Búsifjar Bændur á Norður- og Austurlandi hafa lent í verulegu tjóni.
Búsifjar Bændur á Norður- og Austurlandi hafa lent í verulegu tjóni. — Morgunblaðið/Atli Vigfússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Óvissa er um hversu miklu tjóni bændur hafa orðið fyrir í vetur og í vor. Víða eru miklar kalskemmdir í túnum, jarðvegurinn blautur og svo tók verra við þegar snjóaði og frysti á Norður- og Austurlandi í byrjun mánaðarins

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

Óvissa er um hversu miklu tjóni bændur hafa orðið fyrir í vetur og í vor. Víða eru miklar kalskemmdir í túnum, jarðvegurinn blautur og svo tók verra við þegar snjóaði og frysti á Norður- og Austurlandi í byrjun mánaðarins. Bændasamtökin funduðu með ráðherra strax í kjölfar óveðursins og fengu góð fyrirheit um bætur, að sögn Örvars Þórs Ólafssonar, starfandi framkvæmdastjóra Bændasamtakanna.

Hann segir að fjárdauði hafi verið talsverður en tölur liggi ekki fyrir.

„Það voru ekki bara lömb sem drápust heldur líka ærnar sem eru vetrarrúnar og ekki tilbúnar í svona veður. Fleiri þættir eiga eftir að koma fram eins og hvort þetta bakslag geti haft áhrif á fallþunga lamba í haust þar sem hvert einasta kíló skiptir máli í afkomu bændanna,“ segir Örvar Þór.

Hann segir of snemmt að meta heildartjónið sem bændur hafa orðið fyrir og nefnir fyrst atburðina sem tengdust júníhretinu. Haft var samband við yfir 300 bændur á Norður- og Austurlandi til að veita þeim ráðgjöf og stuðning og afla upplýsinga um mögulegt tjón hjá þeim.

Eins og fram hefur komið í fréttum mbl.is hefur verið skipaður viðbragðshópur sem á að hafa yfirsýn og leggja mat á það tjón sem bændur hafa orðið fyrir. Viðbragðshópurinn er skipaður fulltrúum frá matvæla- og innviðaráðuneytinu, Bændasamtökunum, Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins, Almannavörnum og lögregluembættunum á Norðurlandi vestra og eystra.

„Á þessum tímapunkti vitum við ekki hversu mikill skaði hefur orðið. Fyrst var að halda yfirsýn meðan á veðrinu stóð og við reyndum að veita þeim bændum aðstoð sem þurftu á henni að halda, í góðu samstarfi við viðbragðsaðila á viðkomandi svæðum. Núna erum við að afla upplýsinga og ég vil nota tækifærið og hvetja bændur til að skrásetja og mynda það tjón sem þeir hafa orðið fyrir,“ segir Örvar Þór.

Hann segir að verklag í kringum skemmd tún þurfi að meta í hverju tilviki.

„Þar skipta máli greinargóðar ljósmyndir og jafnvel drónamyndir. Kostnaður vegna kalskemmda getur bæði verið vegna endurgerðar á túnum og fóðurkaupa vegna heyskorts í framhaldi af kalskemmdum. Bjargráðasjóður hefur sett fram verklagsreglur um styrkumsóknir vegna kals í túnum, en við bíðum eftir verklagsreglum frá ráðueytinu um hvernig standa skuli að skráningu á öðru tjóni.“

Getur haft áhrif á fallþungann

Örvar Þór segir að í sumum tilfellum hafi verið búið að sá og sáningin sé ónýt sem geti valdið kostnaði upp á mörg hundruð þúsund og jafnvel milljónir. Ástandið sé víða slæmt fyrir aðrar greinar í útiræktun vegna bleytu og kals. Núna sé staðan sú að jarðvegurinn sé gríðarlega blautur í Húnavatnssýslum, Skagafirði, Eyjafirði, Þingeyjarsýslum og austur á Hérað. Það muni hafa áhrif á kornuppskeru og grænmetisrækt, en afleiðingarnar sjáist ekki fyrr en í haust.

Höf.: Óskar Bergsson