[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ísland fellur um eitt sæti milli ára í samkeppnishæfniúttekt IMD-viðskiptaháskólans í Sviss og situr nú í 17. sæti af 67 árið 2024. Í fyrra sat Ísland í 16. sæti. Þetta kemur fram í samantekt frá Viðskiptaráði

Magdalena Anna Torfadóttir

magdalena@mbl.is

Ísland fellur um eitt sæti milli ára í samkeppnishæfniúttekt IMD-viðskiptaháskólans í Sviss og situr nú í 17. sæti af 67 árið 2024. Í fyrra sat Ísland í 16. sæti. Þetta kemur fram í samantekt frá Viðskiptaráði.

Undanfarinn áratug hefur samkeppnishæfni Íslands batnað hægt og bítandi, en fyrir tíu árum sat Ísland í 25. sæti. Litlar framfarir hafa þó orðið síðustu 2-3 ár og Ísland er ennþá eftirbátur annarra norrænna landa í samkeppnishæfni.

„Það er engin fátæk þjóð með mikla samkeppnishæfni. Að sama skapi mælist engin velmegunarþjóð með lága samkeppnishæfni. Hún er því undirstaða góðra lífskjara og þess vegna er mikilvægt að hafa hana ávallt í forgrunni,“ segir Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, í samtali við Morgunblaðið. Gunnar var einnig gestur í þætti Dagmála sem aðgengilegur er á mbl.is.

Samkeppnishæfniúttektin er framkvæmd af IMD-háskólanum í Sviss og er ein sú umfangsmesta sinnar tegundar. Viðskiptaráð hefur verið samstarfsaðili IMD og aðstoðað við gagnaöflun fyrir Ísland frá árinu 2004. Úttektin metur frammistöðu þjóða við að tryggja hagfellt umhverfi aukinnar verðmætasköpunar og velmegunar.

Gunnar segir þjóðir vera í linnulausu kapphlaupi um að tryggja góð lífskjör. Samkeppnishæfnin undirbyggir verðmætasköpun í þjóðfélaginu og þar skipta alþjóðaviðskipti, erlend fjárfesting og öflugar útflutningsgreinar ekki síður máli. Þau verðmæti sem við sköpum notum við svo til að byggja upp gott samfélag, öflugt heilbrigðis- og menntakerfi. Síðan notum gjaldeyrinn sem við öflum til þess að kaupa vörur að utan, fara til útlanda og njóta innlendrar þjónustu. Í því er samkeppnishæfni og verðmætasköpunin fólgin, segir hann.

Hann bætir við að stjórnvöld geti til dæmis náð ágætis árangri á sviði aukinnar samkeppni með því einu að ná tökum á ríkisfjármálum.

„Það myndi draga úr verðbólgu, hallarekstri og spennu í hagkerfinu sem myndi lækka vexti. Það myndi síðan stuðla að aukinni verðmætasköpun með bættu aðgengi að fjármagni. Menntakerfið er einnig grunnstoð samkeppnishæfni sem ekki má undanskilja. Stjórnvöld ættu að leggja ríka áherslu á menntakerfið en niðurstöður PISA-kannananna eru verulegt áhyggjuefni,“ segir Gunnar.

Efnahagsleg frammistaða dragbítur

Í samantektinni segir einnig að lengi vel hafi samfélagslegir innviðir verið einn helsti styrkleiki Íslands í úttektinni en Ísland hefur verið á meðal tíu samkeppnihæfustu ríkja í þessum meginþætti. Íslandi fer aftur í öllum undirþáttum samfélagslegra innviða á milli ára og fer úr 7. sæti í 12. sæti. Efnahagsleg frammistaða Íslands fellur um átta sæti á milli ára, úr 45. í 53. sæti.

Ísland situr í 13. sæti þegar kemur að skilvirkni atvinnulífsins og fellur um þrjú sæti á milli ára en árin 2022-2023 sat Ísland í topp tíu sætunum í þeim meginflokki. Íslandi fer fram í skilvirkni og framleiðni og færist upp um þrjú sæti í undirflokknum, úr 17. sæti í 14. sæti. Samkeppnishæfni vinnumarkaðar batnar einnig verulega og fer úr 27. sæti í 18. sæti.

Skilvirkni hins opinbera er eini meginþátturinn sem batnar á milli ára og færist úr 19. sæti í 17. sæti. Framfarirnar má rekja til góðrar stöðu í samfélagslegri umgjörð, en Ísland situr í 2. sæti allra ríkja og heldur sætinu á milli ára. Staða opinberra fjármála er einnig óbreytt á milli ára. Staða regluverks atvinnulífs breytist lítillega og fellur um eitt sæti. Mest afturför er þó í skattastefnu og fellur Ísland um átta sæti á milli ára.

Samkeppnishæfniúttekt IMD-háskólans er ein sú umfangsmesta í heimi og hefur verið framkvæmd í 36 ár. IMD vinnur úttektina í samstarfi við stjórnvöld og félagasamtök þátttökuríkja. Hún samanstendur af yfir 300 undirþáttum en tveir þriðju þeirra eru í formi haggagna sem safnað er af IMD og samstarfsaðilum í hverju ríki fyrir sig. Þriðjungur byggist á alþjóðlegri stjórnendakönnun sem um 6.200 stjórnendur fyrirtækja og annarra samtaka taka þátt í. Viðskiptaráð hefur annast úttektina fyrir hönd Íslands frá því að landið tók fyrst þátt árið 2004.

Í ár endurheimti Singapúr 1. sætið vegna góðrar frammistöðu í samkeppnishæfni allra fjögurra meginþátta, þá sérstaklega í skilvirkni hins opinbera og skilvirkni atvinnulífsins. Sviss vermir annað sætið og Danmörk það þriðja.

Höf.: Magdalena Anna Torfadóttir