Kvaddi Björgvin EA lagði frá bryggju á Dalvík á mánudag og er nú kominn til Vigo á Spáni. Togarinn hefur verið seldur til erlendrar útgerðar.
Kvaddi Björgvin EA lagði frá bryggju á Dalvík á mánudag og er nú kominn til Vigo á Spáni. Togarinn hefur verið seldur til erlendrar útgerðar. — Morgunblaðið/Þorgeir
Björgvin EA-311, ísfisktogari Samherja, kom til hafnar í Vigo á Spáni í gærkvöldi eftir að hafa siglt þangað frá Dalvík. Björgvin lagði frá bryggju á Dalvík í síðasta sinn á mánudag og var töluverður fjöldi íbúa mættur til að kveðja skipið í síðasta sinn

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Björgvin EA-311, ísfisktogari Samherja, kom til hafnar í Vigo á Spáni í gærkvöldi eftir að hafa siglt þangað frá Dalvík. Björgvin lagði frá bryggju á Dalvík í síðasta sinn á mánudag og var töluverður fjöldi íbúa mættur til að kveðja skipið í síðasta sinn.

Fram kemur í færslu á vef Samherja að við síðustu brottför Björgvins EA slepptu þeir Leifur Björnsson og Hartmann Kristjánsson landfestum en þeir voru báðir í áhöfn skipsins í liðlega tuttugu ár. Þá sigldu nokkrir í áhöfn Björgvins EA með skipinu til Spánar ásamt tveimur Spánverjum. Skipstjóri á siglingunni var Björn Már Björnsson og fyrsti stýrimaður er Brynjólfur Oddsson.

Björgvin EA var elsta skip í flota Samherja og var smíðað af Flekkefjord slipp og maskinfabrikk AS í Noregi 1988. Um er að ræða 50,53 metra langan frysti- og ístogara sem er 12 metra breiður og mælist 1.142,22 brúttótonn.

Láta smíða nýtt skip

Tilkynnt var í lok maí að Samherji hefði selt erlendri útgerð skipið og var haft eftir Kristjáni Vilhelmssyni, framkvæmdastjóra útgerðarsviðs Samherja, að nú væri talið skynsamlegt að yngja upp flota félagsins og stefnt væri að því að láta smíða nýtt skip í stað Björgvins.

„Viðhaldskostnaður gamalla skipa eykst verulega eftir því sem árunum fjölgar en Björgvin EA er að nálgast 40 árin. […] Við leggjum áherslu á nýjustu tækni og hagkvæmi á öllum stigum starfseminnar, liður í þeim efnum er að skipaflotinn sé ávallt sem best búinn. Björgvin EA þótti mjög svo athyglisvert skip á sínum tíma, svo sem skrokklagið. Við smíði nýs skips verður sem fyrr vandað til verka,“ sagði Kristján.

Höf.: Gunnlaugur Snær Ólafsson