Töfrar tónlistarinnar „Það er eitthvað göldrótt við það þegar maður skilur aðra manneskju án þess að nota nokkur orð,“ segir tónlistarmaðurinn Birnir.
Töfrar tónlistarinnar „Það er eitthvað göldrótt við það þegar maður skilur aðra manneskju án þess að nota nokkur orð,“ segir tónlistarmaðurinn Birnir. — Ljósmynd/Erlendur Sveinsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þetta er í raun saga tveggja einstaklinga sem eru að gera upp við fortíð sína og sömuleiðis að reyna að sjá fegurðina í ástinni þrátt fyrir að hún geti verið myrk,“ segir tónlistarkonan Bríet í samtali við Morgunblaðið um plötuna 1000…

Viðtal

Snædís Björnsdóttir

snaedis@mbl.is

„Þetta er í raun saga tveggja einstaklinga sem eru að gera upp við fortíð sína og sömuleiðis að reyna að sjá fegurðina í ástinni þrátt fyrir að hún geti verið myrk,“ segir tónlistarkonan Bríet í samtali við Morgunblaðið um plötuna 1000 orð sem hún gaf nýverið út ásamt tónlistarmanninum Birni. Á plötunni flétta Bríet og Birnir eigin reynslu saman við skáldskapinn og hún dansar því á mörkum ímyndunar og veruleika. Blaðamaður hitti Bríeti og Birni og ræddi við þau um tilurð plötunnar, sköpunarferlið, tungumálið og vináttuna.

Platan varð til út frá samræðum sem Bríet og Birnir áttu kvöld eitt fyrir tveimur árum og eru þau sammála um að hún hafi sprottið út frá vináttunni. „Hugmyndin kom eiginlega til okkar í samtali yfir kaffi og vindlum. Við vorum að spjalla eins og við gerum oft og fórum að velta fyrir okkur hvað tungumálið getur verið tæmandi,“ segir Birnir og útskýrir að það sem hann eigi við sé að stundum skorti einfaldlega orð til að tjá tilteknar tilfinningar. Á hinn bóginn séu orð stundum óþörf. „Eins og þegar maður á samtöl við fólkið sem maður elskar án þess að nota nokkur orð.“

Frá a til ö

Með þessar vangaveltur fóru Bríet og Birnir saman í stúdíóið að skrifa. Tæpum tveimur árum síðar tóku þau hugmyndina upp aftur og það var þá sem hjólin fóru almennilega að snúast. „Þetta átti bara að vera eitt lag, sem síðan breyttist í tvö, sem varð svo að þremur og síðan að smáskífu þangað til við vorum allt í einu komin með plötu,“ segir Birnir. Bríet tekur undir þetta og bætir við. „Þetta gerðist allt mjög hratt. Við unnum sjálfa plötuna á svona þremur-fjórum mánuðum en í raun og veru byrjaði samtalið miklu fyrr, bara í gegnum vináttuna.“

Að sögn Bríetar og Birnis hefur sköpunarferlið og samvinnan gengið vel. „Þetta er bara búið að vera ótrúlega gaman. Við eigum það sameiginlegt að vilja aldrei lúffa fyrir neinum, en þó að við höfum stundum verið ósammála þá höfum við alltaf fundið einhverja lausn eða leið til að láta hlutina ganga upp. Já, mér finnst bara hafa verið ótrúlega gaman að búa til list saman og það skapar alveg ný tengsl og mun nánari vináttu,“ segir Bríet. Hún bætir við: „Við Birnir erum líka bæði þannig að við nálgumst öll verkefni mjög heildrænt. Við hugsum allt sem við gerum frá a til ö og þá meina ég ekki bara tónlistina eða hvert og eitt lag heldur líka plötuna í heild, hvernig hún byrjar og endar og hvaða sögu hún segir. Það nær líka til vinnuferlisins sjálfs því að við viljum að upplifunin í stúdíóinu sé góð og það skiptir okkur máli að öllum líði vel. Það má kannski segja að við gerum aldrei neitt „bara af því bara“, heldur viljum við að allt hafi sinn tilgang og þjóni tónlistinni og verkinu í heild. Samt var ferlið allan tímann svo skemmtilegt, mér leið ekki á neinum tímapunkti eins og ég væri í vinnunni.“

