Afmælisbarnið Ásgrímur staddur á Kaffifélaginu á Skólavörðustíg.
Afmælisbarnið Ásgrímur staddur á Kaffifélaginu á Skólavörðustíg.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásgrímur Kristján Sverrisson fæddist 19. júní 1964 á Sólvangi í Hafnarfirði. „Ég ólst upp í Firðinum, mestanpart á Arnarhrauninu.“ Ásgrímur gekk í Lækjarskóla og fór síðan í Flensborg. „Ég byrjaði að gera kvikmyndir á fjórtánda…

Ásgrímur Kristján Sverrisson fæddist 19. júní 1964 á Sólvangi í Hafnarfirði. „Ég ólst upp í Firðinum, mestanpart á Arnarhrauninu.“

Ásgrímur gekk í Lækjarskóla og fór síðan í Flensborg. „Ég byrjaði að gera kvikmyndir á fjórtánda ári, 1978, en hafði þá lengi verið ákveðinn í að taka stefnuna á kvikmyndir og sjónvarp. Byrjaði líka að gefa út blöð um svipað leyti, gaf til dæmis út mitt fyrsta kvikmyndablað, Fókus, 1978 og dreifði um land allt. Var síðan á kafi í hvoru tveggja, kvikmyndagerð og blaðaútgáfu, meira og minna öll skólaárin og síðan áfram.“

Árið 1984 var Ásgrímur ráðinn sem útlitshönnuður hjá Sam-útgáfunni og vann síðan við grafíska hönnun bæði hjá auglýsingastofum og sjálfstætt, ásamt því að gera tónlistarmyndbönd og sjónvarpsauglýsingar. „Árið 1987 fór ég að vinna fyrir RÚV sem upptökustjóri og vann þar margs konar verkefni, bæði þau sem byggð voru á mínum eigin hugmyndum, en einnig ýmsa fasta og staka þætti.“

Ásgrímur hóf nám í kvikmyndaleikstjórn við The National Film and TV School í Bretlandi árið 1990 og útskrifaðist þaðan 1994. „Síðan hef ég fengist við margs konar verkefni á sviði kvikmyndagerðar, gert bíómyndir, margar stórar og smærri heimildamyndir, stuttmyndir, leikið sjónvarpsefni, alls kyns dagskrárgerð fyrir sjónvarp, tónlistarmyndbönd og sjónvarpsauglýsingar, svo eitthvað sé nefnt. Ýmis verkefni eru nú í undirbúningi.

Hluti af þessum verkum hefur beint sjónum að íslenskri kvikmyndasögu. Bæði einstök innslög í ýmsum föstum þáttum, síðan viðtalsþættir mínir, Taka tvö, frá 2005 og 2006, þar sem ég ræddi við íslenska kvikmyndagerðarmenn um verk þeirra og hugmyndirnar á bak við þau og loks heimildaþáttaröðin Ísland: bíóland, sem RÚV sýndi 2021.“

Frá 1995 til 2008 var Ásgrímur ritstjóri kvikmyndafagritsins Lands & sona. „Það var fyrsti miðillinn sem einblíndi á kvikmyndagreinina á Íslandi. Þar fór fram mikil umræða um starfsaðstæður greinarinnar, stefnumál og annað sem brann á fólki, auk umfjöllunar um þær kvikmyndir sem gerðar voru á tímabilinu. Ýmislegt af því sem sett var fram í þessum miðli varð síðar að veruleika, þótt manni fyndist það gjarnan gerast allt of hægt.“

Þá var Ásgrímur í hópi þeirra sem settu á fót Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíuna (ÍKSA) og Edduverðlaunin 1999. Hann var framkvæmdastjóri ÍKSA fyrstu þrjú árin og tók eftir það sæti í stjórn ÍKSA fyrir hönd Samtaka kvikmyndaleikstjóra (SKL) og sat þar í mörg ár. „Hugmyndin var að skapa vettvang til að vekja athygli á því sem vel er gert í greininni og hvetja fólkið sem starfar þar til góðra verka. Það er eilífðarverkefni.

Árið 2020 var ég beðinn að taka aftur sæti í stjórn ÍKSA fyrir SKL og síðan þá höfum við unnið að ýmsum breytingum sem meðal annars fela í sér að aðgreina verðlaun fyrir kvikmyndir annars vegar og sjónvarp hins vegar. Það var tími til kominn enda hefur greinin stækkað mikið á þessum aldarfjórðungi sem liðinn er frá stofnun Edduverðlaunanna.“

Ásgrímur stýrði ásamt öðrum undirbúningi að stofnun Bíós Paradísar árið 2010 og var dagskrárstjóri þess fyrstu þrjú árin. „Það var snúið að koma þessu á koppinn, en hafðist með aðkomu, stuðningi og skilningi margra. Blessunarlega hefur bíóið blómstrað og átt þátt í að auðga íslenska kvikmyndamenningu, sem var markmiðið.

Ég hef einnig komið reglulega að kennslu í kvikmyndum og kvikmyndagerð, mest hjá Kvikmyndaskóla Íslands þar sem ég hef kennt ýmislegt í gegnum tíðina, handrit, leikstjórn og lengst af kvikmyndasögu.“

Frá 2013 hefur Ásgrímur haldið úti fagmiðlinum Klapptré, sem fjallar um kvikmyndir og sjónvarp á Íslandi á breiðum grunni. „Það er ánægjulegt hversu víðlesinn hann er, bæði af fólkinu í greininni en einnig utan hans. Leiðarljósið í þessu er að skapa vitund um þetta samfélag kvikmyndagerðar í landinu, bæði þau verk sem við erum að vinna og þau málefni sem brenna á greininni.

Klapptré, Land & synir, Edduverðlaunin, Bíó Paradís og kvikmyndakennslan, sem og heimildaþættir mínir um sögu íslenskra kvikmynda, ásamt margs konar skrifum um hana og samtímasöguna, eru í grunninn hluti af þeirri uppbyggingu á innviðum greinarinnar sem staðið hefur í meira en hálfa öld.

Þegar maður var að byrja í þessu stóð maður í þeirri meiningu að þetta væri allt komið lengra á veg, en smám saman rann upp fyrir manni að það var svo margt sem átti eftir að gera. Kynslóðin á undan minni hafði byrjað að ryðja brautina en það varð líka hlutskipti margra af minni kynslóð að taka til hendinni, búa þetta til. Það var ekkert endilega það sem maður ætlaði að gera, en um leið er gefandi að hafa fengið tækifæri til að leggja eitthvað af mörkum.“

Fjölskylda

Dóttir Ásgríms er Erna Sóley, f. 4.5. 2000, aðstoðarframleiðandi hjá RÚV. Móðir hennar er Ólöf Jakobína Ernudóttir, f. 4.5. 1969, innanhússhönnuður.

Systkini Ásgríms eru Hjörtur Sverrisson, f. 10.10. 1965, lögfræðingur; Þröstur Sverrisson, f. 8.2. 1968, sagnfræðingur og leiðsögumaður, og Borghildur Sverrisdóttir, f. 18.5. 1974, framhaldsskólakennari.

Foreldrar Ásgríms eru hjónin Sóley Björk Ásgrímsdóttir, f. 29.5. 1940, húsmóðir og fv. verkakona, og Sverrir Kr. Bjarnason, f. 31.7. 1940, fv. sjónvarpstæknimaður og loftskeytamaður. Þau eru búsett í Hafnarfirði.