Linda segir mannlega þáttinn veikasta hlekkinn hvað viðkemur netöryggi.
Linda segir mannlega þáttinn veikasta hlekkinn hvað viðkemur netöryggi. — Morgunblaðið/Eyþór
Linda á að baki farsælan feril í upplýsingatæknimálum og stýrði meðal annars vel heppnaðri snjallþróun Krónunnar. Þá hefur hún starfað fyrir sum af stærri fyrirtækjum landsins á sínu sviði. Hverjar eru helstu áskoranir í rekstrinum þessi misserin?…

Linda á að baki farsælan feril í upplýsingatæknimálum og stýrði meðal annars vel heppnaðri snjallþróun Krónunnar. Þá hefur hún starfað fyrir sum af stærri fyrirtækjum landsins á sínu sviði.

Hverjar eru helstu áskoranir í rekstrinum þessi misserin?

Helstu áskoranir eru þróun og viðhald á upplýsingakerfum og hvernig fyrirtækin okkar geta skapað sér sérstöðu á markaði með stafrænum lausnum. Þar erum við með mjög öflugt teymi innanhúss og í samstarfi við ytri aðila að þróa flottar lausnir. Fram undan er líka mjög spennandi og krefjandi verkefni en það er sameining á upplýsingatækniumhverfi Festi og Lyfju, þar bætast við 380 starfsmenn og 45 verslanir í þjónustu. Við höfum áður farið í gegnum slíkt verkefni við sameiningu á N1 og Festi.

Aðrar áskoranir við rekstur á upplýsingatækniumhverfi í dag eru net- og upplýsingaöryggi. Fyrirtæki treysta algjörlega á upplýsingakerfi og nettengingar í sínum daglega rekstri og netárásir hafa aukist gífurlega. Aukin umræða um árásir sem íslensk fyrirtæki hafa orðið fyrir hefur haft jákvæð áhrif í þá átt að vekja athygli stjórnenda á nauðsyn þess að forgangsraða og fjárfesta í öryggislausnum. Einn veikasti hlekkurinn er samt alltaf mannlegi þátturinn og því þarf að auka öryggisvitund allra.

Síðan er gervigreindin að koma hratt inn og fyrirtæki farin að nýta hana í auknum mæli en því fylgja líka áskoranir um hvernig við nýtum gervigreindina og hvaða gögn eru notuð til að þjálfa módelin.

Hvernig heldur þú þekkingu þinni við?

Með því að sækja námskeið og ráðstefnur bæði hér heima og erlendis. Svo er ógrynni af flottum kúrsum sem er hægt að sækja sér á netinu. Það er ör þróun í mínu fagi og því nauðsynlegt að fylgjast vel með en eftir því sem teymið okkar stækkar þá snýr starf mitt sem stjórnandi meira að stefnumótun og góðum rekstri á upplýsingatækniumhverfinu ásamt framlegð, velferð og gleði hjá mannauðnum.

Síðasta bók sem ég las um vinnutengt efni var The five dysfunctions of a team eftir Patrick Lencioni, góð áminning um mikilvægi þess að byggja upp gott teymi til að ná árangri. Svo síðast þegar ég var í flugi hlustaði ég á The hard thing about hard things eftir Ben Horowitz, þar er fókusinn meira á frumkvöðla og hvernig á að takast á við erfiðar ákvarðanir í rekstri.

Hugsar þú vel um heilsuna?

Já, róðrarvélin og lóðin í bílskúrnum eru kannski aðeins of lítið notuð en mér finnst gaman að hreyfa mig, geng mikið og fæ góða hvatningu til þess frá Kastaní Calí, Cavalier-tíkinni okkar. Annars er mitt sport svigskíði og gönguskíði á veturna og golf og fjallgöngur á sumrin.

Varðandi mataræði þá fæ ég mér bara te og lýsi á morgnana, svo borða ég tvær máltíðir á dag. Ég reyni að borða hreint fæði og hef dregið mikið úr neyslu á sykri. Um helgar er ekki alveg sama rútínan, þá er meira verið að njóta og taka tíma í að elda góðan mat.

Hvað gerirðu til að fá orku og innblástur í starfi?

Það er fátt betra en að vera úti í íslenskri náttúru til að hreinsa hugann og endurhlaða orkuna, þar kemur golfið, nýjasta áhugamálið, sterkt inn. Annars er ekkert sem toppar að fara í nokkurra daga gönguferð á Hornstrandir, að vera utan net- og símasambands, laus við allan lúxus og njóta friðlandsins með góðum vinum.

Hvaða lögum myndir þú breyta ef þú værir einráð í dag?

Það kemur margt upp í hugann en ég ætla að nefna menntakerfið og þá sérstaklega fyrsta skólastigið. Við skilgreinum leikskóla sem fyrsta skólastigið skv. lögum en getum ekki tryggt að börn komist inn á leikskóla þegar fæðingarorlofi lýkur. Við vitum hve mörg börn fæðast og hvar þau búa en erum ekki undirbúin með leikskólapláss. Það þarf að skylda sveitarfélög til að taka inn öll 12 mánaða börn sem eru á biðlista, setja meira fé í málaflokkinn, hækka launin til að fá menntað fólk í störfin og byggja meira. Staðan hefur lítið breyst undanfarin ár og óvissan um leikskólapláss hefur áhrif á vinnu ungra foreldra og þar með á fyrirtækin í landinu.

Síðan tel ég að við getum hagrætt mjög víða. Til hvers þurfum við 20 lífeyrissjóði á Íslandi eða sex sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu með tilheyrandi yfirbyggingu og rekstrarkostnaði?

Ævi og störf:

Menntun: Menntaskólinn á Ísafirði 1988, Kerfisfræðingur TVÍ 1990, Tölvunarfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík 2012.

Störf: Forritari hjá AKS 1990-1993, Kerfisstjóri hjá Ísafjarðarbæ 1994, Forritari hjá AKS 1994-1999. Forritari hjá TM Software 1999-2008. Upplýsingatæknistjóri hjá Norvik 2008-2014. Upplýsingatæknistjóri hjá Festi 2014-2019. Forstöðumaður upplýsingatækni hjá sameinuðu félagi N1 og Festi undir nafni Festi hf. frá 2019.

Áhugamál: Skíði, gönguferðir, golf, lestur góðra bóka, matur og menning. Ásamt ferðalögum tengdum áhugamálunum með fjölskyldu og vinum.

Fjölskylduhagir: Gift Geir Þorsteinssyni rafeindavirkja. Við eigum saman tvær dætur, Söru og Silju, og tvö barnabörn, Ísak Andra og Oliver Loka. Svo á ég smávegis í börnunum sem Geir átti áður, þeim Geirþrúði, Ásu og Magga.