Ráðherra þarf að virða lög og rétt

Fyrir þinginu liggur vantrauststillaga þingmanna Miðflokksins á Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra vegna mistaka við afgreiðslu hvalveiðileyfis.

Hér hefur áður verið drepið á vinnulagið, þar sem ráðherra vanvirti málshraðareglur stjórnsýslunnar – augljóslega af rammpólitískum ástæðum – en loks þegar leyfið var gefið út var það um seinan til að það kæmi að gagni á vertíðinni. Til að bíta höfuðið af skömminni gildir leyfið aðeins þetta ár.

Enginn atvinnurekstur getur lifað við slíka óvissu og pólitískt gerræði ráðherra. Enginn atvinnurekstur á að þurfa að þola það samkvæmt lögum og stjórnarskrá.

Við blasir að skattgreiðendur munu þurfa að greiða milljarða króna í bætur vegna þessara véla ráðherra Vinstri grænna.

Ekki bætir úr skák að ráðherrann afvegaleiddi þingið í svari við fyrirspurn um málið í fyrri viku, líkt og ráðuneytið hefur beðist velvirðingar á. Ráðherrann hefur hins vegar ekki enn leiðrétt orð sín á Alþingi eða beðið þingið afsökunar.

Því er ekki nema von að þingið treysti Bjarkeyju varlega í ráðherrastóli. Það er fyrir hennar gerðir og orð, nú eða það sem hún lét vera að gera eða lét ósagt, sem hún og ríkisstjórnin eru komin í slíkan bobba ofan í hefðbundin vandræði undir þinglok.

Stjórnarliðar geta ekki annað en varið ráðherrann, vilji þeir að ríkisstjórnin lifi. Það væri fullkomið ábyrgðarleysi að stefna stjórnarsamstarfinu í hættu vegna þessa.

Hins vegar kann ráðherrann að vilja liðka fyrir því; til dæmis með því að færa sig um set eða að minnsta kosti að biðja Alþingi afsökunar.