Birnir er sammála þessu og bendir á að þau séu sérstaklega góð í því að hvetja hvort annað áfram. „Mér finnst mjög gaman að mæta í stúdíóið og vil helst alltaf vera að vinna að einhverju. Ef pælingarnar eru á miklu grunnstigi á ég það þess vegna til að hætta og fara að vinna í einhverju öðru því ég er alltaf að elta það sem þarf að gera næst. Bríet er hins vegar virkilega góð í því að passa að við klárum öll lögin.“ Bríet hlær að þessu og skýtur inn í: „En það var líka gott, vegna þess að út af því að þú varst oft byrjaður á einhverju nýju þá höfðum við alltaf eitthvað meira til að vinna áfram að.“ Birnir svarar: „Já, við náðum að finna mjög gott jafnvægi í vinnuferlinu. Vanalega er maður algjörlega í aðalhlutverki sjálfur en í þessu ferli einblíndum við bæði á að finna bestu útkomuna fyrir okkur sem teymi. Og þá varð allt einhvern veginn svo skemmtilegt.“ Aftur tekur Bríet undir. „Algjörlega. Ég held að það hafi hjálpað mikið hvað við þekktumst vel fyrir. Við erum næm á líðan hvort annars og treystum hvort öðru svo að ef það myndast einhver skrýtin orka þá finnum við það strax og leysum úr því. Ef ég gæti þá myndi ég gera þetta allt aftur,“ segir hún.

Þegar orð eru óþörf

Eins og áður hefur komið fram varð hugmyndin að plötunni til út frá vangaveltum um tungumálið og ástina. – Og það er væntanlega þaðan sem titillinn kemur, 1000 orð?

„Já, akkúrat. Fyrir mér snýst titillinn í rauninni um þetta merkilega augnablik þegar maður getur skilið aðra manneskju án þess að tala. Sem textahöfundur og lagasmiður eru orð oft það sem ég þarf mest á að halda,“ segir Birnir. „En þau geta flækst fyrir,“ botnar Bríet. „Já, stundum eru orð óþörf. Og í þeim augnablikum eru einhverjir galdrar,“ segir Birnir.

Í 1000 orðum segja Bríet og Birnir sögu af ást, togstreitu og vonbrigðum. Sumt er byggt á þeirra eigin reynslu en annað er tilbúningur. „Fyrir mína parta er þetta að miklu leyti uppgjör á sambandsslitum,“ segir Bríet. „En það er líka margt þarna sem er skáldskapur og byrjaði jafnvel bara sem eitthvert grín. Svo er sumt mjög persónulegt. En í heildina má segja að þetta sé uppgjör tveggja einstaklinga á ástinni.“ Birnir samsinnir þessu. „Já, ég er sammála. Við erum að segja ákveðna sögu með plötunni og markmiðið var að skapa í kringum hana eins konar heim, hljóðheim. Þess vegna er sumt alveg dagsatt á meðan annað er dramatíserað eða hreinlega skáldskapur. Það var einmitt eitthvað sem okkur fannst svo heillandi, að prófa að setja okkur í spor skáldaðrar sögupersónu og velta fyrir okkur hvert næsta púsluspil gæti verið í sögunni. Það mætti kannski orða þetta þannig að við höfum búið til dramatíseraða útgáfu af okkur sjálfum og nýtt eigin reynslu til að styðja við söguna. Við Bríet höfum talað um að þetta sé að einhverju leyti smá eins og leikrit,“ segir hann og bætir við brosandi: „Þannig að það mætti kannski líkja plötunni við elektróníska teknódrifna leiksýningu.“

Tónlistin á plötunni er danstónlist og að sumu leyti ólík þeim hljóðheimi sem Bríet og Birnir hafa fengist við hingað til. Á plötunni kveður því við aðeins nýjan tón hjá þessu unga tónlistarteymi.

Upplifið þið sjálf að þið séuð að stíga út fyrir þægindarammann með þessari plötu?

„Í rauninni ekki,“ svarar Birnir. „Við erum held ég bæði mjög vön því að vera alltaf að fást við eitthvað nýtt. Það væri kannski frekar út fyrir þægindarammann að breyta ekkert til og vera alltaf að senda frá okkur sama lagið.“ Bríet er sammála þessu. „Það er algjörlega eitthvað sem heldur okkur gangandi, að vera stöðugt að prófa eitthvað nýtt.“

Fram undan hjá vinunum Bríeti og Birni er margt spennandi og hafa þau bæði verið að vinna að eigin efni samhliða gerð plötunnar. Það er því von á meiri tónlist frá þeim á næstunni og útiloka þau ekki neitt varðandi áframhaldandi samstarf í framtíðinni. Fyrst á dagskrá eru þó útgáfutónleikar sem haldnir verða í Hörpu annað kvöld klukkan 21. „Ég held að þau sem þekkja okkur Birni viti að þetta verða ekki bara venjulegir tónleikar. Við gerðum til dæmis óvart stuttmynd byggða á plötunni sem við ætlum mögulega að frumsýna á tónleikunum. En fyrst og fremst erum við að fagna útgáfu plötunnar og þetta verður algjört partí og sýning með epískri sviðsmynd og ljósasjói. Og kannski verða einhverjir gestir, það er aldrei að vita,“ segir Bríet.

Höf.: Snædís Björnsdóttir