Grímseyingar Svafar Gylfason og Brá dóttir hans hér við vegginn í búðinni.
Grímseyingar Svafar Gylfason og Brá dóttir hans hér við vegginn í búðinni. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
„Nöfnin eru orðin nálægt 1.000,“ segir Svafar Gylfason kaupmaður í Grímsey. Þau Unnur Ingólfsdóttir kona hans starfrækja þar veitingastofu og verslun sem einu nafni heita Krían. Þau tóku húsnæðið í gegn fyrir fjórum árum, máluðu veggi verslunarinnar …

„Nöfnin eru orðin nálægt 1.000,“ segir Svafar Gylfason kaupmaður í Grímsey. Þau Unnur Ingólfsdóttir kona hans starfrækja þar veitingastofu og verslun sem einu nafni heita Krían. Þau tóku húsnæðið í gegn fyrir fjórum árum, máluðu veggi verslunarinnar og þegar þau litu á appelsínugulan suðurvegg kom upp sú hugmynd að bjóða viðskiptavinum að skrifa þar nafn sitt og skilja þar með eftir örlítinn vitnisburð um komu sína í eyjuna. Þetta hefur mælst vel fyrir, fólk sem í búðina kemur grípur þá gjarnan í tússpennann og kvittar fyrir sig í gestabók þessa.

Grímsey hefur á sér ævintýrablæ. Þangað siglir ferjan Sæfari frá Dalvík fimm daga í viku yfir sumarið og Norlandair flýgur frá Akureyri á þriðjudögum og fimmtudögum. Þá er talsvert um að skemmtiferðaskip í ferðum um norðurhöf stoppi við eyna og fólk sé ferjað í land.

„Núna á þriðjudag voru 190 manns í norsku skipi sem hér var fyrir utan og ég held að allir hafi stigið hér á land. Margir af þeim merktu sig einmitt á vegginn. Það gera Íslendingar líka, en núna um helgina má búast við fjölda fólks á árlega sólstöðuhátíð,“ segir Svafar. Í veitingastofunni fæst hressing í búðinni sem er opin klukkutíma á dag og seldar helstu nauðsynjar. „Þetta er þjónusta sem þarf að vera í hverju samfélagi,“ segir Svafar. Jafnhliða kaupmennsku stundar hann sjó og segir aflabrögð nú vera með ágætum enda stutt á fengsæla slóð. sbs@mbl.is