Flytjendurnir Cauda Collective flutti ný og nýleg verk fyrir strengi.
Flytjendurnir Cauda Collective flutti ný og nýleg verk fyrir strengi.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Háteigskirkja – Listahátíð í Reykjavík Endurfundir ★★★★· Tónlist: Bára Grímsdóttir, Halldór Smárason, Petter Ekman, Haukur Þór Harðarson og Finnur Karlsson. Cauda Collective: Sigrún Harðardóttir og Gunnhildur Daðadóttir fiðluleikarar, Þóra Margrét Sveinsdóttir víóluleikari og Þórdís Gerður Jónsdóttir sellóleikari. Tónleikar í Háteigskirkju á Listahátíð í Reykjavík sunnudaginn 16. júní 2024.

Tónlist

Magnús Lyngdal

Magnússon

Tónleikar undir yfirskriftinni „Endurfundir“ fóru fram í Háteigskirkju hinn 16. júní en um var að ræða samstarfsverkefni tónlistarhátíðarinnar Við Djúpið á Ísafirði og Listahátíðar í Reykjavík en þeir verða einmitt endurfluttir á Ísafirði á morgun, föstudaginn 21. júní, á hátíðinni Við Djúpið. Að tónleikunum stóð (og standa) listhópurinn Errata en hann „skipa tónskáld sem hafa átt í frjóu, listrænu samtali í rúman áratug“. Hópurinn, sem stofnaður var árið 2014, hefur „starfað með tónlistarfólki víða um heim og staðið fyrir metnaðarfullum listviðburðum“. Errata-hópurinn var virkur fyrstu fjögur árin og skipulagði hann á þeim tíma „fjölda verkefna á Norðurlöndum og í Bandaríkjunum“. Verkefnið „Endurfundir“ er hið fyrsta sem hópurinn hefur skipulagt síðan 2018 en efnisskráin samanstóð af verkum, nýjum og eldri, sem félagar í Errata-hópnum hafa samið.

Flytjendur á tónleikunum í Háteigskirkju voru þær Sigrún Harðardóttir og Gunnhildur Daðadóttir fiðluleikarar, Þóra Margrét Sveinsdóttir víóluleikari og Þórdís Gerður Jónsdóttir sellóleikari, það er að segja félagar í Cauda Collective,
hópi „skapandi tónlistarflytjenda sem horfa út fyrir rammann í flutningi sínum“. Þannig leggur Cauda Collective áherslu á að „vinna náið með tónskáldum og hefur hópurinn frumflutt fjölda nýrra tónverka“. Fyrir störf sín hlaut Cauda Collective meðal annars tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2021, bæði í flokki sígildrar og samtímatónlistar sem og þjóðlagatónlistar.

Á efnisskránni í Háteigskirkju voru tveir nýlegir strengjakvartettar eftir þau Báru Grímsdóttur (2017) og Finn Karlsson (2021). Kvartettarnir römmuðu inn þrjú glæný strengjatríó eftir þá Halldór Smárason, Petter Ekman og Hauk Þór Harðarson (2024, frumflutningur). Verkin voru býsna ólík en samt sem áður fannst mér þau á margan hátt tengjast, til að mynda með sínum undirliggjandi einfaldleika og lágstemmdri ómstríðu.

Það var mikil ólga í verki Báru Grímsdóttur sem ber læknisfræðilega heitið Otoconia. Verkið var í öndverðu samið fyrir Strokkvartettinn Sigga og í efnisskrá er verkið útskýrt þannig að það vinni með bjögun á jafnvægi og vísar þar til lítilla kristala í innra eyra. Verkið hljómaði að mestu leyti á tiltölulega lágu raddsviði strengjanna (á því voru þó undantekningar) og í því var skýr hrynjandi. Það bar einnig með sér stígandi og var vel flutt.

Strengjatríó (fiðla/víóla/selló) Halldórs Smárasonar, memories from the sewing room, var frumflutt í Háteigskirkju. Víólan var í forgrunni í upphafi en framan af hvíldi lágstemmd ró yfir verkinu. Ýmiss konar tækni var beitt til þess að framkalla hljóð, þar með talið að renna boganum niður eftir strengjunum, auk þess sem ómstrítt portamento hljóðaði hér og þar. Seint í verkinu skaut fallegt stef upp kollinum, fyrst hjá sellóinu en svo tók víólan við því áður en það endaði hjá fiðlunni. Flutningur var mjög samhæfður.

