Kvikmyndir Fjallað er um krabbamein í kvikmyndinni 50/50, frá árinu 2011.
Kvikmyndir Fjallað er um krabbamein í kvikmyndinni 50/50, frá árinu 2011. — Skjáskot/Youtube
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sýnt hefur verið fram á að kvikmyndir geta haft áhrif á álit einstaklinga á ákveðnum málefnum og gegna þannig mikilvægu samfélagslegu hlutverki við mótun hugmynda þeirra meðal annars um krabbamein. Kvikmyndir geta skilið eftir langtímaáhrif Dr

Baksvið

Guðrún S. Sæmundsen

gss@mbl.is

Sýnt hefur verið fram á að kvikmyndir geta haft áhrif á álit einstaklinga á ákveðnum málefnum og gegna þannig mikilvægu samfélagslegu hlutverki við mótun hugmynda þeirra meðal annars um krabbamein.

Kvikmyndir geta skilið eftir langtímaáhrif

Dr. David Benjamin starfar á Hoag Family Cancer Institute í Newport Beach í Kaliforníu. Oft og tíðum í gegnum árin hefur hann hitt sjúklinga með nýlega greint krabbamein sem hafa orð á því hvernig sjúkdómurinn var skilgreindur í kvikmynd sem þeir sáu. „Til dæmis, fyrir örfáum mánuðum, hitti ég skjólstæðing á stofunni með nýlega greint krabbamein sem sagði mér að í fyrstu hugsaði hann um bíómynd þar sem aðalpersónan lést úr krabbbameini aðeins örfáum dögum eftir greiningu. Þess vegna tel ég að kvikmyndir geti vissulega leikið stórt hlutverk þegar kemur að áliti fólks á krabbameini og jafnframt skilið eftir sig langtímaáhrif.“

Dr. Benjamin framkvæmdi viðamikla rannsókn í Bandaríkjunum ásamt dr. Mark Lythgoe, krabbameinssérfræðingi við Imperial College London, og dr. Arash Rezazadeh Kalebasty, krabbameinssérfræðingi við Kaliforníuháskóla í Irvine. Allir hafa svipaða upplifun í starfi sínu sem krabbameinslæknar um hvaðan fyrirfram mótaðar skoðanir sjúklinga og aðstandenda eru fengnar.

Hvernig Hollywood sýnir krabbamein

Rannsakendur horfðu á yfir 100 enskumælandi kvikmyndir frá árunum 2010-2020 þar sem krabbamein er meginþráðurinn í handritinu en niðurstöður voru birtar í JCO Oncology Practice í byrjun þessa árs.

Niðurstöður sýna að flestar kvikmyndirnar gefa ranga mynd af sjúkdómnum, líkum á lækningu, meðferðarmöguleikum, notkun líknandi meðferða og meðferðarkostnaði. Samkvæmt Hollywood-myndum greinast flestir með ólæknandi krabbamein, en líkur á lækningu eru óþekktar eða ekki teknar fram í öðrum kvikmyndum. Þetta endurspeglar ekki raunveruleikann og þá miklu þróun sem hefur átt sér stað í lækningum á síðustu árum.

Rannsakendur eru meðvitaðir um áherslu á skemmtanagildi kvikmynda frekar en fræðslu. „Í staðinn vonuðumst við til að verkefnið okkar myndi aðstoða almenning við að skilja að kvikmyndum er ætlað að skemmta og þær geta stundum ýkt sjúkdóminn,“ segir dr. Benjamin.

Á einnig við hér heima

Agnes Smáradóttir, yfirlæknir krabbameinslækninga á Landspítalanum, segir sig hafa upplifað eitthvað álíka í samskiptum sínum við sjúklinga og aðstandendur.

Hún segir niðurstöður rannsóknarinnar alveg í takt við það sem læknar þekkja hér heima. „Það lgengasta sem ég finn fyrir er að fólk spyr oft hvað á ég langt eftir og sér fyrir sér eins og í bíómyndum að maður líti djúpt í augun á þeim og segi þú átt svona langt eftir.“

Agnes bætir því við að auðvitað sé hlutirnir ekki svo svart á hvítu og að allt fari þetta eftir því hvernig meðferðin gengur.

Bæði nefna Dr. Benjamin og Agnes hvernig fólk sér fyrir sér að missa hárið og verða grátt og fölt. Agnes segir það alls ekki þá mynd af krabbameinssjúklingum sem þau sjái alla daga.

Líkt og fram kemur í rannsóknarniðurstöðum nefnir Agnes byltinguna sem hefur orðið í krabbameinslækningum síðustu árin. Nútímakrabbameinslækningar bjóða upp á ýmsa meðferðarmöguleika eins og aðgerðir í þjarka, geislameðferðir, lyfjameðferðir, háskammtalyfjameðferð með stofnfrumustuðningi og ónæmismeðferð. Sú síðastnefnda er meðferð sem örvar ónæmiskerfið og er notuð með öðrum krabbameinslyfjum. Meðferðin hefur breytt miklu varðandi meðferð á krabbameini á dreifðu stigi.

Það sem er einkar áhugavert eru líknandi meðferðir (e. palliative care), en samkvæmt rannsóknarniðurstöðum er nær ekkert komið inn á slíkar meðferðir í kvikmyndum. Agnes nefnir þessa meðferð sérstaklega og segir hana einskonar sérhæfða meðferð varðandi einkennin sem sjúkdómurinn veldur, en að hún sé notuð ásamt öðrum meðferðum. Þá er leitast við að skoða heildarmyndina, t.d. hvort það séu svefnvandamál, næringarvandamál, stress í umhverfinu eða álag sem hægt er að bæta úr.

Agnes segir lækna hér heima duglega að fylgjast með nýjungum erlendis. „Við erum stolt af okkur og við viljum vera á sama pari þótt við séum lítil,“ bætir Agnes við að lokum.

Höf.: Guðrún S. Sæmundsen