Útitónleikar Tónleikar á Sólheimum eru ýmist í kirkjunni eða úti á Péturstorgi. Aðgangur er alltaf ókeypis.
Útitónleikar Tónleikar á Sólheimum eru ýmist í kirkjunni eða úti á Péturstorgi. Aðgangur er alltaf ókeypis.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þetta er í nítjánda sinn sem við höldum menningarveislu en það hefur alltaf gefið okkur mikinn kraft inn í vetrarstarfið, því þá þurfum við að huga að því hvað við getum gert skemmtilegt fyrir næstu menningarveislu, hvaða sýningar við ætlum að hafa…

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Þetta er í nítjánda sinn sem við höldum menningarveislu en það hefur alltaf gefið okkur mikinn kraft inn í vetrarstarfið, því þá þurfum við að huga að því hvað við getum gert skemmtilegt fyrir næstu menningarveislu, hvaða sýningar við ætlum að hafa næsta sumar og hvaða tónlistarfólk við fáum til okkar í tónleikaveisluna,“ segir Valgeir Fridolf Backman, félagsmálafulltrúi á Sólheimum í Grímsnesi, en hin árlega menningarveisla þeirra fór af stað 1. júní og stendur fram til 18. ágúst. Eins og flestir landsmenn vita eru Sólheimar sjálfbært samfélag þar sem rúmlega 100 einstaklingar búa og starfa saman.

„Hér eru tónleikar hvern laugardag í Sólheimakirkju meðan á menningarveislu stendur og aðgangur ókeypis. Fjölbreytt tónlistarfólk kemur fram og sumt nafntogað, í júlí til verða til dæmis systkinin Páll Óskar og Diddú, Eyþór Ingi og Björn Thoroddsen. Í ágúst mæta meðal annars þrír tenórar saman í stuði, Kristján Jóhannsson, Gissur Páll og Jóhann Friðgeir, einnig Daníel Ágúst og Björn Jörundur. Við óskum eftir góðu veðri á tónleikadögum því oft fyllist kirkjan af tónleikagestum og sumir þurfa þá að standa fyrir utan og hlusta. Þegar viðrar vel þá færum við tónleikana út á Péturstorg, en þar eru borð og stólar og stórt tún þar sem gestir geta sest. Holan hér hjá okkur er svo sólrík og flott, það er mikil stemning að sitja úti á torginu og njóta,“ segir Valgeir og bætir við að annan hvern fimmtudag sé boðið upp á allskonar skemmtilega fræðslu.

„Næst verður það Sigríður Þorgeirsdóttir, prófessor í heimspeki, sem ætlar að fjalla um skynfinningu fyrir náttúrunni og Dóra Svavars matreiðslumeistari kemur í júlí og fjallar um baráttuna við matarsóun.“

Ruslaskrímsli og tröll

Valgeir segir að búið sé að setja upp sögusafn í Sólheimahúsinu sem Sesselja Hreindís Sigmundsdóttir byggði árið 1930.

„Þar kennir ýmissa grasa, til dæmis er hægt að lesa af spjöldum fróðleik þar sem farið er yfir það helsta, en einnig hefur hlutum frá hennar tíð verið komið haganlega fyrir, en hún var fædd árið 1902. Andrúmsloftið þarna inni er því eins og Sesselja hafi rétt brugðið sér frá, þetta er eins og að ganga inn í gamlan tíma. Við erum líka með umhverfissýningu í Sesseljuhúsi í samstarfi við Veraldarvini, þar sem við sýnum hvað berst á strendur okkar, netaflækjur og fleira. Í samstarfi við grunnskólann hér í sveitinni hafa nemendur búið til ruslaskrímsli og tröll úr þessum efniviði. Á miðvikudögum erum við með opið gróðurhús milli klukkan tíu og fjögur, þar sem við ræktum margar tegundir af tómötum og fólk getur komið og tínt sjálft beint af plötunum þá tómata sem það vill kaupa. Hér á Sólheimum er líka víðfrægt og vinsælt kaffihús, Græna kannan, og verslun þar sem hægt er að kaupa handverk eftir heimilisfólk, styttur, teppi, mottur og fleira. Einnig er hér kertagerð og þangað er öllum velkomið að koma með kertaafganga sem við bræðum upp á nýtt og búum til útikerti. Meðal annars búum við til útikerti í niðursuðudósum sem hafa vakið mikla lukku. Þetta eru dósir undan baunum, rauðkáli og öðru, alveg tilvalið fyrir veislur sumarsins og útilegur,“ segir Valgeir og bætir við að á Sólheimum sé í boði gistiaðstaða, hver sem er getur pantað gistingu í tveimur húsum sem þar eru ætluð fyrir næturgesti, ýmist fyrir einstaklinga eða hópa.

Reynir Pétur er spjallglaður

Valgeir tekur skýrt fram að allt sem um sé að vera í sumar snúist fyrst og fremst um hið mannlega sem Sólheimar hafi upp á að bjóða.

„Aðalatriðið er hin sterka tilfinning sem fólk fær þegar það kemur hingað, og þá er ég ekki aðeins að vísa til fallegu náttúrunnar, húsanna og sögunnar, heldur líka þess að hitta fólkið sem býr hér og starfar og gefa sig á tal við það. Það er mest gefandi. Okkar landskunni Reynir Pétur er til dæmis alltaf til í að spjalla ef einhver hittir á hann, enda hefur hann frá mörgu að segja. Samfélagið hér á Sólheimum er einstakur heillandi heimur og ég mæli með að allir Íslendingar gefi sér eina viku á Sólheimum, ég held að heimurinn yrði þá miklu betri,“ segir Valgeir sem er ánægður með hversu svæðið er vel sótt, bæði af gestum sem koma til að njóta viðburða, fá sér kaffi eða versla, en einnig af fólki sem vill leggja þeim lið.

„Hingað koma margir sjálfboðaliðar og það eru biðlistar. Við erum fyrsta sjálfbæra þorpið á Norðurlöndunum, og alltaf þegar fólk kemur saman í tengslum við umhverfis- og sjálfbærnissamfélög, þá eru Sólheimar þar efst á lista, allt frá 1930. Við erum stolt af því.“

Nánar um dagskrá Menningarveislunnar í sumar á Sólheimum á Facebook: Sólheimar og heimasíðunni: solheimar.is.

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir