Hamfarir Stór sprunga opnaðist undir gólfi íþróttahússins.
Hamfarir Stór sprunga opnaðist undir gólfi íþróttahússins. — Morgunblaðið/Eggert
Bæj­ar­stjórn Grinda­vík­ur­bæj­ar hef­ur heim­ilað að hefja undirbúning að niðurrifi fjöl­nota íþrótta­húss­ins Hóps­ins. Íþrótta­húsið, sem var byggt árið 2008, fór illa út úr jarðhrær­ing­un­um í Grinda­vík og myndaðist stór sprunga und­ir gervi­grasvelli þess

Freyr Bjarnason

freyr@mbl.is

Bæj­ar­stjórn Grinda­vík­ur­bæj­ar hef­ur heim­ilað að hefja undirbúning að niðurrifi fjöl­nota íþrótta­húss­ins Hóps­ins. Íþrótta­húsið, sem var byggt árið 2008, fór illa út úr jarðhrær­ing­un­um í Grinda­vík og myndaðist stór sprunga und­ir gervi­grasvelli þess.

„Það var ljóst fyr­ir ein­hverju síðan að það er altjón á hús­inu. Húsið ligg­ur yfir þess­ari Hóps-sprungu og þetta lá al­gjör­lega ljóst fyr­ir,“ seg­ir Ásrún Helga Krist­ins­dótt­ir, for­seti bæj­ar­stjórn­ar Grinda­vík­ur, spurð út í aðdrag­anda ákvörðun­ar­inn­ar. Hún seg­ir ekk­ert annað í stöðunni en að rífa húsið, meðal ann­ars til að koma í veg fyr­ir að laus­ar stál­plöt­ur og fleira fjúki þaðan næsta vet­ur.

Grinda­vík­ur­bær fékk greidd­ar tjóna­bæt­ur fyr­ir húsið frá Nátt­úru­ham­fara­trygg­ing­um Íslands. Spurð kveðst Ásrún Helga ekki hafa upp­lýs­ing­ar um kostnaðinn við niðurrifið.

Hún býst við því að haf­ist verði handa við það á næstu vik­um. Ein­hverj­ir aðilar hafa sýnt áhuga á að ann­ast verk­efnið. Einnig kom til umræðu á bæj­ar­stjórn­ar­fund­in­um að end­ur­nýta eitt­hvað af efni húss­ins.

Að sögn Ásrún­ar Helgu er von á fleiri fregn­um af niðurrifi á næst­unni, enda hef­ur orðið altjón á mörg­um hús­um í bæn­um. Eitt þeirra er ný­bygg­ing Hóps­skóla frá árinu 2009.

Höf.: Freyr Bjarnason