Kylian Mbappé, fyrirliði og stjörnuleikmaður Frakka á EM í fótbolta, þarf ekki að gangast undir aðgerð vegna nefbrotsins sem hann varð fyrir í leiknum gegn Austurríki í fyrrakvöld. Franska sambandið skýrði frá því að Mbappé myndi spila með…

Kylian Mbappé, fyrirliði og stjörnuleikmaður Frakka á EM í fótbolta, þarf ekki að gangast undir aðgerð vegna nefbrotsins sem hann varð fyrir í leiknum gegn Austurríki í fyrrakvöld. Franska sambandið skýrði frá því að Mbappé myndi spila með sérhannaða grímu á andlitinu en ekki liggur fyrir hvort hann verði leikfær á föstudagskvöldið þegar Frakkar mæta Hollendingum í D-riðli keppninnar.

Ólympíufarinn Hákon Þór Svavarsson hafnaði í 78. sæti af 125 keppendum á heimsbikarmóti í leirdúfuskotfimi með haglabyssu í Lonato á Ítalíu um síðustu helgi. Hann hitti samtals úr 115 af 125 skotum sínum í tveggja daga keppni.

Sænska knattspyrnufélagið Norrköping hefur ráðið Magna Fannberg í starf íþróttaráðgjafa. Magni, sem er 44 ára, hætti störfum sem íþróttastjóri Start í Noregi í desember en hann hefur áður starfað hjá AIK og Brommapojkarna í Svíþjóð og Brann í Noregi.

Handknattleiksmaðurinn Elvar Otri Hjálmarsson hefur skrifað undir nýjan samning við Gróttu til næstu tveggja ára. Elvar Otri er 23 ára leikstjórnandi og skytta auk þess að vera sterkur varnarmaður. Hann kom til Gróttu frá Fjölni fyrir tveimur árum.

Þrír leikmenn missa af undanúrslitunum í bikarkeppni karla í fótbolta vegna tveggja gulra spjalda í keppninni. KA-mennirnir Bjarni Aðalsteinsson og Birgir Baldvinsson verða ekki með Akureyrarliðinu gegn Val og Guðmundur Baldvin Nökkvason verður ekki með Stjörnunni gegn Víkingi. Þá var Amin Guerrero, leikmaður Dalvíkur/Reynis, úrskurðaður í tveggja leikja bann í 1. deild karla.