Guðrún Birna Blöndal fæddist 1. júní 2009. Hún lést 4. júní 2024.
Jarðsett var 18. júní 2024.
Fyrst ætlaði hún til Tenerife og síðan næst til Flórída og þá Parísar og Ítalíu. Svo var það stelpuferðin. Það var draumurinn að ná að minnsta kosti einni stelpuferð. Það var augljóst að ferðir úti í náttúrunni með fjölskyldunni og góðum vinum voru í uppáhaldi. Við munum svo vel eftir ferðinni um verslunarmannahelgina fyrir þremur árum, skömmu áður en hún veiktist. Hjólin voru auðvitað með. Guðrún Birna var þá 12 ára. Það var kominn nýr miðbær á Selfossi og þar voru fínir veitingastaðir. Guðrún Birna stakk upp á því að hún og Ellen vinkona hennar hjóluðu saman á Selfoss og færu út að borða. Þannig fóru þær af stað, vel tilhafðar, með veskin og á reiðhjólunum. Guðrún kunni þetta alveg og þarna sátu þær eins og fínar konur, búnar að skoða matseðlana og panta þegar við hin komum.
Svo bættust við stelpuferðirnar, sem voru nákvæmlega skipulagðar af Guðrúnu og Ellen. Farið var í sumarbústað. Spiluð alls konar spil. Það voru alvörukeppnir, enda Guðrún ekki fyrir það að tapa. Það var alltaf svo miklu skemmtilegra að spila þegar hún var með. Hún talaði mikið og varð svolítið æst og gerði okkur hinar líka æstar. Hún var með svo mikið keppnisskap. Síðan klæddum við okkur upp og helst var farið í allar búðir og veitingahús á Selfossi, þar sem toppurinn var að borða á Kaffi Krús. Við munum aldrei gleyma þessum ferðum með Guðrúnu, þær skilja eftir svo ljúfar og góðar minningar um hana.
Elsku Ella, Steini, Eiríkur og Steinunn Katrín, sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Ragnheiður, Ellen María
og fjölskyldur.