Skeið Hér mætast Hrunamanna- og Skálholtsvegur.
Skeið Hér mætast Hrunamanna- og Skálholtsvegur. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Hér á svæðinu eru víða staðir þar sem bæta má umferðaröryggi. Ég kýs því að horfa á hlutina í stóru samhengi,“ segir Haraldur Þór Jónsson oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Sveitarstjórn þar barst nýlega erindi frá Kristófer Tómassyni, …

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Hér á svæðinu eru víða staðir þar sem bæta má umferðaröryggi. Ég kýs því að horfa á hlutina í stóru samhengi,“ segir Haraldur Þór Jónsson oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Sveitarstjórn þar barst nýlega erindi frá Kristófer Tómassyni, fyrrverandi sveitarstjóra sveitarfélagsins, sem nú býr í Laugarási í Biskupstungum. Í því bréfi var vakin athygli á slysahættu við Reyki á Skeiðum þar sem Hrunamanna- og Skálholtsvegur mætast.

Á nefndum stað háttar svo til að há skjólbelti eru við veginn og byrgja sýn. Sé til dæmis komið frá Skálholti úr vestri sést ekki til suðurs á vegamótunum. Almennt þykir gróðurinn þarna þrengja sjónsvið ökumanna og því sé úrbóta þörf.

„Ærið tilefni er að mati undirritaðs til að óska eftir því við landeigendur að þeir felli tré sem liggja að umræddum gatamótum,“ segir Kristófer í erindi sem hann hefur sent bæði sveitarstjórn og Vegagerð. Þar hvetur hann sömuleiðis til þess að Vegagerðin bæti aðreinar og merkingar.

„Umferð hér um uppsveitir Árnessýslu er mikil en ástand og uppbygging vega hafa ekki fylgt því,“ segir Haraldur Þór og heldur áfram: „Vert er að skoða öryggismálin á gatnamótunum við Reyki og þar eru sjálfsagt tré sem mætti fella. En víðar þarf að bæta úr; til dæmis þarna ekki langt frá á Sandlækjarholti þar sem er beygt til hægri og ekið hér um Þjórsárdalsveginn og svo áfram upp á hálendið. Í aðalskipulagi sveitarfélagsins er raunar gert ráð fyrir því að útbúið verði hringtorg, sem ég tel að miklu myndi breyta með tilliti til umferðaröryggis. Þar sem ökumenn þurfa að taka vinkilbeygju beint yfir veg er alltaf mikil slysahætta.“ sbs@mbl.is

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson