Herjólfur Það hefur verið vel selt í ferjuna í sumar.
Herjólfur Það hefur verið vel selt í ferjuna í sumar. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Hörður Orri Grettisson framkvæmdastjóri Herjólfs segir bókunarstöðu sumarsins líta ágætlega út og vera svipaða og á sama tíma í fyrra. 1. júlí næstkomandi bætir Herjólfur við sig áttundu ferðinni. „Það er nýtt og við erum að bregðast við…

Hörður Orri Grettisson framkvæmdastjóri Herjólfs segir bókunarstöðu sumarsins líta ágætlega út og vera svipaða og á sama tíma í fyrra. 1. júlí næstkomandi bætir Herjólfur við sig áttundu ferðinni.

„Það er nýtt og við erum að bregðast við aukinni eftirspurn sem við höfum fundið fyrir síðustu ár eftir heimsfaraldurinn. Það hafa verið miklir flutningar í júlí og ágúst og við sáum okkur leik á borði með að auka þjónustuna. Við bætum við einni ferð inn í áætlunina okkar til reynslu í sex vikur,“ segir Hörður.

Júlí hefur verið stærsti mánuðurinn undanfarin ár en Þjóðhátíð stærsti viðburður eyjarinnar sem haldin er um verslunarmannahelgina. „Bókunarstaðan fyrir Þjóðhátíð lítur svipað út og fyrri ár en það er mjög vel selt í ferjuna þessa daga. Það er oftast uppselt, og þessar vinsælustu ferðir eru farnar, en auðvitað enn hægt að fá miða í einhverjar ferðir.“

Eru erlendir ferðamenn gera sér ferð til Vestmannaeyja? „Já, ekki spurning. Þessi umræða sem hefur verið í þjóðfélaginu um fækkun ferðamanna, við höfum ekki endilega séð það ennþá hjá okkur. En við fylgjumst auðvitað með. En það eru þessar stóru helgar, fótboltamótin, Goslokahelgin og aðrir stórir viðburðir, sem miklir flutningar eru í kringum. Þessar helgar bera þetta uppi að miklu leyti, þær eru þétt setnar og eru það langmest Íslendingar.“