Gull Anna Guðrún Halldórsdóttir með gullverðlaun í Haugasundi.
Gull Anna Guðrún Halldórsdóttir með gullverðlaun í Haugasundi. — Ljósmynd/Gunnar Biering Agnarsson
Anna Guðrún Halldórsdóttir kom, sá og sigraði á Evrópumeistaramótinu í ólympískum lyftingum í Haugasundi í Noregi um liðna helgi þar sem hún setti alls fjögur heimsmet og sex Evrópumet. Anna, sem keppir í -87 flokki 55 til 59 ára, bar höfuð og…

Anna Guðrún Halldórsdóttir kom, sá og sigraði á Evrópumeistaramótinu í ólympískum lyftingum í Haugasundi í Noregi um liðna helgi þar sem hún setti alls fjögur heimsmet og sex Evrópumet. Anna, sem keppir í -87 flokki 55 til 59 ára, bar höfuð og herðar yfir keppinauta sína og varð margfaldur Evrópumeistari.

Hún setti heimsmet í jafnhöttun er hún lyfti mest 78 kg. Fyrr á mótinu hafði hún sett heimsmetið, 76 kg, en metið fyrir mótið var 74 kg. Um leið setti Anna Evrópumet í jafnhöttun í tvígang en metið fyrir mótið var 62 kg.

Einnig setti hún heimsmet í samanlögðu, 136 kg, eftir að hafa fyrr á mótinu sett heimsmet er hún lyfti samanlagt 132 kg. Metið fyrir mótið var 129 kg. Sömuleiðis setti Anna Evrópumet í samanlögðu í tvígang. Evrópumetið fyrir mótið var 115 kg.

Þá setti hún einnig Evrópumet í snörun er hún lyfti mest 58 kg. Fyrr á mótinu hafði Anna sett metið er hún lyfti 56 kg. Evrópumetið var 55 kg.

Í samtali við Morgunblaðið greindi Anna frá því að hún hefði verið úrskurðuð í keppnisbann til tveggja ára í október árið 2021.

„Ég féll á lyfjaprófi en ég var að nota lyfið Livial við tíðahvörfum sem er mjög algengt meðal kvenna. Í því er Tibolone, efni sem er á bannlista alþjóðlega lyfjaeftirlitsins, WADA.

Það er skandall að þetta örlitla magn af testósteróni felli keppanda því yngri konur framleiða sjálfar jafnvel meira testósterón, en við það að eldast minnkar sú framleiðsla í líkamanum,“ sagði Anna. gunnaregill@mbl.is