Kristján Heimir Lárusson fæddist 5. febrúar 1935 í Reykjavík. Hann lést 7. júní í Reykjanesbæ.

Foreldrar Kristjáns Heimis voru Lárus Salómonsson, lögregluvarðstjóri á Seltjarnarnesi, f. 11. september 1905, d. 24. mars 1987, og Kristín Gísladóttir húsfreyja, f. 18. júní 1908, d. 20. apríl 1983. Systkini Heimis eru: Ármann Jakob, f. 12. mars 1932, d. 14. nóvember 2012, Grettir, f. 3. ágúst 1933, d. 12. mars 1996, Brynja Kristín, f. 14. desember 1937, d. 26. október 2011, og Lárus, f. 7. júní 1944.

Heimir giftist Sigurlaugu Elísu Björgvinsdóttur hjúkrunarfræðingi 17. janúar 1959. Hún fæddist 21. apríl 1934 og lést 28. desember 2013. Synir þeirra og afkomendur eru: Hörður Már verkfræðingur, f. 2. maí 1955, kvæntur Ellen Söndru Heimisdóttur, f. 1957. Börn þeirra eru Margrét Elísa, f. 1981, og Kristján Shawn, f. 1984. Sonur Margrétar Elísu er Kristján Thor Clausen, f. 2006, og börn Kristjáns eru Lilja Louise, f. 2021, og Mikael Már, f. 2024. Þau búa í San Diego, Kaliforníu. Björgvin Örn tæknifræðingur, f. 29. maí 1959. Hann er ógiftur og býr í Kópavogi. Heimir Lárus véliðntæknifræðingur, f. 22. nóvember 1972, og starfar hjá Advania. Hann er kvæntur Aðalbjörgu Karlsdóttur, f. 1974, og börn þeirra eru Edda, f. 2007, Ásdís, f. 2009 og Sindri Karl, f. 2015. Þau búa í Kópavogi.

Heimir fluttist ungur til Kópavogs (1945) þar sem hann bjó á „sama blettinum“ í 55 ár, fyrst á Kársnesbraut 90 og svo með eiginkonu sinni og börnum á Kársnesbraut 92. Heimir og Lísa bjuggu síðan í Reykjavík og Hafnarfirði. Heimir flutti í Voga á Suðurnesjum 2021. Heimir byrjaði ungur að vinna. Hann var fjögur sumur í sveit hjá hjónunum Hannesi og Guðrúnu í Meðalholti í Flóanum. 14 ára fór Heimir að vinna á höfninni hjá Eimskip, fyrst í uppskipunargengi og svo á krana. Þaðan lá leiðin til Vita- og Hafnamálastofnunar þar sem hann vann á krana við að dýpka ýmsar hafnir landsins. Þá starfaði hann í mörg ár hjá Gunnari Guðmundssyni hf. sem bílstjóri. Árið 1968 hóf hann sjálfstæðan rekstur með kranaþjónustu og í framhaldi af því stofnaði hann kranafyrirtækið Heimir & Lárus sf. með Lárusi bróður sínum. Það varð síðar inn- og útflutningsfyrirtæki fyrir krana, vinnuvélar og varahluti. Hann vann þar vel kominn á níræðisaldur ásamt því að sinna sínu eigin kranafyrirtæki. Þegar hann var ekki að vinna á krananum var hann yfirleitt að búa til eitthvað úr engu. Það kom hvergi betur fram en í byggingu sumarbústaðarins, Lísuheima, í Hestlandi, þar sem fjölskyldan undi sér vel. Á seinni árum stundaði hann stálsmíði og trésmíðar. Heimir var virkur í stofnun Ungmennafélagsins Breiðabliks í Kópavogi sem og eiginkona hans, Lísa. Heimir og Ármann bróðir hans voru í Glímudeild Breiðabliks til fjölda ára. Auk þessa var Heimir meðlimur í Félagi vinnuvélaeigenda og í Oddfellow-reglunni til fjölda ára.

