Baldvin Björgvinsson
Baldvin Björgvinsson
Gervigreind hefur mikil áhrif á nám og kennslu. Bregðast þarf við af ákveðni á öllum stöðum í menntakerfinu.

Baldvin Björgvinsson

Aldrei í mannkynssögunni hefur kennsla gengið í gegnum jafn miklar breytingar á jafn stuttum tíma eins og síðustu áratugi. Síðasta breytingin á undan gervigreindinni var snjalltækin, farsímarnir og þar á undan tölvutæknin. Kennarinn þarf ætíð að bregðast við öllum breytingum, því óhætt er að segja að enginn annar geri það. Í þeim tæknibreytingum sem hafa riðið yfir hafa nemendur alltaf verið tíu skrefum á undan kennaranum, enda er það einn helsti hæfileiki ungs fólks að eiga auðvelt með að aðlagast. Þannig er staðan nú, nemendur eru tíu skrefum á undan flestum kennurum í að nýta sér nýjustu snjalltæknina sem við köllum gervigreind.

Hvað er það sem nemendur gera? Þeir nota þessa gervigreind til dæmis til að svara spurningum, gera ritgerðir og almennt leysa fyrir sig verkefni sem venjulega væru leyst af manneskjum.

Í þessum pistli verður ekki talið upp allt sem gervigreindin getur gert eða mun geta gert því sú upptalning yrði næstum endalaus. Ef gervigreindin getur ekki eitthvað í dag, þá getur hún það á morgun eða hinn.

Á ráðstefnunni „Empowering Tomorrow's Workforce: Exploring AI and Future Tech in VET and C-VET“, sem fram fór í Varsjá í Póllandi 12.-13. júní 2024, kom skýrt fram að nauðsynlegt er að bregðast hratt við. Í aðildarlöndum ráðstefnunnar, Íslandi, Liechtenstein, Noregi og Póllandi, er nú þegar viðbragð í gangi en allir eru sammála um að tæknin sé alltaf töluvert á undan.

Margir kennarar hafa nú þegar brugðist við og þeir sem átta sig eru hættir að nota próf og aðrar námsmatsaðferðir þar sem gervigreind getur skekkt niðurstöðuna. Með öðrum orðum hætt að nota aðferðir þar sem hægt er að svindla með notkun gervigreindar, til dæmis með heimarituðum ritgerðum bæði á íslensku og öðrum tungumálum. Gervigreindin leysir líka reikningsdæmi bæði einföld og flókin, gerir myndir, línurit og ýmislegt annað mjög flókið.

Kennarar búa yfir mörgum verkfærum til kennslu og námsmats og geta auðveldlega breytt kennslunni eins og augljóslega kom fram á covid-tímabilinu. Það breytir því þó ekki að kennarar þurfa stuðning frá sínu baklandi. Það bakland er menntavísindin og vinnuveitendur kennara. Kennaraháskólinn þarf að stíga af mikilli alvöru inn í umræðuna um gervigreind og koma fram með skýr viðbrögð, tillögur, ábendingar og lausnir sem kennarar geta notað í störfum sínum. Jafnvel reynda kennara sem eru í fararbroddi nýrra kennsluaðferða skortir ný verkfæri til að takast á við gervigreindina og ekki síður að nýta hana í kennslu. Í kennaranámi þurfa nýjar kennsluaðferðir og ný tækni að vera áberandi hluti. Stjórnendur í skólum þurfa að bregðast við og fara þarf yfir hvort námsefni og námsmat tekur tillit til þeirra breytinga sem nú þegar hafa komið fram og fyrirsjáanlegra breytinga í nánustu framtíð. Stjórnendur þurfa að taka frá tíma fyrir kennara til að læra á nýja tækni og aðlagast. Skólastjórnendur þurfa í einhverjum tilfellum að taka stjórnina og sjá til þess að stefnt sé í rétta átt. Ráðuneyti menntamála þarf að stíga fastast inn af öllum, af mestri alvöru af öllum aðilum, og bregðast við með því að sjá til þess að kennarar og þeir sem kenna kennurum fái tækifæri til að fá þá þjálfun sem þeir þurfa til að bregðast hratt við notkun gervigreindar í skólastarfi sem þróast með ógurlegum hraða.

Höfundur er formaður Félags kennara í rafiðngreinum.

Höf.: Baldvin Björgvinsson