Hlíðarendi Gylfi Þór Sigurðsson fagnar fyrra jöfnunarmarkinu gegn Víkingi ásamt Tryggva Hrafni Haraldssyni og Jónatani Inga Jónssyni.
Hlíðarendi Gylfi Þór Sigurðsson fagnar fyrra jöfnunarmarkinu gegn Víkingi ásamt Tryggva Hrafni Haraldssyni og Jónatani Inga Jónssyni. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði úr tveimur vítaspyrnum fyrir Val og jafnaði úr þeirri síðari í uppbótartíma þegar Valur og Víkingur skildu jöfn, 2:2, í sannkölluðum spennutrylli frammi fyrir tæplega tvö þúsund áhorfendum á Hlíðarenda í gærkvöld

Besta deildin

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði úr tveimur vítaspyrnum fyrir Val og jafnaði úr þeirri síðari í uppbótartíma þegar Valur og Víkingur skildu jöfn, 2:2, í sannkölluðum spennutrylli frammi fyrir tæplega tvö þúsund áhorfendum á Hlíðarenda í gærkvöld.

Víkingar eru því með fjögurra stiga forskot á Breiðablik og Val á toppi Bestu deildar karla í fótbolta en Blikar geta komið því niður í eitt stig þegar þeir taka á móti botnliði KA í síðasta leik umferðarinnar í kvöld.

Áhorfendur á Hlíðarenda fengu heilmikið fyrir peninginn í líflegri viðureign þar sem Valdimar Þór Ingimundarson kom Víkingum tvisvar yfir í leiknum, með sínum fyrstu deildarmörkum fyrir félagið.

Glæsilegt sigurmark HK

HK vann óvæntan sigur gegn Fram í Úlfarsárdal, 2:1, eftir að hafa verið marki undir í hálfleik. Varnarmaðurinn Þorsteinn Aron Antonsson skoraði sigurmarkið með glæsilegri hjólhestaspyrnu, aðeins fimm mínútum eftir að HK jafnaði metin með sjálfsmarki sem kom eftir góða rispu hins 18 ára gamla Birnis Breka Burknasonar.

HK styrkti því verulega stöðu sína í botnbaráttunni og fór upp fyrir Vestra á markatölu. Framarar sáu aftur á móti á eftir mikilvægum stigum sem hefðu komið þeim í fína stöðu í efri hlutanum.

ÍA í fjórða sætið

Skagamenn eru komnir í fjórða sætið eftir sigur á gömlu erkifjendunum í KR á Akranesi, 2:1. Þar stefndi allt í markalaust jafntefli en mörkin komu á lokamínútunum. Viktor Jónsson og Marko Vardic komu ÍA í 2:0 en Eyþór Aron Wöhler, fyrrverandi leikmaður ÍA, minnkaði muninn á sínum gamla heimavelli.

Nýliðar ÍA geta verið ánægðir með sinn hlut. Þetta var þeirra fimmti sigur í fyrstu tíu leikjunum.

Vandræði KR-inga halda hins vegar áfram. Þeir hafa nú aðeins unnið einn af síðustu átta leikjunum og þokast nær botnbaráttunni með hverjum leik.

Fylkir af botninum

Fylkir komst upp fyrir KA og af botni deildarinnar með sigri á Vestra í fjörugum leik, 3:2, í Árbænum. Varamennirnir Þóroddur Víkingsson og Ómar Björn Stefánsson virtust hafa tryggt Fylki sigurinn þegar þeir komu liðinu í 3:1 seint í leiknum.

Jeppe Gertsen minnkaði muninn fyrir Vestra og virtist Gertsen vera að jafna metin en Ólafur Kristófer Helgason varði frá honum úr dauðafæri í markteignum og tryggði Fylkismönnum sigurinn. Vestfirðingar duttu niður í 10. sæti með tapinu og botnbaráttan er enn þéttari en áður.

Fjögur Stjörnumörk

Stjörnumenn sneru blaðinu við eftir að hafa fengið á sig níu mörk gegn Val og Vestra og unnu FH 4:2 í grannaslag í Garðabæ. Þrjú markanna komu í uppbótartíma leiksins og Stjarnan fór upp fyrir FH og í fimmta sætið.

Emil Atlason var með mark og stoðsendingu fyrir Stjörnuna og innsiglaði sigurinn seint í uppbótartímanum. Björn Daníel Sverrisson skoraði bæði mörk FH.