Jarðarförin fer fram frá Garðakirkju í dag, 20. júní 2024, klukkan 15.

Nú er fallin frá hæsta greinin í ættartré mínu, hann Heimir frændi. Hann byggði sitt fyrsta hús ungur við hliðina á foreldrum sínum á Kársnesbraut 36a en þau bjuggu á númer 36. Fyrsti áfanginn, jarðhæð með kjallaraívafi, var reistur að mestu með eigin framlagi og skiptivinnu við aðra. Það var ekki óalgengt á þessum tímum frumbyggja Kópavogs. Þegar þessi hluti hafði verið reistur í grófum dráttum, með einföldu gleri og hrátt að innan, var hafist handa við áfanga tvö. Sá áfangi fólst í því að lúið og nokkuð gamalt hús í laginu eins og bókstafurinn L var híft ofan á jarðhæðina. Það var hresst upp á það og búið í því ófá árin meðan verið var að koma jarðhæðinni í gott ástand. Gengið var upp í þann hluta með því að nota tréstiga sem var á auða horninu á jarðhæðinni. Það var ekki alltaf svo auðvelt í hvaða veðrum sem var og leiðinlegt ef enginn var heima. Þetta var þá leyst um tíma með þeirra tíma dyrasíma. Það var þannig að neðst við stigann var settur spotti til að toga í og hringdi þá bjalla fyrir utan inngöngudyrnar sem gaf þá merki um mannaferðir og óskað eftir því að einhver kæmi út ef viðkomandi væri heima. Húsið kláraðist svo á nokkuð mörgum árum og þá númerið á Kársnesbraut 36a komið í númer 92. Var þá falleg hæð risin ofan á jarðhæðina.

Heimir hafði stundum sérstaka kímnigáfu. Sem dæmi má nefna sögu úr heimahúsi foreldra hans. Eina helgina var hann heima ásamt Gretti, Brynju og Böggu kærustu Ármanns bróður hans og öll voru þau svöng. Í þá daga var ekki bara hægt að fara í ísskápinn eða skúffur til að fá sér eitthvað þegar hungrið knúði á. Bagga var elst og því leitað eftir lausnum hjá henni til að seðja mætti hungur þeirra. Hún hugsaði sig um og sagði eftir smá umhugsun hvort þau vildu ekki rommbúðing. Það tæki ekki langan tíma að búa hann til. Eftir rúmar fimm mínútur var hann borinn á borð. Ljósgrænn, sem var ekki algengasti liturinn á þessum búðingi. En hungrið var mikið og allir vildu vera fyrstir að fá skerf af búðingnum sem ilmaði af sætleika. Þegar öll voru farin að mettast var Bagga spurð nánar út í búðinginn. Hún játaði að hafa ekki fundið bréf með búðingnum sem Kristín mamma þeirra átti nær undantekningarlaust til. Því hefði hún þurft að notast við það sem kæmi sem best í staðinn fyrir duftið sem búðingurinn var búinn til úr. Það hafi verið matarlím, stífelsi, grænn matarlitur og vanilludropar. Mikill ótti greip um sig hjá systkinum Heimis um að þetta tæki nú upp á því að harðna í maga þeirra og breytast í steypuhlunk. Var ekki annað talið ráðlegt en að hringja á sjúkrabíl ef illa skyldi fara. Þegar þessar umræður stóðu sem hæst heyrðist frá Heimi: „Get ég fengið meira?“

Heimir skilaði góðu ævistarfi og var góður bakhjarl að eiga að þegar hann gat orðið manni að liði. Hann var af kynslóðinni sem hafði þá meginreglu að orð skyldu standa. Ég vil votta sonum hans og öllum sem tengjast þeim samúð mína á þessum tímamótum. Maður nokkur sagði fyrir vel rúmum áratug: „Guð blessi Ísland.“ Feta í fótspor hans og bið ykkur Guðs blessunar.

Sverrir Gaukur
Ármannsson.