[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er gífurlegt hagsmunamál fyrir okkur Íslendinga að það sé ekki verið að gullhúða EES-gerðir nema til þess beri brýn nauðsyn,“ segir Brynjar Níelsson, lögmaður og formaður starfshóps um aðgerðir gegn gullhúðum EES-gerða, en skýrsla á vegum hópsins var birt í gær á vef utanríkisráðuneytisins

Sviðsljós

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Það er gífurlegt hagsmunamál fyrir okkur Íslendinga að það sé ekki verið að gullhúða EES-gerðir nema til þess beri brýn nauðsyn,“ segir Brynjar Níelsson, lögmaður og formaður starfshóps um aðgerðir gegn gullhúðum EES-gerða, en skýrsla á vegum hópsins var birt í gær á vef utanríkisráðuneytisins. Auk Brynjars voru í starfshópnum dr. Margrét Einarsdóttir, prófessor í Háskólanum í Reykjavík, og María Guðjónsdóttir lögfræðingur Viðskiptaráðs.

Ástæða þess að starfshópurinn var stofnaður var langvarandi umræða og gagnrýni á svokallaða gullhúðun, þegar EES-gerðir voru staðfestar í landsrétti og gengið lengra en lágmarkskröfur EES gerðu ráð fyrir. „Það þurfti að fara yfir þetta því í mörgum tilvikum virtust hvorki hagsmunaaðilar né þingmenn hafa nægar upplýsingar um það þegar verið var að gera löggjöfina meira íþyngjandi en hún þyrfti að vera,“ segir Brynjar.

Lágmark að hafa rökstuðning

„Þetta er umfangsmeira en menn átta sig á og rökstuðningur ásamt mati á áhrifum gullhúðunar er mjög takmarkaður og stundum enginn,” segir Brynjar og bætir við að það sé lágmarkskrafa að fyrir liggi góður rökstuðningur ef EES-gerðir eigi að vera meira íþyngjandi en þær þurfi að vera. „Ef við ætlum að gullhúða á annað borð þarf að vera tilgangur með því sem er til góðs, en ekki að setja íþyngjandi reglur og tilheyrandi kostnað á fyrirtæki sem hefur íþyngjandi áhrif á markaðsstöðu þeirra í samkeppni við fyrirtæki í Evrópu.“

Í því sambandi segir Brynjar að sumar innleiðingargerðir vísi til mjög stórra fyrirtækja, en í mörgum tilfellum hafi þær verið færðar á smærri fyrirtæki hérlendis. „Við getum ekki verið að gera strangari kröfur til okkar fyrirtækja en þörf krefur. Það veikir samkeppnisstöðu okkar að láta lítil og meðalstór fyrirtæki sæta reglum sem sambærileg fyrirtæki í Evrópu búa ekki við. En það er eins og okkur þyki eitthvað göfugt við að gera enn strangari kröfur til okkar fyrirtækja og okkar atvinnulífs.“

Hann bætir við að til samanburðar hafi Bretar haft það sem meginreglu þegar þeir voru í ESB að það sé ekki heimilt að gullhúða nema alveg sérstakar aðstæður krefjist þess.

Boltinn hjá Alþingi

Starfshópurinn leggur til að allur ramminn í kringum innleiðingu EES-skipana verði gerður skýrari og að krafist sé rökstuðnings og mats á áhrifum innleiðingar á samkeppnisumhverfi landsins, þannig að gullhúðun gerist ekki án þess að fjallað hafi verið sérstaklega um hana á öllum stigum og upplýst ákvörðun hafi verið tekin í hverju tilviki byggð á því að gullhúðunin sé til bóta, en ekki íþyngjandi.

Brynjar segir að í ljósi þess að gullhúðun fer frekar vaxandi en hitt sé mikilvægt að það sé öllum ljóst hvers vegna henni sé beitt og þess vegna þurfi öll umgerð að vera mjög skýr og einföld. „Við höfum skilað af okkur þessari skýrslu með tillögum um hvernig hægt sé að gera þetta ferli skýrara, en núna er boltinn hjá Alþingi.“

Innleiðing EES-gerða

Gullhúðun of algeng hér

Talað er um gullhúðun þegar stjórnvöld einstakra ríkja ganga lengra við innleiðingu EES-gerða í landsrétt en lágmarksskilyrði segja til um í EES-gerðunum. Slík gullhúðun getur verið íþyngjandi fyrir stofnanir og fyrirtæki landsins með auknum kostnaði og skriffinnsku og getur þannig haft áhrif á samkeppnishæfni. Því er mikilvægt að vel sé að innleiðingunni staðið og í upphafi skoðað hvaða áhrif hún hefur á markaðsumhverfið. Hér á Íslandi er gullhúðun EES-gerða algeng, eða um 16% á tímabilinu 1992-2019, og fer vaxandi.