[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stefán Á. Magnússon, framkvæmdastjóri Fasteignafélagsins G1 ehf., segir styttast í verklok á Grensásvegi 1 en félagið hefur byggt þar íbúðir og atvinnuhúsnæði. „Framkvæmdir hófust haustið 2020 og er áformað að ljúka öllum framkvæmdum á svæðinu um næstu áramót

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Stefán Á. Magnússon, framkvæmdastjóri Fasteignafélagsins G1 ehf., segir styttast í verklok á Grensásvegi 1 en félagið hefur byggt þar íbúðir og atvinnuhúsnæði.

„Framkvæmdir hófust haustið 2020 og er áformað að ljúka öllum framkvæmdum á svæðinu um næstu áramót. Í fyrstu tveimur áföngum verksins, Grensásvegi 1d og 1e annars vegar og Grensásvegi 1b hins vegar, hafa verið seldar 85 íbúðir af 91 íbúð og eru því sex fullbúnar íbúðir óseldar á lóðinni.

Alls 167 íbúðir

Áfangi þrjú, sem inniheldur 76 íbúðir á Grensásvegi 1a & 1f, kom í sölu í lok maí og hafa verið seldar 18 íbúðir. Afhending á áfanga þrjú fer fram fyrir næstu áramót. Áfangi fjögur, Grensásvegur 1c, hefur að geyma 14 íbúðir sem eru ekki komnar á sölu. Þannig að samtals hafa verið settar 167 íbúðir á markað og þar af eru seldar 103 íbúðir sem samsvarar 62% söluhlutfalli. Allri uppsteypu á lóðinni er lokið og er verið að klæða öll húsin að utan og ganga frá lóð. Þannig að nýjum íbúðum sem eru afhentar fyrir áramót fylgir einnig góður frágangur á lóð,“ segir Stefán en inngarður er á milli húsanna sem snýr til suðurs.

Fullfrágengnar

Stefán segir íbúðirnar afhentar fullfrágengnar með tækjum á baðherbergi og í eldhúsi og með parketi og flísum í hólf og gólf. Þá sé öllum íbúðum skilað með innfelldum led-ljósum og ljósaspegli á baðherbergi. „Raunar er þeim skilað á þann hátt að kaupendur geta flutt inn í fullbúna íbúð sem er mikill kostur fyrir flesta kaupendur í dag,“ segir Stefán sem bauð Morgunblaðinu að skoða nýbyggingarnar á góðviðrisdegi í síðustu viku. Mikið útsýni frá efstu hæðum vakti athygli, ekki síst frá skrifstofubyggingunni sem snýr að Glæsibæ.

„Við erum einnig með um fjögur þúsund fermetra af atvinnuhúsnæði til útleigu og þar af er stærstur hluti skrifstofuturn sem vísar í norður í átt að Laugardalnum og Glæsibæ en þaðan er mikið útsýni af efri hæðum og út á sundin blá. Þá er þjónustu- og verslunarrými á jarðhæð húsanna og hefur fyrsti leigutakinn, sem er hárgreiðslustofa, þegar hafið rekstur í einu þessara þjónusturýma meðfram Grensásveginum og upp við Skeifuna,“ segir Stefán.

Hugmyndir um endurhönnun

Uppbyggingin á Grensásvegi 1 felur í sér þéttingu byggðar. Þar var áður bygging sem hýsti undir lokin Kvikmyndaskóla Íslands. Sunnan við lóðina er bygging í eigu Veitna og eru hugmyndir um að endurhanna efri hæð hennar m.t.t. inngarðsins milli nýju fjölbýlishúsanna.

„Undir húsunum er bílakjallari á þremur hæðum og geta íbúðareigendur leigt sér stæði þar, kjósi þeir svo, frekar en að eiga það. Hraðhleðslustöðvar eru í bílakjallaranum og mun ON sjá um rekstur þeirra enda eru þeir með þjónustusvörun allan sólarhringinn og áreiðanlegan tækjabúnað. Það verða líka deilibílar í kjallara og rúmgóðar hjólageymslur fyrir íbúðar- og atvinnuhúsnæðið. Lóðin er líka vel staðsett með tilliti til almenningssamgangna, meðal annars fyrsta áfanga borgarlínu, og eru verslanir og ýmis þjónusta í göngufæri, sem og frístunda- og útivistarsvæðið í Laugardal,“ segir Stefán.

Archus og Rýma arkitektar hönnuðu byggingarnar og fer Mannvit með verkfræðihönnun og byggingarstjórn. Alls er 181 íbúð á lóðinni og eru þær að meðaltali um 80 fermetrar. „Stærð íbúða hentar þeim vel sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð eða eru að minnka við sig og vilja færa sig miðsvæðis þar sem alla þjónustu er að finna,“ segir Stefán að lokum.

Höf.: Baldur Arnarson