Hjónin Sigurður og Harpa nýkomin frá Bessastöðum með fálkaorðuna.
Hjónin Sigurður og Harpa nýkomin frá Bessastöðum með fálkaorðuna.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Harðarson fæddist 20. júní 1944 í Reykjavík og ólst þar upp. Æskuheimilið var í miðbænum. Sigurður gekk í Miðbæjarskólann öll barnaskólaárin. Hann nam undirstöðuatriði í rafeindatækni og ljósmyndun hjá Námsflokkum Reykjavíkur þegar hann var 12 og 13 ára

Sigurður Harðarson fæddist 20. júní 1944 í Reykjavík og ólst þar upp. Æskuheimilið var í miðbænum.

Sigurður gekk í Miðbæjarskólann öll barnaskólaárin. Hann nam undirstöðuatriði í rafeindatækni og ljósmyndun hjá Námsflokkum Reykjavíkur þegar hann var 12 og 13 ára. „Ég smíðaði þar mitt fyrsta úrvarp og framkallaði ljósmyndir sem hefur verið mikið áhugamál mitt síðan.

Ég sótti um að komast á samning sem nemi í útvarpsvirkjun en þurfti að bíða í tvö ár. Á meðan var ég skipverji á millilandaskipi Eimskips, Ms. Lagarfossi, einum af svokölluðum þríburum. Þann tíma sigldi skipið til Mið-Evrópu, Norðurlandanna, Póllands og Rússlands.“

Næst lá leiðin í Iðnskólann eftir að hafa komist á samning í útvarpsvirkjun. Sigurður lauk sveinsprófi og fékk meistararéttindi tveimur árum síðar. Hann vann eftir það við viðgerðir á útvarps- og sjónvarpstækjum ásamt uppsetningu loftneta í nokkur ár. Árið 1970 var hann ráðinn til Orkustofnunar við jarðhitarannsóknir um allt land, mælingar í heitavatnsholum, smíði og viðhald mælitækja.

Upp úr 1980 stofnaði Sigurður eigið þjónustuverkstæði, Radióþjónustu Sigga Harðar. „Ég sérhæfði mig aðallega við þjónustu á fjarskiptabúnaði. Vann mikið á hálendinu fyrir ferðafélög, opinber fyrirtæki svo sem lögreglu, símafyrirtækin, Neyðarlínuna, björgunarsveitir og Landhelgisgæsluna. Ég smíðaði og setti upp mikið af neyðarsendum í skála og neyðarskýli. Hannaði og smíðaði tugi fjarskiptaendurvarpa sem eru á hæstu tindum landsins. Einnig á Grænlandi og í Noregi. Allir þessir endurvarpar eru drifnir áfram af sólarorkunni.

Stór hluti af rekstri radióþjónustunnar var innflutningur fjarskiptatækja, ísetning talstöðva, farsíma og hliðstæðs búnaðar. Við vorum næstum eina fyrirtækið sem þjónustaði svokallaðar Gufunestalstöðvar eftir 1983. Einnig framleiddum við loftnetin fyrir þær. Þegar mest var unnu hjá mér 10 manns í verslun og á verkstæðinu við þessa þjónustu.

Ég fór frá rekstri fyrirtækisins 2005 og aðrir tóku við. Eftir það tók ég að mér sérhæfð verkefni, bæði innanlands og erlendis. Var mikið á Grænlandi, bæði á jöklinum og víða í byggð, við uppsetningu fjarskiptakerfa. Í Færeyjum setti ég upp fjarskiptakerfi inni í fernum göngum, útvarpssenda og fjarskipti fyrir lögreglu og slökkvilið. Ég fór nokkrar ferðir til Noregs og vann þar við uppsetningu og viðhald fjarskiptatækja.

Hér innanlands seinni árin hef ég unnið mikið fyrir Reykjavíkurborg. Meðal annars að setja upp og þjónusta loftnets-, myndavéla- og öryggiskerfi fyrir Félagsbústaði í rúmlega 15 ár.

Nú hef ég minnkað mikið þessa daglegu vinnu. Hef þó tekið að mér verkefni eins og fyrri hluta þessa árs að samræma í eitt sameiginlegt fjarskiptakerfi fyrir alla þá verktaka sem vinna við varnargarðana við Grindavík, sem fólst í að endurstilla og setja sameiginlegar rásir í allar talstöðvar í nokkrum tugum vinnuvéla og ökutækja. Þetta þurfti að gerast í tækjunum á meðan þau voru í vinnu, því unnið er í kapphlaupi við tímann.