Aftur var um frumflutning að ræða á strengjatríói (fiðla/víóla/selló) Petters Ekmans, Palindromes & Ambigrams. Verkið er í fimm aðskildum, stuttum þáttum sem einnig eru býsna lágstemmdir. Fyrsti þátturinn einkenndist þannig af löngum, breiðum en ómstríðum hljómum og sá annar var nokkurs konar samtal milli víólunnar og sellósins (fiðlan þagði). Aftur einkenndist þriðji þátturinn af löngum, breiðum hljómum/tónum á býsna lágu raddsviði strengjanna en ofan á hvíldi bylgjukennd hreyfing. Breitt stef víólunnar (sem fiðlan skreytti með pizzicato) hljómaði svo í fjórða þætti. Lokakaflinn einkenndist af ómstríðum tvíundum. Flutningur var mjög sannfærandi.

Síðasta strengjatríóið (fiðla/víóla/selló) sem frumflutt var í Háteigskirkju á tónleikunum hinn 1. júní síðastliðinn var eftir Hauk Þór Harðarson og bar heitið Fade. Það var í sex aðskildum þáttum, býsna langt en leikið einstaklega veikt (að mestu pianississimo, ppp, og fór raunar aldrei upp fyrir pianissimo, p). Verkið var undurblítt en hendingar dóu smám saman út hver af annarri. Þriðji þátturinn var með nokkuð skýrri hrynjandi (minnti mig þannig á gárur á vatni) og flaututónar fiðlunnar í fjórða þætti komu vel út. Kannski voru áttundirnar í upphafi fjórða þáttar leiknar af mestum styrk ef litið er á flutning verksins í heild en styrkurinn þar var þó varla meiri en pianissimo (p). Verkið var allt viðkvæmt og þættir þess kölluðust á. Mér fannst það þó ívið of langt og jafnvel langdregið á köflum en það var aðdáunarvert hve veikt þær Sigrún Harðardóttir, Þóra Margrét Sveinsdóttir og Þórdís Gerður Jónsdóttir gátu á köflum leikið, ekki síst í ljósi þess hve viðkvæmt verk er um að ræða.

Síðasta verkið á efnisskrá tónleikanna var svo þriggja ára gamall strengjakvartett Finns Karlssonar, Ground, upphaflega saminn fyrir Strokkvartettinn Sigga. Ég heyrði einmitt þann kvartett leika verkið í nóvember á síðasta ári. Þá skrifaði ég eftirfarandi í Morgunblaðið og mér hefur ekki snúist hugur: „Mér fannst Finni takast vel upp. Þannig gekk býsna einfalt en grípandi stef 1. þáttar (Stack) hugvitsamlega í gegnum kvartettinn; hrynjandin í 2. þætti (208 slides) var skemmtileg og gullfallegur 3. þátturinn (#32, take two) byggist á kafla úr eldra einsöngsverki Finns, „Fjögur lög með millispilum“. Fjórði þátturinn (Different Day) bauð svo upp á nokkurs konar mínimalisma og var eiginlega Pärt-neskur í einfaldleika sínum.“ Flutningurinn í Háteigskirkju var fínn, ekki síst syngjandi (cantabile) tónn Sigrúnar Harðardóttur í þriðja þættinum, „#32, take two“.

Það er mikið þing að samtímatónskáld skuli nýta sér strengjakvartetts- og strengjatríóformið og tónleikarnir sem Errata-hópurinn skipulagði nú bera því vitni að þessi form eru enn við góða heilsu.

Listahátíð í Reykjavík lauk formlega 16. júní síðastliðinn og hafði þá staðið yfir frá fyrsta degi júnímánaðar. Ég sá ferna tónleika á hátíðinni og þannig hitti á að þeir fyrstu sem ég sá fóru einmitt fram á fyrsta degi hátíðarinnar og þeir síðustu á lokadegi hennar. Ég vil að lokum nota tækifærið og hrósa skipuleggjendum og listrænum stjórnanda Listahátíðar í Reykjavík fyrir vel heppnaða tónleikadagskrá, það er að segja þann hluta sem ég fylgdist best með. Þar mættust gamli tíminn og sá nýi og voru bæði leiknir og sungnir.