Snákurinn sést hér til hægri á myndinni. Verslunin er rúmgóð og húsgögnin fá að njóta sín.
Snákurinn sést hér til hægri á myndinni. Verslunin er rúmgóð og húsgögnin fá að njóta sín.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vegfarandur á leið um Reykjanesbrautina hafa margir tekið eftir versluninni Vest á Dalvegi 30 í Kópavogi en skilti verslunarinnar blasir við þegar gatan er ekin í báðar áttir. Elísabet Helgadóttir eigandi og framkvæmdastjóri segist hafa viljað koma með eitthvað nýtt á húsgagnamarkaðinn

Vegfarandur á leið um Reykjanesbrautina hafa margir tekið eftir versluninni Vest á Dalvegi 30 í Kópavogi en skilti verslunarinnar blasir við þegar gatan er ekin í báðar áttir. Elísabet Helgadóttir eigandi og framkvæmdastjóri segist hafa viljað koma með eitthvað nýtt á húsgagnamarkaðinn.

„Við fundum strax fyrir að fólk þyrsti í eitthvað öðruvísi. Það hafa ákveðnar húsgagnaverslanir verið allsráðandi á markaðnum í tugi ára og okkur fannst tímabært að koma með eitthvað nýtt og spennandi,“ segir Elísabet í samtali við ViðskiptaMoggann.

En hvernig er Vest frábrugðin öðrum búðum á markaðnum?

„Fyrir það fyrsta bjóðum við upp á ný vörumerki. Þau eru mörg frábrugðin þessum skandinavíska anda sem verið hefur svo ráðandi hér á landi. Við erum með talsvert af vörum frá Ítalíu, Sviss, Japan og einnig frá Noregi sem er ákveðin nýjung á markaðnum. Hönnun Norðmanna tekur mið af norska landslaginu sem svipar að mörgu leyti til þess íslenska. Það virðist höfða vel til viðskiptavina. Ég er eiginlega hálfundrandi á því hvað norsk hönnun hefur verið lítið áberandi á Íslandi hingað til.“

Ítölsku merkin ævintýralegri

Um ítölsku vörumerkin segir Elísabet að þau séu aðeins „ævintýralegri“ en margt annað sem í boði er á húsgagnamarkaðnum. Formin séu framandi og mýkri. Þá sé efnisnotkunin skemmtileg. Elísabet segir að Vest sérsníði mikið vörur að þörfum viðskiptavina og veiti innanhússráðgjöf.

„Okkur hefur gengið vel og selt jafnt til einstaklinga, fyrirtækja og stofnana.“

Spurð um hvort erfitt efnahagsástand síðustu missera hafi sett mark sitt á reksturinn segir Elísabet svo ekki vera.

„Við höfum verið að bíða eftir alvöruhöggi, en það hefur ekki komið. Maður vonar að það komi ekki. Við veitum ótrúlega góða og persónulega þjónustu og ég er viss um að viðskiptavinir okkar kunna að meta það.“

Vest hóf upphaflega starfsemi á netinu haustið 2020. Þremur mánuðum síðar, eða í upphafi árs 2021, var fyrsta verslunin opnuð í Ármúla 17. Elísabet segir að fljótlega upp úr því hafi hún farið að svipast um eftir annarri staðsetningu. Ármúlinn hafi reynst óhentugur vegna mikils umferðarþunga á ákveðnum tíma dagsins og vöntunar á bílastæðum.

„Við komum hingað á Dalveginn í október í fyrra um leið og húsnæðið var klárt. Við vorum með þeim fyrstu sem fluttu inn og löguðum húsnæðið að okkar þörfum í samstarfi við ASK arkitekta. Verslunin er mjög ólík öðrum rýmum í húsinu. Húsgögnin fá að njóta sín í góðu plássi þar sem hátt er til lofts og vítt til veggja. Þetta er eins og listagallerí þar sem hóflega mikið er af vörum úti á gólfi.“

Fæddist í Lundúnum

Spurð út í hugmyndina og hvernig hún hafi fæðst segir Elísabet það hafa verið úti í Lundúnum. Þar bjó hún ásamt fjölskyldunni um árabil.

„Við vildum koma heim með eitthvað alveg nýtt. Pétur maðurinn minn var stjórnandi hjá dýnufyrirtækinu Simba og kom þeim inn í búðir um allan heim, allt frá Macys í Bandaríkjunum yfir í verslanir í Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.“

Elísabet segist hafa fengið innsýn í hönnunarbransann á ferðum sínum með eiginmanninum.

„Ég var í fæðingarorlofi á þessum tíma og við fjölskyldan fengum að fljóta með honum á vörusýningar víða um heim. Það kveikti áhugann. Við höfðum alltaf viljað fara í eigin rekstur og þarna varð til hugmyndin um að stofna fyrirtæki sem tengdist innviðum heimilisins.“

Elísabet, sem er með bakgrunn í fatahönnun, bætir við að áhugasvið sitt allt frá barnæsku hafi verið falleg og endingargóð hönnun. Hún sé enda betri fyrir umhverfið. Það sé ekki umhverfisvænt að endurnýja húsgögn í sífellu og henda þeim gömlu. Elísabet hvetur fólk frekar til að safna fyrir vönduðum og eigulegum vörum.

„Það verður allt annar andi á heimilinu með vönduðum húsgögnum. Það tíðkaðist meira í gamla daga að eiga húsgögn jafnvel ævilangt. Tengingin við heimilið verður öðruvísi og þú býrð til minningar með fallega muni allt í kringum þig.“

Unnið í höndunum

Dæmi um slíkt húsgagn er DS 600-sófinn, betur þekktur sem „Snákurinn“.

„DS 600-sófinn er dæmi um hönnun sem auðvelt er að sérsníða inn í rýmið. Hann samanstendur af 25 cm löngum einingum sem púslast saman, bæði með baki og án baks. Sófinn er frá Desede-fyrirtækinu en þar er leðrið unnið í höndunum og passað upp á að það haldi sínum upprunalegu eiginleikum og gæðum sem allra best. Það er engu líkt að setjast í sófann því framleiðandinn hefur reiknað út þrýstipunkta og sófinn gefur eftir í réttum hlutföllum. Á bak við Snákinn er mikið handverk og nákvæmnisvinna sem er aftur ástæða verðmiðans, sem er auðveldlega 5-6 milljónir króna,“ útskýrir Elísabet og bætir við að sófinn sé algeng sjón í antikbúðum. Oftar en ekki sjáist nánast ekkert á leðrinu.

„Ef þú hugsar vel um hann þá endist hann í tugi ára,“ segir hún.

Elísabet segir að samfélagsmiðlar og netið hafi breytt miklu fyrir húsgagnabransann. Heimurinn hafi stækkað.

„Við erum að sjá áhrif alls staðar að, frá Suður-Ameríku, Ítalíu og Japan, mun meira en nokkurn tímann áður. Samfélagsmiðlar eins og Instagram hafa opnað nýjar víddir. Þá hefur orðið mikil vitundarvakning meðal yngri kynslóða um að nýta hluti en hlaupa ekki eftir öllum tískubylgjum.“

Þegar spurt er um nafnið Vest segir Elísabet það hafa fæðst á ferðalagi um landið.

„Hugmyndin var upphaflega að bjóða upp á brot af því besta alls staðar að úr heiminum í versluninni. Ég íhugaði nafnið mikið og þegar við hjónin vorum að stofna félagið ferðuðumst við talsvert um landið. Mér finnst Vestfirðir vera eins konar brot af því besta sem Ísland hefur upp á að bjóða. Nafnið Vest fæddist út frá því.“