— Ljósmyndir/Sigurður Bjarni Sveinsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður veit fátt skemmtilegra en að ferðast um fáfarnar slóðir og segir útivistarferðalög vera í mestu uppáhaldi. „Mér finnst lúmskt gaman af því að blanda saman „aktívum“ og þægilegum ferðalögum

Sigurður veit fátt skemmtilegra en að ferðast um fáfarnar slóðir og segir útivistarferðalög vera í mestu uppáhaldi. „Mér finnst lúmskt gaman af því að blanda saman „aktívum“ og þægilegum ferðalögum. Að fara og stunda útivist yfir daginn en koma svo til baka í góðan mat og baða sig í potti eða heitri laug er eitthvað sem ég leita mjög mikið í,“ segir hann.

„Að öðru leyti finnst mér frábært að fara með bakpokann minn eða bílinn fullan af dóti – tjaldi, svefnbúnaði, mat og afþreyingardóti – og halda svo af stað í eina átt og spila útfærslur út frá veðri, hug og hjarta. Þar bíða oftast leynd ævintýri,“ bætir hann við.

Alltaf mikil upplifun að koma á Vestfirði

Vestfirðir eru eitt af uppáhaldslandsvæðum Sigurðar á Íslandi, en hann hefur aðallega ferðast þar að vetri til. „Ég væri alveg til í að hafa varið meiri tíma á Vestfjörðum. Ég hef reynt að ferðast meira þangað síðustu ár og þá aðallega á veturna. Ég hef farið nokkrar ferðir á Hornstrandir, svo hef ég verið mikið í kringum Flateyri og Ísafjörð þegar ég hef heimsótt Vestfirði,“ segir Sigurður.

Hverjir eru þínir uppáhaldsstaðir á svæðinu?

„Ég á aðeins erfitt með að velja ákveðinn stað, ég sæki mjög í tilfinningu á ferðalögum og hvar sem ég stoppa á Vestfjörðum vekur svæðið sterka upplifun hjá mér. Víðáttan, friðurinn og kyrrðin er það sem ég sæki mjög í. Mér finnst gaman að stoppa við botn fjarðar og labba í fjöruborðinu, fylgjast með fuglum og selum í Ísafjarðardjúpi, baða mig í Hellulaug eða eltast við sólsetur eða útsýni á Kistufelli eða Garðafjalli.“

Áttu þér uppáhaldssundlaug á Vestfjörðum?

„Ég hef ekki mikið farið í sund á svæðinu, en mér finnst alltaf vera mjög góð stemning á Flateyri og Bolungarvík.“

Áttu þér uppáhaldsgönguleið á Vestfjörðum?

„Hornstrandir í heild sinni eru algerlega magnað landsvæði til að stunda útivist. Ég hef aðallega verið að skíða þar en mun einhvern tímann fara með tjald og bakpoka í nokkrar vikur og labba þar um að sumri til. Annars sæki ég mjög mikið í nærumhverfi Flateyrar þar sem ég hef verið mikið þar og yfir vetur. Þá hef ég verið að fara upp á Kistufell, finnst útsýnið þar alveg magnað.“

Eru einhverjar leyndar perlur á svæðinu?

„Leyndu perlurnar eru út um allt – ég held að þær birtist manni ef maður leyfir ævintýrahug að taka völdin og eltir læki upp gil, finnur gönguleið upp á útsýnistopp sem heillar mann og eltir veðrið. Það geta orðið mikil veður á Vestfjörðum en maður getur alltaf fundið eitthvað sem hentar, hvort sem það er við fjöruborð eða uppi á fjallatoppum. Mér finnst skemmtilegast að keyra inn Vestfirði úr suðri og klára svo hringinn með viðkomu á Hólmavíkursvæðinu.“

Eru Vestfirðir ólíkir öðrum landshlutum að þínu mati?

„Já, mér finnst þeir vera ólíkir. Náttúran, fjöllin og gróðurinn eru eldri og búa til ákveðna náttúrumyndun sem heillar mig mikið. Haustlitirnir eru sterkir, sumrin geta búið til hitapolla þar sem maður getur jafnvel baðað sig í sjónum við Rauðasand, og veturnir geta gefið manni tækifæri til að ferðast á milli fjallatoppa og fjarða því það er ekki mikil hæð á fjöllunum og útsýnið er alls staðar stórbrotið.“

Varð strax heillaður af Flateyri

Flateyri á Vestfjörðum á sérstakan stað í hjarta Sigurðar, en í vetur tók hann upp heimildarmynd um Flateyri ásamt félaga sínum sem gerði tengingu hans við svæðið enn sterkari.

„Flateyri er fyrir mér mjög einstakur staður. Þegar ég kom þangað fyrst að kenna í Lýðháskólanum varð ég fyrir upplifun sem mér fannst mjög einstök. Síðar var ég að reyna að átta mig á því hvaðan hún kom – ég áttaði mig svo á að fólkið á svæðinu og menningin í bland við mjög magnaða náttúru er það sem heillar mig mest. Ég hef dvalið á Flateyri þrisvar í tvær vikur en í hvert skipti sem ég fer hefur mig langað að vera lengur. Ég hef hingað til eingöngu verið þar yfir veturinn,“ segir Sigurður.

