Þór Jakobsson
Þór Jakobsson
Nú eru 40 ár frá fyrstu árlegu sólstöðugöngu í Reykjavík og nágrenni og 14 ár síðan hún byrjaði í Viðey. Komum saman og fögnum lífinu og menningunni!

Þór Jakobsson

Allt frá árinu 1985 hefur á hverju ári verið gengin svonefnd „sólstöðuganga“ í Reykjavík og nágrenni, ýmsar leiðir framan af en er á leið héldu menn sig við stóran hring um Öskjuhlíð. Hópur áhugamanna, sólstöðuhópurinn, skipulagði göngurnar. Frá aldamótum hafa ýmsar leiðir í Viðey verið valdar í æ meiri samvinnu við Borgarsögusafn Reykjavíkur sem hefur umsjón með hinni sögufrægu eyju. Safnið hefur því tekið við keflinu af sólstöðuhópnum sem stofnaði til þessarar venju fyrir 40 árum.

Gangan hefur í gamni og alvöru verið kölluð „meðmælaganga með lífinu og menningunni“ og eru þátttakendur hvattir til að hugsa til þess sem er þakkarvert við lífið þrátt fyrir alla erfiðleika, andstreymi, óréttlæti og fleira. Þetta er róleg ganga þar sem fólk nær að spjalla saman og hreyfa sig um leið í fallegri náttúru með útsýni yfir hafið. Annars vegar blasir við höfuðborgin, hins vegar gnæfir Esja gamla í alls kyns litbrigðum sem sól, veður og vindar mynda. Menn fræðast að nokkru um sögu staðarins og hlýða á ávarp heiðursgests göngunnar sem venja hefur verið undanfarið að bjóða með okkur.

Nú er komið að hinni árlegu göngu í Viðey. Hún verður fimmtudagskvöld 20. júní nk. (ath. ekki 21.). Að þessu sinni flytur ávarp enginn annar en Guðni Th. Jóhannesson, hinn vinsæli forseti Íslands, sem brást vel við beiðni skipuleggjenda um að taka þátt í göngunni. Helga Maureen Gylfadóttir frá Borgarsögusafni mun leiða gönguna. Að lokum skal þess getið að Sólstöðumínútan verður kl. 20.50. Þá er sól komin í hæstu stöðu og byrjar ferð sína niður á ný. Það er einmitt tilvalin mínúta til íhugunar, göngumenn staldra við og hugsa sitt.

Nánari upplýsingar eru á facebooksíðu Sólstöðugöngunnar.

Höfundur er veðurfræðingur.