Gunnar Guðmundsson frá Heiðarbrún
Gunnar Guðmundsson frá Heiðarbrún
Svik VG eru ekki fólgin í því að vera með „íhaldinu“ í ríkisstjórn, heldur er lubbaskapurinn fólginn í því hvernig unnið hefur verið að vissum málum.

Gunnar Guðmundsson frá Heiðarbrún

Það glöddust margir þegar flokkur VG var stofnaður og sem tiltrú á honum nokkru síðar vissi ég til að maður sem í áratugi hafði stutt Sjálfstæðisflokkinn kaus þá í fyrstu kosningunum eftir „hrun“ vegna þess að hann bjóst við að þeir gætu beitt sér fyrir réttlátum breytingum á íslensku samfélagi.

Margir töldu að VG framhéldi þeirri þjóðernisstefnu sem íslenskir sósíalistar – og baráttufélagar þeirra með ýmiss konar hugsjónir – héldu á loft í áratugi. Þetta voru menn eins og Magnús Kjartansson, Gils Guðmundsson, Ragnar Arnalds, Jónas Árnason og margir fleiri. Annað kom á daginn, því ríkisstjórn þeirra Steingríms og Jóhönnu framdi þau landráð og þjóðsvik að hefja viðræður um aðild að Evrópusambandinu (ES), sem menn með lágmarksstjórnmálasýn hlutu að sjá að var ekkert annað en aðlögunarferli með inngöngu að lokatakmarki. (Vil ég þó ekki horfa fram hjá því að sú ríkisstjórn vann afrek við að rétta okkur af eftir „hrunið“.) Jafnframt þessu var unnið að því innan VG að „grafa undan“ bestu mönnunum og gera þá áhrifaminni, mönnum eins og Jóni Bjarnasyni, Ögmundi Jónassyni o.fl.

Svik VG eru ekki fólgin í því að vera með „íhaldinu“ í ríkisstjórn, heldur er lubbaskapurinn fólginn í því hvernig unnið hefur verið að vissum málum og nefni ég hér sex atriði:

1. Ekki hefur verið staðið rétt að málefnum landbúnaðarins, eins og það að flytja inn erlendar landbúnaðarafurðir (sem við vitum ekkert hvaða „sulli“ hefur verið dælt inn í) og það er mín skoðun að hugsanlega hefðum við getað gert hagstæða samninga um kaup á tilbúnum áburði.

2. Erlendir menn fá að kaupa jarðir og lendur á Íslandi.

3. VG og raunar flestir stjórnmálamenn hafa fram að þessu verið slíkir „blindingjar“ að þeir hafa ekki séð að „útlendingadekrið“ leiðir til þess að með tímanum verðum við minni hluti í okkar eigin landi.

4. Ég þekki menn sem voru slíkar óþverraskepnur í Rangárvallasýslu að hafna mönnum til áframhaldandi starfs og gerðu það með nánast engum fyrirvara. Þetta sama gerði Svandís Svavarsdóttir með stöðvun hvalveiða í fyrra. Þar misstu margir þær tekjur sem þeir höfðu reiknað með í fjárhagsáætlun síns heimilishalds. Það er ekki alþýðusinnað fólk sem kemur svona fram gagnvart launafólki. Hvað væri sagt ef ráðherra yrði rekinn úr starfi með dags fyrirvara og tryggt að hann yrði um leið launalaus?

5. Forystumenn VG eru glópar varðandi alþjóðamál. Þeir gera sér enga grein fyrir því að það er stækkunarstefna NATO sem er stærsta ástæðan fyrir Úkraínustríðinu. Forystumenn VG hafa sótt þeirra stríðsstefnu-samkundur og „dansað“ þar með, í stað þess að tala máli friðar.

6. Sjókvíaeldi erlendra afla í íslenskum fjörðum getur leitt af sér eyðileggingu á hinum mörg þúsund ára gamla íslenska laxastofni. Ráðherra þeirra mála er svo grunnvitur að láta starfsmenn viðkomandi ráðuneytis segja sér að best sé að hafa samninga við þá ótímabundna, þ.e. þeir skuli gilda um alla framtíð. Hvers konar fólk er þetta eiginlega sem hefur komist inn á alþingi og í ríkisstjórn? (Þó eru til afbragðsmenn á þingi, sem ég er lítillega málkunnugur.) VG er nú eins og sökkvandi skip og farið hefur fé betra.

Ég vil að lokum sérstaklega þakka Arnari Þór Jónssyni fyrir heilbrigðan og réttsýnan málflutning í kosningabaráttunni. Nú þurfa þjóðholir menn að „snúa bökum saman“, burtséð frá öðrum ólíkum skoðunum, og treysta raðir sínar til verndar þjóðerni okkar og fullveldi landsins.

Höfundur er fræðimaður og bókahöfundur.