[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gestgjafar Þýskalands voru svo gott sem búnir að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum EM 2024 í knattspyrnu karla eftir að hafa lagt Ungverjaland að velli, 2:0, í 2. umferð A-riðils í Stuttgart í gær

EM 2024

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Gestgjafar Þýskalands voru svo gott sem búnir að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum EM 2024 í knattspyrnu karla eftir að hafa lagt Ungverjaland að velli, 2:0, í 2. umferð A-riðils í Stuttgart í gær.

Þjóðverjar voru á toppi riðilsins með fullt hús stiga, sex, þegar blaðið fór í prentun í gær. Hafi Skotland ekki unnið leik sinn gegn Sviss, sem var þá nýhafinn í riðlinum um kvöldið, var sæti Þýskalands í 16-liða úrslitum tryggt.

Ungverjar eru án stiga og von þeirra um að komast áfram er orðin verulega veik.

Eina leiðin fyrir Þjóðverja að komast ekki áfram með sex stig, sem duga svo gott sem alltaf, er ef fimm riðlar af sex enda með þrjú lið með sex stig. Líkurnar á því að það gerist eru sama og engar.

Þjóðverjar réðu ferðinni í fyrri hálfleik og kom ungstirnið Jamal Musiala þeim í forystu um hann miðjan eftir góðan undirbúning fyrirliðans Ilkays Gündogans. Musiala var markahæstur á mótinu með tvö mörk þegar þetta var ritað.

Í síðari hálfleik bitu Ungverjar frá sér og fengu nokkur prýðisfæri áður en Gündogan innsiglaði sigurinn um miðjan síðari hálfleik.

Dramatík í Hamborg

Fyrr um daginn höfðu Króatía og Albanía skilið jöfn, 2:2, í fyrsta leik 2. umferðar B-riðils í Hamborg.

Bæði lið eru nú með eitt stig í riðlinum og eiga enn möguleika á því að komast í 16-liða úrslit þó það muni reynast erfitt þar sem Albanía mætir Spáni og Króatía mætir Ítalíu í lokaumferðinni á mánudag. Spánn og Ítalía eru bæði með þrjú stig og mætast í 2. umferðinni í kvöld.

Líkt og lokatölurnar gefa til kynna var leikurinn bráðskemmtilegur og æsispennandi.

Albanía var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og náði forystunni eftir aðeins 11 mínútna leik. Þá skoraði Qazim Laci.

Í síðari hálfleik stýrðu Króatar ferðinni lengst af og tókst loks að jafna metin á 74. þegar Andrej Kramaric skoraði. Aðeins tveimur mínútum síðar skoraði varamaðurinn Klaus Gjasula slysalegt sjálfsmark og Króatía komið yfir.

Gjasula bætti hins vegar upp fyrir það með því að jafna metin á fimmtu mínútu uppbótartíma og tryggja Albaníu fyrsta jafntefli sitt í sögu EM.

Höf.: Gunnar Egill Daníelsson