Meistarar Jayson Tatum, Al Horford og Jaylen Brown fagna eftir sigurinn á Dallas en Brown var valinn mikilvægasti leikmaður úrslitakeppninnar.
Meistarar Jayson Tatum, Al Horford og Jaylen Brown fagna eftir sigurinn á Dallas en Brown var valinn mikilvægasti leikmaður úrslitakeppninnar. — AFP/Adam Glanzman
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Boston Celtics vann átjánda meistaratitil sinn í NBA-deildinni í körfuknattleik eftir sigur, 106:88, á Dallas Mavericks í Boston Garden á mánudagskvöld hér vestra. Celtics vann því lokarimmuna 4:1 og var eina tapið í fjórða leiknum sjálfsagt vegna…

NBA

Gunnar Valgeirsson

Los Angeles

Boston Celtics vann átjánda meistaratitil sinn í NBA-deildinni í körfuknattleik eftir sigur, 106:88, á Dallas Mavericks í Boston Garden á mánudagskvöld hér vestra.

Celtics vann því lokarimmuna 4:1 og var eina tapið í fjórða leiknum sjálfsagt vegna rangs hugarfars leikmanna meistaranna í þeim leik, en Boston var einfaldlega betra liðið í þessari rimmu.

Með þessum meistaratitli hefur Boston nú einum fleiri en erkifjendurnir Los Angeles Lakers og var sigurinn á Dallas toppurinn á frábæru keppnistímabili liðsins, þar sem liðið vann sjö fleiri leiki í deildakeppninni en nokkurt annað lið og vann síðan fimmtán af átján leikjum sínum í úrslitakeppninni.

Erfiðleikar loks að baki

Jayson Tatum var stigahæstur í leiknum með 31 stig og Jaylen Brown bætti við 21. Brown var kosinn leikmaður lokaúrslitanna, enda varðist hann Luka Doncic mjög vel alla þessa rimmu. Doncic skoraði 28 stig fyrir Dallas, en aðrir leikmenn náðu sér aldrei á strik í stigaskoruninni fyrir gestina.

„Við náðum að svara fyrir okkur eftir ófarirnar í fjórða leiknum og það er ákveðin þrautseigja í þessum leikmannahópi eftir allt það sem við höfum gengið í gegnum undanfarin ár,” sagði Jayson Tatum við fréttakonu ABC-sjónvarpsstöðvarinnar í leikslok, en hann og Jaylen Brown léku saman 107 leiki í úrslitakeppninni áður en þeir loks náðu að vinna meistaratitilinn. „Þetta hefur verið mikið basl hjá okkur undanfarin tvö ár í úrslitakeppninni, en núna geta gagnrýnendur okkar ekkert sagt lengur. Þessi bið hefur verið þess virði.“

Þessar raunir Browns og Tatums eru nokkuð sem margir af bestu leikmönnum deildarinnar hafa þurft að reyna áður en þeir vinna meistaratitilinn. NBA-sérfræðingar hér vestra lýsa því oft að liðshópar og stórstjörnur þurfi oftast að reyna erfið töp og baráttu áður en að þeir læri það sem til þarf að vinna titilinn. Hluti af því er einfaldlega oft trúin á að þetta sé hægt – að yfirbuga efann.

Þetta er í fyrsta skipti í sjö ár í NBA þar sem liðið með besta árangurinn í deildakeppninni vinnur meistaratitilinn.

Boston gæti unnið oftar

Framkvæmdastjóri Boston, Brad Stevens, hefur sýnt undanfarin þrjú ár að hann er toppframkvæmdastjóri og hefur byggt upp sterkan liðshóp eftir að hann hætti sem þjálfari hjá liðinu og flutti sig á betri skrifstofu hjá Celtics. Hann styrkti síðan góðan leikmannahóp með því að fá þá Kristaps Porzingis og Jrue Holiday undanfarin tvö ár.

Þessir leikmenn gerðu það að verkum að Celtics vann Austurdeildina með yfirburðum og rúllaði síðan yfir fjóra mótherja í úrslitakeppninni.

Celtics vann 80 af 101 leik sínum á keppnistímabilinu, þannig að framganga liðsins í úrslitakeppninni hefði ekki átt að koma mörgum á óvart.

Joe Mazzulla, þjálfari Boston, er aðeins 35 ára gamall og tók við liðinu rétt fyrir upphaf síðasta keppnistímabils þegar fyrrverandi þjálfari liðsins var rekinn. Mazzulla er aðeins árinu eldri en hinn frábæri miðherji Celtics, Bill Russell, var þegar hann tók við þjálfarastöðunni hjá liðinu á síðasta leikári sínu 1968. Hann er einnig þremur árum yngri en elsti leikmaður Celtics nú, Al Horford, sem loks náði að vinna meistaratitilinn eftir langan feril – eftir 186 leiki í úrslitakeppninni.

Keppnin sterk í NBA

Sumir sérfræðingar hér vestra eru nú að spá hvort Celtics muni ná að verja titilinn næsta vetur, en það hefur engu liði tekist síðan Golden State Warriors gerði það fyrir sjö árum.

Slíkar vangaveltur ætti fólk að setja smá spurningarmerki við, þar sem mun erfiðara er nú að verja titla en áður var í deildinni. Boston, Chicago Bulls og LA Lakers hafa öll unnið slatta af titlum í röð í gegnum áratugina, en samkeppnin í deildinni er ákafari en á öðrum tímum í sögu deildarinnar. Það eru enn nokkur topplið í Vesturdeildinni sem nú eru að skipuleggja næsta keppnistímabil, og ólíklegt er að Dallas nái aftur að komast í lokaúrslitin úr Vesturdeildinni næsta vetur.

Þar með lauk fertugasta keppnistímabilinu þar sem við skrifum um framgang mála í deildinni í Morgunblaðið. gval@mbl.is