[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stjórn PGA-mótaraðarinnar í golfi hefur tekið ákvörðun um að veita Tiger Woods sæti til lífstíðar á öllum aðalmótum mótaraðarinnar sem ekki teljast til stórmóta. Woods hefur alls unnið 82 mót á PGA-mótaröðinni, þar á meðal 15 stórmót, en hefur glímt við þrálát meiðsli undanfarin ár

Stjórn PGA-mótaraðarinnar í golfi hefur tekið ákvörðun um að veita Tiger Woods sæti til lífstíðar á öllum aðalmótum mótaraðarinnar sem ekki teljast til stórmóta. Woods hefur alls unnið 82 mót á PGA-mótaröðinni, þar á meðal 15 stórmót, en hefur glímt við þrálát meiðsli undanfarin ár. Alls er um átta mót að ræða á hverju tímabili og sagði í tilkynningu stjórnarinnar að ákvörðunin hefði verið tekin með tilliti til þess magnaða árangurs sem Woods hefur náð á ferli sínum.

Handknattleiksmaðurinn Tryggvi Sigurberg Traustason hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við Selfoss. Tryggvi er 21 árs leikstjórnandi sem var lykilmaður hjá Selfossi á síðasta tímabili. Skoraði hann 58 mörk í 22 leikjum er liðið féll úr úrvalsdeildinni. Selfoss leikur í 1. deild á næsta tímabili.

Leicester City hefur hafið viðræður við Steve Cooper um möguleikann á því að hann taki við sem knattspyrnustjóri karlaliðsins. Enzo Maresca stýrði Leicester til sigurs í ensku B-deildinni á síðasta tímabili en var nýverið ráðinn stjóri Chelsea. Nýliðarnir í ensku úrvalsdeildinni eru því í leit að nýjum knattspyrnustjóra. Leicester hafði átt í viðræðum við Graham Potter um að taka við en nú hefur slitnað upp úr þeim að sögn The Guardian.

Körfuknattleiksdeild Álftaness hefur samið við franska framherjann Alexis Yetna um að leika með karlaliðinu á næsta tímabili. Karfan greindi frá í gær. Yetna er 26 ára gamall og 203 sentimetrar að hæð. Hann kemur til Álftnesinga frá liði Fairfield í bandaríska háskólaboltanum.

Emilía Kiær Ásgeirsdóttir skoraði fyrra mark Nordsjælland þegar liðið lagði Íslendingalið Bröndby að velli, 2:1, í úrslitaleik dönsku bikarkeppninnar í knattspyrnu í gær. Emilía vann því tvöfalt með Nordsjælland á tímabilinu þar sem hún varð danskur meistari um síðustu helgi.