Tenór Benedikt Kristjánsson kom fram með kammerhópnum Ensemble Adapter.
Tenór Benedikt Kristjánsson kom fram með kammerhópnum Ensemble Adapter.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Breiðholtskirkja – Listahátíð í Reykjavík Raddir úr blámanum ★★★★· Tónlist: Þuríður Jónsdóttir (og Matthias Engler í einu verki). Textar: Bernart de Ventadorn (í þýðingu Atla Ingólfssonar), Ólafur frá Söndum, Vilhjálmur Ólafsson, Bólu-Hjálmar, Gamalíel Halldórsson, Illugi Einarsson og Hallgrímur Pétursson. Einsöngvari: Benedikt Kristjánsson tenór. Ensemble Adapter (Guðbjörg Hlín Guðmundsdóttir fiðla, Alexandra Kjeld kontrabassi, Ella Vala Ármannsdóttir horn, Gunnhildur Einarsdóttir harpa, Matthias Engler slagverk, Finnur Hákonarson hljóð). Tónleikar í Breiðholtskirkju á Listatahátíð í Reykjavík miðvikudaginn 12. júní 2024.

Tónlist

Magnús Lyngdal Magnússon

Raddir úr blámanum er heiti á sveig sönglaga fyrir tenórsöngvara og kammerhóp. Í efnisskrá tónleika sem fram fóru á Listahátíð í Reykjavík á dögum segir um söngvasveiginn: „Ólíkar sönghefðir af veraldlegum og trúarlegum toga eru speglaðar í gegnum tíma og yfir landamæri, endurlesnar og kompóneraðar að nýju í gegnum linsu samtímans.“ Verkin á tónleikunum voru að mestu leyti eftir Þuríði Jónsdóttur, en hún nam meðal annars tónsmíðar hér heima og á Ítalíu. Þuríður var tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna bæði 2002 og 2004 og Tónskáldaverðlauna Norðurlandaráðs 2006, 2010 og 2012 svo eitthvað sé nefnt. Verk hennar hafa verið leikin víða, þar á meðal af Sinfóníuhljómsveit Íslands, Caput-hópnum og Kammersveit Reykjavíkur ásamt því að hljóma erlendis.

Það voru tenórsöngvarinn Benedikt Kristjánsson og kammerhópurinn Ensemble Adapter sem komu fram á tónleikunum í Breiðholtskirkju. Hljóðfærasamsetningin var býsna breið, það er að segja harpa, fiðla, kontrabassi, franskt horn og slagverk auk ýmiss konar rafhljóða. Adapter-hópurinn gerir úr frá Berlín en hann kemur víða fram, meðal annars á listahátíðum og hefur starfað á alþjóðavettvangi frá árinu 2004 eða í tvo áratugi.

Tónleikarnir hófust á því að Benedikt kom gangandi úr kór kirkjunnar, syngjandi (a capella) gregoríska forsönginn „Sjá þeir dagar munu koma“ og gerði það glæsilega. Eftir það hljómaði flutningur á gregorssöngnum „Vieni Creator Spiritus (Kom nú, hreinn skapaður himna / hlutvandur föður andi)“ sem rekur ættir sínar til 11. aldar. Íslenska þýðingin hefur varðveist í einu af handritum Snorra-Eddu. Þuríður samdi viðbót við gamla sönginn og útsetningin var gerð í samstarfi við Adapter-hópinn. Flutningur var hinn glæsilegasti og Benedikt söng ákaflega fallega (sums staðar lá verkið mjög hátt); oft var eins og söngvari og fiðlurödd ættu í samtali. Textaframburður var fyrirtak og Matthias Engler sýndi, svo ekki verður um villst, að hann er liðtækur í því að leika á sög.

Ég var líka mjög hrifinn af flutningi á Huggunarkvæði (við ljóð Ólafs frá Söndum), sem og verkinu INNI – musica da camera. Það var frumflutt fyrir rúmum áratug en þar fór saman einleikur á fiðlu og upptökur af hjali nýbura. Fallega leiknir flaututónarnir hjá Guðbjörgu Hlín Guðmundsdóttur minntu mig stundum á vögguvísu í einfaldleika sínum.

Enn var um að ræða fínan flutning á Gagaravísum (við texta þeirra Vilhjálms Ólafssonar, Bólu-Hjálmars, Gamalíels Halldórssonar og Illuga Einarssonar). Þetta er bragarháttur sem hefur fjórar kveður í hverri línu og eru allar línur stýfðar. Mér fannst verkið frábærlega samið og útsetning þess (sem gerð var í samstarfi við Adapter-hópinn) kom skemmtilega út. Aftur söng Benedikt frábærlega, ekki síst þegar fyrsta vísan var endurtekin í lok verksins („Man ég hljóma ym og óm, / óma sveima um bláan geim“).

Ég var hins vegar hvorki hrifinn af verkinu Sumarið – millispil (eftir Matthias Engler) né Vetrinum eftir Þuríði. Sumarið var stutt og snarpt en Veturinn býsna langur og harður. Texti síðarnefnda verksins er sóttur í smiðju tónskáldsins Antonios Vivaldis en ljóðið skrifaði hann inn í raddskrá Árstíðanna fjögurra. Það var ekkert að flutningi þessara verka, þau bara sögðu mér enga „sögu“ og mér fannst fyrst og fremst um nokkurs konar hljóðgjörning að ræða.

„Þeir sjá mig ekki meir í Vantadúr“ var bæði skemmtilegt og fallega flutt en mér fannst nýtt lag Þuríðar við kvæði Hallgríms Péturssonar, „Allt eins og blómstrið eina“, það allra flottasta sem ég komst í tæri við á þessum tónleikum. Lagið samdi Þuríður vissulega með fornt yfirbragð í huga en þegar laglínan kom saman við þéttan hljóðmassa Adapter-hópsins fannst mér raunverulega eins og gamli og nýi tíminn væru að mætast. Þannig var ólga í undirleiknum meðan Benedikt söng af yfirvegun (í lúshægu tempói) og stígandin í verkinu, allt fram á síðustu línu Hallgríms, „Kom þú sæll þá þú vilt“, var flott. Hljóðmassinn dó svo hægt og rólega út eftir lokaorðin. Eftirminnilegt!