, standi með stjórnarskrárvörðum rétti fyrirtækja og einstaklinga og greiði atkvæði með þessari tillögu,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður…

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Nú reynir á þingmenn Norðvesturkjördæmis hvort þeir standi með kjördæminu, standi með lögunum, standi með stjórnarskrárvörðum rétti fyrirtækja og einstaklinga og greiði atkvæði með þessari tillögu,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, í samtali við Morgunblaðið, þegar leitað var álits hans á framkominni vantrauststillögu á hendur Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra.

Þingmenn Miðflokksins hafa lagt fram vantrauststillögu á hendur Bjarkeyju vegna framgöngu hennar í hvalveiðimálinu, en ljóst er að ekkert verður af hvalveiðum í sumar vegna þess hve lengi dróst að taka ákvörðun í málinu. Af þeim sökum missa nær 200 félagsmenn í verkalýðsfélaginu spón úr sínum aski, en að sögn Vilhjálms munu þeir verða af hátt í tveggja milljóna króna mánaðartekjum meðan á vertíðinni stendur.

„Það verður vel fylgst með því af hálfu okkar Akurnesinga og nærsveitunga hvernig atkvæðagreiðslan mun fara fram, því það er alveg ljóst í mínum huga að svona vinnubrögð í stjórnsýslu eru eitthvað sem á ekki að geta fengið að líðast í íslensku samfélagi. Við eigum öll að fara eftir lögum og það var ekki gert í þessu máli,“ segir Vilhjálmur.

„Ég skil þessa vantrauststillögu fullkomlega vegna þess að þessi stjórnsýsluákvörðun matvælaráðherra, að draga ákvörðun sína þannig að vertíðin myndi eyðileggjast, eru vinnubrögð sem eru algerlega ólíðandi og ráðherrann verður að axla ábyrgð á þeim. Það lá fyrir strax í upphafi að veiðarnar væru löglegar. Þetta lýtur fyrst og fremst að vinnubrögðum framkvæmdarvaldsins. Þegar verið er að ganga gegn stjórnarskrárvörðum réttindum einstaklinga og fyrirtækja, sem eru atvinnufrelsið, með jafn grófum og alvarlegum hætti og matvælaráðherrann hefur gert í þessu máli, þá er fullkomlega eðlilegt að lögð sé fram vantrauststillaga á hann,“ segir Vilhjálmur og bætir því við að skattgreiðendur eigi milljarða skaðabótakröfu yfir höfði sér vegna ólögmætra stjórnsýsluákvarðana matvælaráðherrans.

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, telur að erfitt verði fyrir einhverja stjórnarliða að verja ráðherrann vantrausti, en Orri Páll Jóhannsson, þingflokksformaður Vinstri grænna, segist gera ráð fyrir að allir stjórnarþingmenn greiði atkvæði gegn tillögunni.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson