Árið er 2003 Hreimur þegar hljómsveitin Land og synir var upp á sitt besta.
Árið er 2003 Hreimur þegar hljómsveitin Land og synir var upp á sitt besta. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Söngvarinn Hreimur Örn Heimisson fékk að kíkja á sitt fyrsta sveitaball árið 1993 í Njálsbúð en þá var hann aðeins í níunda bekk. Hann rifjaði upp sveitaballaárin í morgunþættinum Ísland vaknar. „Ég fékk bara að kíkja því ég var ekki kominn með aldur þarna

Edda Gunnlaugsdóttir

eddag@mbl.is

Söngvarinn Hreimur Örn Heimisson fékk að kíkja á sitt fyrsta sveitaball árið 1993 í Njálsbúð en þá var hann aðeins í níunda bekk. Hann rifjaði upp sveitaballaárin í morgunþættinum Ísland vaknar.

„Ég fékk bara að kíkja því ég var ekki kominn með aldur þarna. Nágrannakona okkar úr sveitinni sá um Njálsbúð og ég fékk að fara inn í eldhús að hjálpa henni að smyrja rækjusamlokurnar sem voru seldar í lok balls. Þarna var SS Sól að spila minnir mig,“ segir Hreimur. Slagsmálin hafi ekki verið jafn algeng á böllunum eins og margir halda. „Slagsmálin fylgdu því samt oft hvaða bönd voru að spila, það var til dæmis slegist meira á SS Sól heldur en á Sálinni. En það er fylgifiskur alls djamms þegar fólk er komið of langt.“

Ári síðar, þá í tíunda bekk, fær hann leyfi til að fara á sveitaball.

„Ég fór á hestbaki á ballið því pabbi leyfði mér ekki að fara á traktornum. Þar horfði ég á Vini vors og blóma, þeir voru með rosalega sýningu og það voru örugglega sex til átta hundruð manns á ballinu. Það reyktu allir inni en það gleymist svolítið í þessu. Maður lyktaði eins og öskubakki og auðvitað var þessi ómenning þegar fólk er farið að taka sitt eigið áfengi með. Allir með ylvolgar blöndur að fá sopa hjá hinum og þessum. Á barnum var bara keypt gos til að blanda og auðvitað rækjusamlokur,“ rifjar hann upp og hlær.

Nokkrum árum síðar var Hreimur kominn í framhaldsskóla og smitaðist af hljómsveitarbakteríunni. Ekki leið á löngu þar til hann var farinn að syngja á sveitaböllum með hljómsveitinni Landi og sonum. „Ég söng á mínu fyrsta balli á Hvolsvelli og það var stórkostlegt.“

Stútfullar rútur á planinu

Þegar Land og synir voru ný hljómsveit fengu þeir að spila á Þjóðhátíð en aðeins yfir daginn. Þá voru Sálin hans Jóns míns og Skítamórall mjög vinsælar. En hlutirnir fóru fljótt að vinda upp á sig og allt gerðist mjög hratt að hans sögn.

„Upplifunin að spila gat verið jafn klikkuð og jafn hræðileg. Hræðileg í þeim skilningi að það gat endað þannig að enginn mætti. En fyrir okkur, ef það mættu undir tvö hundruð manns, þá þótti það hræðilegt en í dag væri það bara fínt. En þetta gat verið algjör sturlun, fyrsta sveitaballið sem við héldum sjálfir var réttarball á Hellu. Þarna er lagið Vöðvastæltur komið út og við vitum ekki neitt. En þegar við mættum á svæðið voru nokkrar rútur á planinu. Það mættu allir.“

Hreimur segir sveitaballamenninguna alls ekki dauða en hún hafi breyst mikið á síðustu árum.

„Á meðan framhaldsskólarnir halda sín böll þá verða sveitaböllin til og á meðan háskólinn heldur sitt Októberfest, sem er flott tónlistarhátíð, þá verða sveitaböllin til. Á móti sól og Skítamórall héldu ball í Hlégarði núna fyrir stuttu og sprengdu húsið. Það var ball í Biskupstungum nú fyrir stuttu. En þetta fer ekki eins hátt. Á sínum tíma var verið að auglýsa þetta mjög mikið og við hljómsveitirnar með í gleðinni. En þetta er ekki hægt í dag,“ segir Hreimur og telur líklegt að verðlagið spili inn í.

„Árið 2000 kostaði um tvö þúsund krónur inn á sveitaböll. Þegar fólk er að mæta á flöskuböll eins og þau kallast, þegar fólk tekur með sitt eigið áfengi, þá má ekki kosta neitt mikið inn. Í dag þarf svo að sækja um leyfi til að halda þetta, það er líka erfitt því löggæslan er svo dýr. Svo þarf að ráða gæslu og áður en þú veist af ertu búinn að ráða um tuttugu manns í vinnu heilt kvöld og það er rosalega dýrt. Svo miði inn á sveitaball, ef þú ert að halda það sjálfur, væri nær átta þúsund kalli. Þetta er erfiðara en þetta er hægt og þetta er alveg gert.“

Ná vel saman

Nýtt lag er komið út með Hreimi, sem hann syngur ásamt Gunnari Ólasyni og Magna. Lagið heitir Árið 2001 og var samið á Hvolsvelli fyrir um þremur árum. „Við syngjum mikið saman, við Gunnar og Magni. Einhverra hluta vegna náum við mjög vel saman. Það er einhver strengur þarna. En meginparturinn af laginu er tekinn upp þegar við vorum búnir að fá okkur ansi marga en þetta eru upptökurnar frá Midgard á Hvolsvelli,“ segir hann hlæjandi að lokum.

Höf.: Edda Gunnlaugsdóttir