Það var ekki á dagskránni hjá Sigurði að gera heimildarmynd um Flateyri heldur skíðamyndband í kringum landsvæði Flateyrar. Sú hugmynd breyttist þó óvænt þegar félagarnir mættu á svæðið þar sem skíðaaðstæður voru ekki góðar þegar þeir voru að mynda. „Eftir fyrstu klukkutímana af stoppinu í bænum þá áttuðum við okkur báðir á því hvað fólkið og menningin er einstök. Við ákváðum að sýna frekar frá samfélaginu sem býr með náttúru heldur en öfugt,“ segir hann.

„Eftir að hafa heyrt sögur fólksins og hvernig þau hafa þurft að berjast saman í gegnum mjög erfiða tíma þá varð til enn sterkari upplifun af svæðinu hjá mér og enn meiri virðing. Mér finnst samfélagið vera einstakt á heimsvísu og það er magnað að unga kynslóðin geti farið í Lýðháskólann og fengið að vera hluti af svona einstöku samfélagi. Þeirra hugarfar til lífsins og viðurvistar er mjög einstök og mér finnst við geta lært ótrúlega mikið af þeim sem myndi kenna okkur auðmýkt og dug sem mér finnst við vera að missa að hluta úr okkar samfélagi á Íslandi,“ bætir Sigurður við.

Hvernig er fullkominn dagur á Flateyri að þínu mati?

„Ég fer náttúrulega á frekar rólegt tempó á Flateyri. Mér finnst frábært að njóta kaffibollans í góðum félagsskap og ræða möguleika dagsins út frá veðri. Það hefur alltaf verið gaman að kíkja við á bæjarskrifstofunni, þar kemur oft saman fólk úr bænum í morgunkaffi þar sem dagleg málefni eru rædd. Þau eru mjög hjálpleg að segja manni til um aðstæður til fjalla og koma með tillögur að ævintýrum. Síðan að halda af stað í ævintýri, ef það eru skíðaaðstæður þá væri það fókusinn. Ég fer gjarnan í leiðsögn Borea Adventures sem eru alltaf með puttann á púlsinum þegar kemur að snjóaðstöðu og þekkja aðstæður mjög vel. Eftir það myndi ég fara í laugina á Flateyri, hitta fólkið á svæðinu og deila með þeim ævintýrum dagsins. Eftir kvöldmat myndi ég reyna að fara aftur út til að njóta norðurljósa eða sólseturs, fer eftir veðri.“

Er eitthvað sérstakt við andrúmsloftið eða bæjarlífið sem heillar þig?

„Andrúmsloftið þar kemur að megninu til frá fólkinu á svæðinu, tengingu þeirra við náttúruna og virðingunni sem fylgir því. Fólk gefur sig að manni, lífsstíllinn er mjúkur en á sama tíma með mikilli harðneskju að takast á við aðstæður sem kunna að skapast út frá veðri. Þessi blanda er alveg einstök, sem mér finnst mikið öryggi og góð tilfinning að vera í kringum.“

En náttúruna og landslagið í kring?

„Fjöllin í kringum Flateyri eru ekki há, en þau eru stórbrotin. Önundarfjörður er með mikið af hliðardölum og giljum sem stalla landslagið þegar maður horfir eftir firðinum. Sólsetrin eru einstaklega falleg þar af fjallatoppum og um vorið kemur sólsetrið inn fjörðinn sem skapar einstaklega fallega ljósmyndamöguleika. Síðan þarf ekki að ferðast langt til að breyta til. Í um hálftíma akstursfjarlægð er maður kominn til Þingeyrar eða Ísafjarðar sem eru með sínar eigin perlur í kring. Nálægðin er ótrúlega skemmtileg og býður upp á fjölbreytileika. Dynjandi er einn af mínum uppáhaldsfossum og er mjög aðgengilegur frá Flateyri, sem og Bolafjall sem er komið með ótrúlega magnaðan útsýnispall til að horfa yfir Ísafjarðardjúp og yfir til Hornstranda.“

Hvert ætlar þú að ferðast í sumar?

„Sumartíminn hjá mér er oftast frekar fullur af verkefnum svo ég mun ekki ná mörgum vikum á Íslandi. Ég mun samt leitast við að fara í tvær til þrjár ævintýraferðir á mismunandi landsvæði Íslands. Vonandi kemst ég vestur ef veður leyfir, annars mun ég einbeita mér að göngum á Fjallabaki og svo tjaldgönguferð í kringum Vatnajökul. Þetta eru gönguleiðir sem ég hef haft hug á að fara í nokkur ár en ekki komið því við ennþá.“

Höf.: Irja Gröndal |