Sindri Freyr Guðmundsson fæddist í Reykjavík 13. október 1997. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 27. maí 2024.

Foreldrar hans eru Hafdís Lára Bombardier, f. 19. mars 1977, d. 16. febrúar 2005, og Guðmundur Georg Jónsson, f. 26. apríl 1975. Systkini Sindra eru Kolfinna Björk Bombardier, f. 13. mars 1996, Sveinn Ingi Guðmundsson, f. 1. júní 2008, og Arndís Ágústa Guðmundsdóttir, 7. ágúst 2016.

Sonur Sindra er Óliver Kristinn, f. 18. nóvember 2016. Barnsmóðir hans er Borghildur Gunnlaugsdóttir, f. 22. maí 1998. Eftirlifandi maki Sindra er Margrét Eyjólfsdóttir, f. 28. september 1995. Börn hennar og stjúpbörn Sindra Freys eru Sigurður Leó Stefánsson Price, f. 15. desember 2015, og Sigurborg Lóa Stefánsdóttir Price, f. 16. desember 2016.

Útför Sindra fer fram í Keflavíkurkirkju í dag, 20. júní 2024, og afhöfnin hefst klukkan 13.

Elsku Sindri.

26 ár og höfðum við svo mikið viljað hafa þau fleiri. Þú ætlaðir að lifa mun lengur og talaðir alltaf um það. Þú ætlaðir að sigra og ryðja veginn fyrir aðra sem þjást af sama sjúkdómi og þú.

Sem drengur varstu hlédrægur og feiminn en lífsglaður og kátur með eindæmum. Þú varst vanafastur og leið best í því öryggi sem þú varst búinn að skapa þér. Þú varst skugginn hennar systur þinnar allt frá því að hún flutti af landi brott. Þá komstu úr úr skelinni og sýndir mikið sjálfstæði og kjark. Heppnin var með þér að kynnast Boggu, enda gerði það samband þig að manni og saman eignuðust þið Óliver. Þú geislaðir þegar Óliver kom í heiminn og munum við þann dag, þegar við heimsóttum ykkur upp á spítala, eins og í gær. Þú ljómaðir og hélst á litla krílinu með miklu stolti. Þessi drengur gaf þér mikið, enda varstu mikill pabbi. Þið Bogga komuð gjarnan í heimsókn og þá áttum við margar stundir við borðstofuborðið þar sem við Bogga gátum hlegið að því hvað þú og pabbi þinn væruð einstaklega sérvitrir og líkir með margt. Því ekki voruð þið aðeins líkir í útliti, smáatriði í skoðunum og hegðun voru alveg skuggalega lík einnig.

Svo kynntist þú Margréti og þá byrjaði nýr kafli. Þið náðuð að sameina fjölskyldur ykkar ótrúlega vel og varstu hamingjusamur á ný. Óliver eignaðist systkini sem hann undi sér vel með og hún fékk þig til að víkka sjóndeildarhringinn og prófa og upplifa hluti sem þú hafðir ekki kynnst áður. Hún fær það erfiða verkefni að púsla saman lífinu án þín, sem er ansi verðugt verkefni út af fyrir sig. Enda er missirinn mjög mikill.

Þrátt fyrir að hafa lifað síðustu 10 ár vitandi að dauðinn væri möguleiki sýndir þú alltaf jákvæðni, mikinn viljastyrk og drifkraft og ætlaðir þér alltaf að sigrast á sjúkdómnum. Síðustu 3-4 ár helltir þú þér út í lestur á rannsóknum og öðru fræðiefni um heilann og allt sem honum viðkemur. Enda varstu orðinn fullur af fróðleik. Símtölin við pabba þinn voru oftar en ekki um þessa ráðgátu sem heilinn er, og skildi pabbi oft ekki helminginn af því sem þú varst að tala um.

Þegar fréttir bárust af að þú hefðir fengið stóra blæðingu grunaði okkur í hvað stefndi. Þarna er fólk komið í aðstæður sem eru sérstakar og gerast almennt ekki. Undirmeðvitundin undirbýr mann og er búin að gera það lengi, en að sama skapi getur maður aldrei verið fullkomlega undirbúinn.

Elsku drengurinn okkar, þú þjáðist ekki, þú þurftir ekki að lifa við hömlur eða vera heftur. Þú hefðir aldrei viljað það heldur, né getað. Þú varst alltof stoltur og sjálfstæður til þess.

Við trúum því að dauðinn sé ekki endalok, heldur partur af þessu ferðalagi sem er lífið. Þú færð núna að hitta mömmu, ömmu og frænku. Manneskjur sem þú elskaðir og saknaðir mikið. Það er vel tekið á móti þér.

Við eigum eftir að sakna þín elsku Sindri og munum halda minningu þinni á lofti með því að vera dugleg að tala um þig og minnast þín.

Hvíldu í friði, elsku drengurinn okkar og bróðir.

Pabbi, Gunnhildur (Gunnsa), Sveinn Ingi og Arndís.