Fredrik Bjelland, sjóðstjóri hjá SKAGEN Kon-Tiki, segir að aukið upplýsingaflæði einfaldi til muna fjárfestingar í nýmarkaðsríkjum.
Fredrik Bjelland, sjóðstjóri hjá SKAGEN Kon-Tiki, segir að aukið upplýsingaflæði einfaldi til muna fjárfestingar í nýmarkaðsríkjum. — Morgunblaðið/Eyþór
Nýmarkaðsríki hafa á undanförnum árum skapað sér stærri sess í hugum fjárfesta sem álitleg ríki til að fjárfesta í. Um 60 prósent af íbúafjölda heimsins búa á svæðum sem flokka má sem nýmarkaðsríki og lönd á borð við Kína, Indland, Brasilíu og…

Nýmarkaðsríki hafa á undanförnum árum skapað sér stærri sess í hugum fjárfesta sem álitleg ríki til að fjárfesta í. Um 60 prósent af íbúafjölda heimsins búa á svæðum sem flokka má sem nýmarkaðsríki og lönd á borð við Kína, Indland, Brasilíu og Suður-Afríku hafa farið í gegnum tímabil sem einkennist af miklum vexti. Aftur á móti eru aðeins um 10-20% af þeim eignum sem hægt er að fjárfesta í fyrir hendi í nýmarkaðsríkjum og flestir fjárfestar á Vesturlöndum eiga jafnvel minna. Hagvöxtur í nýmarkaðsríkjum er oft á tíðum 2-3% hærri en á mörkuðum þróaðri ríkja.

Fredrik Bjelland er sjóðstjóri hjá SKAGEN Kon-Tiki, en fyrirtækið er með 1,5 milljarða bandaríkjadollara í virkri stýringu í sjóði sem fjárfestir í nýmarkaðsríkjum. Hann segir að vitaskuld fylgi því áskoranir að fjárfesta í nýmarkaðsríkjum en á móti komi að það feli í sér ýmsa kosti. Til dæmis eru þær fjárestingar mun ódýrari en í þróaðri ríkjum og mögulega meiri vaxtarmöguleikar. Það geri fyrirtækin sem þar eru að spennandi fjárfestingakosti.

„Það hafa átt sér stað miklar breytingar á þessum markaði á undanförnum árum. Kína hefur til dæmis breyst mikið. Fyrir fimm árum hafði kínverska hagkerfið mikla yfirburði og vaxið afar hratt. Alibaba stefndi hraðbyri á að verða stærsta netfyrirtæki í heimi og Tencent stærsta tölvuleikjafyrirtæki í heimi. Síðan breyttist pólitíska landslagið og heimsfaraldurinn reið yfir. Heimur fjárfestinga í nýmarkaðsríkjum er síbreytilegur og það er það sem gerir hann spennandi,“ segir hann í samtali við ViðskiptaMoggann.

Hlutirnir ekki svarthvítir

Fredrik segir að mikilvægt sé að gera greinarmun á því hvernig nýmarkaðsríki eru skilgreind og hvernig fjárfestingar í nýmarkaðsríkjum eru valdar. Yfirleitt eru nýmarkaðsríki skilgreind sem lönd sem eru minna þróuð og oft í miklum vexti. Hlutirnir séu þó ekki svo svarthvítir.

„Suður-Kórea er til dæmis skilgreind sem nýmarkaðsríki af vísitölufyrirtækinu MSCI en þegar þú stendur á stærstu verslunargötu í Seoul þá færðu það ekki á tilfinninguna að þarna sé um að ræða nýmarkaðsríki. Það eru eiginleikar sem kóreski fjármálamarkaðurinn hefur sem gerir hann að nýmarkaði. Það er til dæmis styrkur fjármálastofnana og regluverks, stjórnun fyrirtækja og fleira. Fjárfestingar í nýmarkaðsríkjum snúast í grunninn um að leita að vaxtartækifærum,“ segir Fredrik og bætir við að frá þjóðhagfræðilegu sjónarhorni sé Indland spennandi fjárfestingakostur.

Indland hefur lága verga landsframleiðslu á mann og íbúarnir eru ungir. Það gerir það að verkum að landið er í miklum vexti. Aftur á móti eru hlutabréf í Indlandi þau dýrustu í heiminum. Þannig að það að meta fjárfestingakosti er ekki eins einfalt og það kann að hljóma.

Tyrkir drekka líka kók

SKAGEN fjárfestir meðal annars í Tyrklandi og Fredrik segir að margir staldri við og hafi efasemdir um fjárfestingar í því landi. Það sé skiljanlegt í ljósi þess að peningastefna Erdogans hefur beðið skipbrot, verðbólgan er afar há og ýmislegt geri það að verkum að það hljómi sem landið sé áhættusamt fyrir fjárfestingar.

„Það er ástæðan fyrir því að margir eru að færa peningana sína frá Tyrklandi en það eru þó fyrirtæki sem standa sig mjög vel í þessu erfiða efnahagsumhverfi og eru vön erfiðum markaðsaðstæðum. Coca-Cola er til dæmis með starfsemi þar og fólk í Tyrklandi drekkur líka kók eins og margir aðrir íbúar annarra landa sem teljast stöðugri.“

Spurður að hvaða leyti það sé öðruvísi að fjárfesta í nýmarkaðsríkjum en í þróaðri ríkjum segir Fredrik að líkt og gefur að skilja sé það misjafnt eftir ríkjum en mikilvægt sé að jafnræði sé meðal stórra og smárra fjárfesta. Það þurfi ekki að þýða að fjárfestar hafi sama aðgang að upplýsingum. Fyrir 22 árum þegar SKAGEN Kon-Tiki-sjóðurinn var stofnaður í Noregi var staðan þannig að það að vera staddur í Noregi og fá sömu upplýsingar án internetsins líkt og einhver sem staddur var í til dæmis Jarkarta var afar erfitt.

„Upplýsingaflæðið hefur gert fjárfestingar í nýmarkaðsríkjum einfaldari. Síðan skiptir það ekki máli hvar í heiminum við erum að fjárfesta, við erum alltaf að leita að misræmi í verði. Auðvitað getur efnahagsumhverfið í löndunum verið krefjandi en víða er að finna fyrirtæki með framúrskarandi teymi á bak við sig og það yfirgnæfir erfiðleikana í umhverfinu. Tyrkland er skýrt dæmi um það,“ segir Fredrik að lokum.