Draumaparið? Úr þriðju seríu Bridgerton.
Draumaparið? Úr þriðju seríu Bridgerton.
Þriðja serían af Netflix-þáttaröðinni Bridgerton fór í loftið í maí. Í ár var fyrirkomulagið þó með þeim hætti að seinni partur seríunnar kom ekki fyrr en í síðustu viku, sem angraði marga vana hámhorfi, einnig Ljósvaka

Guðrún Sigríður Arnalds

Þriðja serían af Netflix-þáttaröðinni Bridgerton fór í loftið í maí. Í ár var fyrirkomulagið þó með þeim hætti að seinni partur seríunnar kom ekki fyrr en í síðustu viku, sem angraði marga vana hámhorfi, einnig Ljósvaka.

Sá pirringur gleymdist þó um leið og kunnugleg andlit í vönduðum litríkum búningum birtust á skjánum, kammer-útgáfur af nýlegum poppslögurum glömruðu í tækinu og enn önnur ástarsagan tók upp þráðinn á ný, með tilheyrandi bresku hljóðfalli. Að þessu sinni voru það þau Colin Bridgerton og Penelope Featherington, nánir vinir til margra ára, sem voru í fyrirrúmi, þegar Colin sneri aftur úr ævintýralegum ferðalögum sínum og varð óvænt föngulegasti maðurinn á Mayfair-svæðinu.

Penelope hafði þá verið heil þrjú ár á markaðnum og enn ekki fundið sér eiginmann, sem í heimi Bridgerton samsvarar lífstíð af eymd og fátækt. Colin býðst þá til að hjálpa henni við að fá einhvern ágætan mann á skeljarnar, en ástin leitar ekki langt heldur byrjar að blómstra milli þeirra. En Penelope, sem er afbragðspenni og athugul kona, á sér leyndarmál. Hún skrifar hina alræmdu slúðurútgáfu Lady Whistledown, undir samsvarandi nafni, um helstu skandala íbúa Mayfair, þ.m.t. Bridgerton-fjölskyldunnar.

Höf.: Guðrún Sigríður Arnalds