Netflix Raunveruleikaþátturinn Perfect Match.
Netflix Raunveruleikaþátturinn Perfect Match.
Önnur þáttasería af Perfect Match er komin á Netflix og ég er strax farin að afklæða mig. Í þáttaröðinni koma saman keppendur úr öðrum raunveruleikaþáttum á Netflix í von um að finna hina einu sönnu ást

Jóna Gréta Hilmarsdóttir

Önnur þáttasería af Perfect Match er komin á Netflix og ég er strax farin að afklæða mig. Í þáttaröðinni koma saman keppendur úr öðrum raunveruleikaþáttum á Netflix í von um að finna hina einu sönnu ást. Þátttakendurnir keppa í ýmsum áskorunum og sigurparið í hverri þraut fær að leika ástarengilinn Amor og brjóta upp önnur pör og senda þau á stefnumót með glænýjum sjarmatröllum. Kærasti minn furðar sig ítrekað á því að ég skuli horfa á þetta rusl en mér tekst að fullvissa hann um það, á meðan ég ligg í makindum mínum í pottinum, sötra rauðvín og horfi á þættina í símanum, að þeir hafi engin áhrif á mig, ég stefni hvorki á að láta fylla í mér varirnar né brjóstin. Á þjóðhátíðardaginn sjálfan stóð hann mig svo að því að kaupa nýtt, kynþokkafullt bikiní í Yeoman. Líklega vorum við bæði meðvituð um að bikiníið væri ein afleiðing áhorfsins en hvorugt okkar sagði skapaðan hlut meðan á kaupunum stóð enda bæði sátt með litla bikiníið. Ég get því ekki beðið eftir að fara í pottinn í nýja bikiníinu og hefja óþarfa rifrildi við kærasta minn eftir að ég klára að horfa á seinasta þáttinn af Perfect Match en hann kemur á Netflix á morgun. Kærastinn horfir örugglega á þáttinn með mér með öðru auganu en hann myndi aldrei viðurkenna það.

Höf.: Jóna Gréta Hilmarsdóttir