Á meðan ég rak verkstæðið safnaðist upp mikið magn af aflögðum talstöðvum sem ég að lokum gaf Samgöngusafninu í Skógum, árið 2009. Gjöfinni fylgdi uppsetning tækjanna í sýningarsal og enn er ég að bæta við tækjum eins og öllum gerðum símtækja sem notuð voru í NMT-farsímakerfinu hér á landi.“

Upp á síðkastið hefur Sigurður ásamt nokkrum eldri útvarpsvirkjum staðið að söfnun útvarpstækja. „Við stofnuðum félagið „Hollvinafélag um þróun útvarpstækni á Íslandi“ með það markmið að varðveita sögu útvarps. Samhliða þessari söfnun rannsakaði ég framleiðslu íslenskra útvarpstækja sem stóð yfir frá árinu 1933 til 1949. Okkur tókst að ná í eintak af hverri gerð sem framleidd var. Tækin hétu ýmsum nöfnum, Suðri, Vestri, Austri, Sumri og Sindri. Hönnun þeirra miðaðist við í hvaða landshluta þau hentuðu best. Allar gerðirnar eru til sýnis í Skógasafni ásamt því að nýlega bættust við 30 útvarpstæki og radíófónar. Einnig hef ég útvegað nokkrum öðrum söfnum á landinu gömul fjarskiptatæki.

Ég hef líka útbúið og gefið ýmsum söfnum hljóðkerfi með fjarskiptaupptökum sem varðveist höfðu frá þeim árum þegar tækin voru í notkun sem gerir þau að lifandi safngripum. Þau eru að sjálfsögðu í mörgum tækjum Skógasafns, Flugsafni Íslands á Akureyri, Byggðasafninu í Garði, Norðurslóðasafni Arngríms og fleiri söfnum.

Árið 2008 smíðaði ég vefmyndavélabúnað sem er í Eldey. Hægt er að fylgjast með fuglalífinu á slóðinni www.eldey.is.“

Áhugamál og félagsstörf Sigurðar hafa verið mörg. „Sautján ára gekk ég í Flugbjörgunarsveitina þar sem ég sá um fjarskiptatæki sveitarinnar og kom að uppbyggingu VHF-fjarskiptakerfis Landsbjargar. Ég var í Félagi áhugaljósmyndara í mörg ár, Ferðafélagi Íslands og Félagi harmonikuunnenda. Ég var um tíma í stjórn Meistarafélags rafeindavirkja og prófnefnd um tíma. Ég gekk í Oddfellowregluna árið 1996.“

Margar viðurkenningar hefur Sigurður fengið fyrir félagsstörf og sjálfboðavinnu. Hann hefur hlotið silfur- og gullmedalíu Flugbjörgunarsveitarinnar, heiðursmerki Slysavarnafélagsins Landsbjargar sem er æðsta viðurkenning félagsins, gullmerki Ferðafélags Íslands, þakkarskjöld frá Sambandi Íslenskra harmonikuunnenda á Íslandi, silfurmerki frá Félagi harmonikuunnenda í Reykjavík, þakkarskjöld Hollvinafélags varðskipsins Óðins, á annan tug þakkarbréfa frá opinberum stofnunum og nú um síðustu áramót fálkaorðuna fyrir störf í þágu almannavarna og fleiri aðila.

„Í einkalífinu tel ég hafa verið mitt gæfuspor þegar ég fór á dansnámskeið hjá félaginu Komið og dansið árið 1996. Þar kynntist ég konunni minni. Við dönsuðum okkur saman og giftum okkur 1999. Síðastliðin sumur höfum við hjónin ferðast mikið með hjólhýsið, verið á harmonikuhátíðum og dansleikjum víða á landinu þar sem mikið er spilað og dansað við ljúfa tóna harmonikkunnar.

Á afmælisdaginn verð ég að heiman á slíku ferðalagi með góðum vinum.“

Fjölskylda

Eiginkona Sigurðar er Harpa Ágústsdóttir, f. 28.6. 1948, geislafræðingur og starfaði á Landspítalanum. Þau eru búsett í Kópavogi.

Foreldrar Hörpu voru Ágúst Pétursson, f. 29.6. 1921, d. 31.7. 1986, húsgagnasmiður, lagahöfundur og harmonikkuleikari, og Guðrún Dagný Kristjánsdóttir, f. 28.9. 1925, d. 12.11. 2015, húsmóðir.

Börn Hörpu: Hrönn, f. 1967, hjúkrunarfræðingur, Marinó, f. 1969, prentari og kennari, Ágúst, f. 1981, d. 2018, viðskiptafræðingur. Barnabörnin eru fimm og langömmubörnin fimm.

Börn Sigurðar eru fjögur, þrjú frá fyrra hjónabandi: Hörður Markús, f. 1965, framkvæmdastjóri; Gunnar Ingi, f. 1967, tæknifræðingur, og Margrét Jóna, f. 7.1. 1972, d. 10.8. 2006. Samfeðra systir þeirra er Kristín Sunna, f. 1983, kennari, gift Bjarna Þorgilssyni, f. 1972, véltækni. Barnabörnin eru átta og langafabörnin fjögur.

Systir Sigurðar, sammæðra, var Gunnhildur Friðþjófsdóttir, f. 30.10. 1961, d. 14.2. 2021.

Foreldrar Sigurðar voru Hörður Sigurðsson, f. 12.3. 2012, d. 29.6. 1998, bílstjóri, og Soffía Jónsdóttir, f. 16.4. 1916, d. 22.11. 1991, kaupsýslukona.