Uppbygging í borginni Verið er að leggja lokahönd á íbúðir á Grensásvegi.
Uppbygging í borginni Verið er að leggja lokahönd á íbúðir á Grensásvegi. — Morgunblaðið/Baldur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kári S. Friðriksson, hagfræðingur hjá Arion banka, segir þrjá þætti vega þyngst á fasteignamarkaði. Í fyrsta lagi áhrifin af eftirspurn Grindvíkinga í kjölfar náttúruhamfaranna. Þau áhrif birtist fyrst og fremst á Reykjanesinu en þar hafi meðalverð íbúðarhúsnæðis hækkað um 7,4% síðustu þrjá mánuði

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Kári S. Friðriksson, hagfræðingur hjá Arion banka, segir þrjá þætti vega þyngst á fasteignamarkaði.

Í fyrsta lagi áhrifin af eftirspurn Grindvíkinga í kjölfar náttúruhamfaranna. Þau áhrif birtist fyrst og fremst á Reykjanesinu en þar hafi meðalverð íbúðarhúsnæðis hækkað um 7,4% síðustu þrjá mánuði. Þótt nákvæm tölfræði liggi ekki fyrir séu vísbendingar um að sú hækkun skýrist m.a. af eftirspurn Grindvíkinga. Til samanburðar sé meðalhækkunin á landinu öllu um 3,1%.

„Það er meira líf á fasteignamarkaði en útlit var fyrir en þó hefur ekki orðið nein sprenging. Miðað við hvað Seðlabankinn hækkaði vexti mikið í fyrra hefur markaðurinn kólnað minna en við áttum von á.“

20-30 milljarðar á mánuði

Í öðru lagi hafi það áhrif á markaðinn að nú séu fastir vextir að renna sitt skeið hjá mörgum lántökum. Við það fari margir meðal annars úr lágum óverðtryggðum vöxtum í háa óverðtryggða vexti og með því aukist vaxtabyrðin. Ætla megi að næstu 12 mánuði muni að jafnaði losna um 20-30 milljarðar af lánum með föstum vöxtum á mánuði.

Í þriðja lagi séu hrein ný útlán að aukast. „Það er yfirleitt ágætis hitamælir á fasteignamarkaðinn þegar fólk er að endurfjármagna lánin og taka hærri lán og greiða niður skammtímaskuldir,“ segir Kári sem telur að umsvifin væru enn meiri ef Seðlabankinn myndi slaka á útlánareglum. Þar með talið varðandi hámarksveðsetningu.

Kristján Baldursson, löggiltur fasteignasali hjá Trausta fasteignasölu, segir ágætt líf á fasteignamarkaði eftir rólegt ár í fyrra.

Ekki góður mælikvarði

Spurður um hlutfall íbúða sem seljast yfir ásettu verði segir Kristján hér gæta misskilnings.

„Fasteignasalar verðleggja eignir í samráði við eigendur. Stundum er ásett verð við hærri mörk, stundum við lægri mörk. Að mínu mati er tölfræði um hversu margar eignir seljast yfir ásettu verði ekki góð leið til að lesa markaðinn. Þetta er enda svo matskennt.

Ég rek fasteignasölu og mín viðmið eru símtölin sem við fáum, hversu margar eignir eru að seljast og hversu margar eignir eru að koma í sölu. Þegar vextir voru í lágmarki í farsóttinni var slegist um eignir. Nú vanda kaupendur sig meira og skoða betur eignir, sem er jákvætt. Fasteignaverð hækkaði í kjölfar vaxtalækkana og það kann að eiga sinn þátt í að fólk skoðar eignir betur. Mín tilfinning er sú að þetta ár verði yfir meðallagi í fasteignaviðskiptum. Greinilegt er að margir bíða eftir vaxtalækkunum á síðari hluta ársins,“ segir Kristján.

Þá hafi eftirspurn Grindvíkinga áhrif sem og almennur skortur á eignum á höfuðborgarsvæðinu.

Höf.: Baldur Arnarson