Alþingi Vantrauststillaga þingmanna Miðflokksins á hendur matvælaráðherra kemur til atkvæða á þingi í vikunni.
Alþingi Vantrauststillaga þingmanna Miðflokksins á hendur matvælaráðherra kemur til atkvæða á þingi í vikunni. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vantrauststillaga Miðflokksins á hendur Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra var lögð fram við upphaf þingfundar á Alþingi í gær. Tilefni hennar er framganga ráðherrans í hvalveiðimálinu. Gert er ráð fyrir að tillagan verði tekin til umræðu …

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Vantrauststillaga Miðflokksins á hendur Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra var lögð fram við upphaf þingfundar á Alþingi í gær. Tilefni hennar er framganga ráðherrans í hvalveiðimálinu.

Gert er ráð fyrir að tillagan verði tekin til umræðu og afgreiðslu á morgun, fimmtudag, og segir Birgir Ármannsson forseti Alþingis í samtali við Morgunblaðið að ákvörðun um tímasetningu umræðunnar verði tekin eftir samráð forseta við formenn þingflokkanna á Alþingi. Þá verði fyrirkomulag umræðunnar einnig ákveðið, en venjan er sú að vantraust sé rætt í einni umræðu og atkvæði greidd strax að henni lokinni. Þingsköp kveða á um að taka verði vantrauststillögu fyrir svo fljótt sem verða má.

„Ef við reynum að leggja mat á orð stjórnarliða á fyrri stigum hvalveiðimálsins, þá verður býsna erfitt fyrir þá gagnvart sínu baklandi að útskýra og verja stjórnsýslu matvælaráðherra í þessu máli,“ segir Bergþór Ólason, formaður þingflokks Miðflokksins, spurður að því hvort þess sé vænst að einhverjir stjórnarliðar muni styðja tillöguna.

„Stjórnsýsla matvælaráðherra Vinstri grænna er þannig vaxin að hún er áframhaldandi saga ólögmætis, allt frá því að Svandís Svavarsdóttir tók sína ákvörðun fyrir rúmu ári. Það er samfella ólögmætis í þessu máli öllu og ég get ekki ímyndað mér að sumir þingmenn stjórnarflokkanna vilji bera ábyrgð á því og verja það,“ segir hann.

Ekki bæti úr skák að ríkissjóður á yfir höfði sér milljarða skaðabótakröfu frá Hval hf. og starfsmönnum fyrirtækisins vegna framgöngu ráðherranna í málinu.

Spurður um hvort hann telji að hjáseta stjórnarliða sé jafngildi vantrausts á ráðherrann þegar tillagan gengur til atkvæða, segir Bergþór að það blasi við að hjáseta þýði að viðkomandi þingmaður sé ekki tilbúinn til að verja ráðherrann vantrausti.

„Ég geri bara ráð fyrir að allir stjórnarþingmenn verji þennan ráðherra eins og aðra vantrausti,“ segir Orri Páll Jóhannsson, þingflokksformaður Vinstri grænna.

Spurður um hvort það hefði áhrif á ríkisstjórnarsamstarfið ef einhver stjórnarþingmaður situr hjá eða greiðir atkvæði með vantrausti á matvælaráðherra, sagði hann: „Ég get ekki svarað til um það. Ég geri ráð fyrir þessu.“